Hvar lenda sendingarnar núna?
,,Um þessar mundir gerum við breytingar á póstþjónustu í Mosfellsbæ og Garðabæ. Þar verður pósthúsum lokað frá og með 1. maí, en þess í stað settur meiri þungi á aðrar afgreiðslulausnir. Viðskiptavinir á svæðinu þurfa þó ekki að örvænta, enda ætlum við að halda áfram að veita framúrskarandi þjónustu!“ Segir í tilkynningu Póstsins þar sem breytingarnar eru kynntar:
Þjónustubreytingar í Garðabæ og Mosfellsbæ
Á síðustu árum hefur póstþjónusta á Íslandi tekið stórfelldum breytingum. Frá árinu 2010 hefur fjöldi bréfasendinga dregist saman um 74% en á sama tíma hafa pakkasendingar margfaldast. Verulega hefur dregið úr eftirspurn eftir afgreiðsluþjónustu pósthúsa en notkun annarra þjónustulausna fer sívaxandi. Við hjá Póstinum kappkostum að aðlagast hratt og örugglega og að þróa þjónustu okkar í takt við breyttar þarfir og kröfur viðskiptavina.
Hér höfum við tekið saman svör við helstu spurningum vegna lokana ásamt upplýsingum um póstþjónustulausnir sem íbúar geta nýtt sér:
Hvernig verður dreifingu bréfa háttað?
Hún verður áfram í höndum fræknu bréfberanna okkar sem láta hvorki vond veður né slæma færð stöðva sig. Landpóstar halda svo áfram að dreifa bréfum og pökkum tvisvar í viku í dreifbýli Mosfellssveitar.
Hægt er að póstleggja bréf með því að setja á það frímerki og skila því í næsta póstkassa eða fá afgreiðslu á næsta pósthúsi.
Hvernig verður dreifingu pakka háttað?
Við bjóðum upp á fjölda afhendingarmöguleika. Nú er hægt að afgreiða pakka í Póstboxum og Pakkaportum, öðrum pósthúsum á höfuðborgarsvæðinu eða óska eftir heimsendingu. Viðskiptavinir geta svo skráð og breytt afhendingarvali eftir hentugleika á Mínum síðum eða í Póst-appinu.
Póstboxer sú þjónustulausn sem nýtur mestra vinsælda hjá viðskiptavinum okkar. Póstbox eru sjálfsafgreiðslukassar þar sem bæði er hægt að sækja og senda pakka. Póstbox eru staðsett í alfaraleið um allt land.
- Í Mosfellsbæ er Póstbox við Atlantsolíu í Sunnukrika.
- Í Garðabæ er Póstbox við Orkuna hjá Litlatúni.
- Um þessar mundir leitum við leiða til að fjölga Póstboxum í Mosfellsbæ og Garðabæ.
- Póstbox eru opin allan sólarhringinn svo viðskiptavinir geta sótt eða sent, hvenær sem þeim hentar.
- Til að senda með Póstboxi þurfa viðskiptavinir að skrá sendinguna fyrir fram og virkja sjálfvirkar greiðslur á Mínum síðum eða í Póst-appinu. Einnig auðveldar sjálfvirk skuldfærsla alla afhendingu sendinga.
- Auðvelt er að fá einhvern annan til að sækja fyrir sig með því að áframsenda SMS eða tölvupóst.
Hér getur þú skráð þig í Póstbox.
Hvar lenda sendingarnar mínar núna?
Þeir sem voru með afhendingarval skráð á pósthúsin sem nú hefur verið lokað verða sjálfkrafa skráðir á næsta þjónustupósthús. Þetta gildir einnig um þá sem ekki hafa tilgreint afhendingarval. Þjónustupósthús Garðbæinga verður pósthúsið í Hafnarfirði en þjónustupósthús Mosfellinga verður á Höfðabakka 9.
Við hvetjum viðskiptavini til að kynna sér fjölbreytta afhendingarmöguleika og velja það sem hentar best. Auk Póstboxa er hægt að sækja í Pakkaport, á pósthús á höfuðborgarsvæðinu eða óska eftir heimsendingu. Viðskiptavinir geta skráð og breytt afhendingarvali eftir hentugleika á Mínum síðum.
Þurfa viðskiptavinir að breyta einhverju?
Ferlið verður sjálfvirkt og krefst þess ekki að viðskiptavinir geri neinar breytingar, nema þeir kjósi sjálfir. Pósthólfanúmer, Póstboxanúmer og utanáskriftir haldast óbreytt.
Hvar er næsta pósthús?
Þjónustupósthús Garðbæinga verður pósthúsið í Hafnarfirði en þjónustupósthús Mosfellinga verður á Höfðabakka 9. Viðskiptavinir geta þó breytt afhendingarvali eftir hentugleika inni á Mínum síðum.
Fyrirtæki
Við höldum áfram að leggja áherslu á framúrskarandi þjónustu við fyrirtæki á svæðunum og munum veita sérstakan aðlögunarafslátt í þrjá mánuði af Sækjum og sendum fyrirtækjaþjónustunni. Þú getur sérsniðið þjónustuna að þínum þörfum í Póst-appinu eða á Mínum síðum. Auk þess er alltaf velkomið að hafa samband við þjónustuver í síma 580 1000, í netspjallinu eða á postur@postur.is.