Hugleiðingar veðurfræðings
Seinnipart síðustu viku var fellibylurinn Erin að þokast til norðausturs, tiltölulega langt úti fyrir austurströnd Bandaríkjanna. Náði hún um tíma styrkleikanum fimm, sem er efsta styrkleikastig fellibylja, en missti smám saman kraftinn eftir því sem hún barst lengra til norðurs yfir kaldari sjó. Um helgina var hún komin á svæðið suðaustur af Nýfundnalandi og gekk þá hlýtt hitabeltisloftið í fellibylnum í veg fyrir svalara loft úr norðri og tók þar með þátt í hefðbundinni lægðadýpkun á þessum slóðum, sem við þekkjum svo vel og fáum oft að kenna á.
Nú þegar þetta er skrifað er lægðin (leifar fellibylsins Erin) stödd 450 km S af Vestmannaeyjum og þrýstingur í miðju hennar 962 mb, sem er mjög djúpt fyrir árstímann. Það mun enda blása hressilega af austri á landinu í dag. Allhvass eða hvass vindur sunnanlands, hvassast allra syðst. Víða strekkingur í öðrum landshlutum. Súld og rigning verður viðloðandi um landið sunnan- og austanvert. Norðan- og vestanlands verður hins vegar lítil úrkoma og jafnframt nokkuð hlýtt, kringum 20 stig þegar best lætur, enda loftið yfir landinu hlýtt og að hluta til ættað innan úr fellibylnum.
Á morgun gera spár ráð fyrir að títtnefnd lægð verði áfram fyrir sunnan landið, en grynnist hratt og vindur gefur því eftir. Súld ennþá á suðaustan- og austanverðu landinu. Í öðrum landshlutum skýjað með köflum með möguleika á smávegis skúrum hér og þar og áfram hlýtt.
Spá gerð: 26.08.2025 06:37. Gildir til: 27.08.2025 00:00.
Gul viðvörun vegna veðurs: Suðurland og Suðausturland
Veðurhorfur á landinu
Austan 8-15 m/s í dag, en 15-20 syðst. Súld eða rigning með köflum, en úrkomulítið á Norður- og Vesturlandi. Hiti 11 til 21 stig, hlýjast norðan- og vestantil.
Austan og suðaustan 5-13 á morgun. Skýjað með köflum og sums staðar dálitlir skúrir, en súld eða rigning við suðaustur- og austurströndina. Hiti breytist lítið. Spá gerð: 26.08.2025 08:05. Gildir til: 28.08.2025 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Austlæg eða breytileg átt 3-10 m/s. Súld suðaustan- og austantil, annars þurrt að kalla, en líkur á skúrum síðdegis. Hiti 9 til 19 stig, hlýjast á Norðurlandi.
Á föstudag:
Snýst norðaustan 3-10 og fer að rigna, en úrkomulítið um landið vestanvert. Hiti 8 til 17 stig, mildast suðvestanlands.
Á laugardag og sunnudag:
Norðan og norðaustan 5-13 og súld eða rigning með köflum, en þurrt að mestu um landið suðvestanvert. Hiti breytist lítið.
Á mánudag:
Norðlæg átt og væta með köflum, en þurrt og milt sunnanlands.
Spá gerð: 26.08.2025 08:26. Gildir til: 02.09.2025 12:00.