Eldur kviknaði á veitingahúsi á neðstu hæð Turnsins á Höfðatorgi í Reykjavík skömmu fyrir hádegi. Vel gekk að slökkva en tjónið er talið mikið. Húsið var rýmt og foreldrum barna á leikskóla í nágrenninu gert að sækja þau vegna reyksins.
Vel gekk að slökkva eld sem kviknaði á neðstu hæð Turnsins við Höfðatorg í Reykjavík skömmu fyrir hádegi. Byggingin var rýmd og tjónið er mikið.
Eldurinn logaði á veitingastað á neðstu hæð, enginn var í hættu og allir komust út. Leikskólinn Bríetartún er í nágrenninu. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu ríkisútvarpsins, komst reykur inn í rýmið og voru foreldrar beðnir um að sækja börn sín.
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir fréttamaður sagði í beinni útsendingu í hádegisfréttum að búið væri að slökkva eldinn en verið að klára að ganga frá.
Unnar Már Ástþórsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni segir engan hafa verið í hættu og fólk getað brugðist skjótt við. Tjónið sé mikið, ekki aðeins út af eldinum heldur einnig út af vatni sem notað var við slökkvistörf.