Rétt fyrir klukkan fjögur í morgun var áhöfn björgunarskipsins Hafbjargar í Neskaupsstað kölluð út. Fiskibátur sem var staddur 22 sjómílur austur af Barðanum hafði misst vélarafl.
Fjórir skipverjar um borð
Hálftíma eftir að útkall barst var Hafbjörgin lögð úr höfn og tók stefnuna að bátnum. Fjórir skipverjar voru um borð og biðu þeir eftir aðstoð í nokkrum vindi, 5 til 10 metrum á sekúndu frá suðvestri.
Sigling Hafbjargar að bátnum gekk vel og rétt upp úr klukkan hálf sjö í morgun tókst áhöfn Hafbjargar að koma taug yfir í bátinn og í kjölfarið var stefnan sett til lands með bátinn í togi. Skipin eru nú á rólegri siglingu á um 8 sjómílna hraða austur af Reyðarfirði.
Umræða