Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, er meðal 34 ráðherra íþróttamála sem lýsa alvarlegum efasemdum um ákvörðun Alþjóðaólympíunefndar fatlaðra (IPC) að falla frá takmörkunum á þátttöku Rússlands og Belarús á ólympíumóti fatlaðra.
Þrjátíu og þrjú ríki standa að yfirlýsingunni ásamt framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Hún fylgir í kjölfar kosningar aðildarfélaga IPC um að viðhalda ekki þeim takmörkunum sem settar voru vegna innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu með stuðningi Belarús. Í yfirlýsingunni er bent á að árásir Rússa standi enn og sömuleiðis brot Rússa og Belarús á Ólympíusáttmálanum.
Löndin virða sjálfstæði og sjálfræði íþróttasamtaka og trúa á sameinandi kraft íþrótta og íþróttahreyfingar fatlaðra. Bent er á að Alþjóðaólympíunefndin (IOC) tilkynnti 19. september 2025 um óbreytta afstöðu sína um enga þátttöku undir merkjum Rússlands eða Belarús á vetrarólympíuleikunum í Mílanó Cortina 2026.
Samkvæmt IPC er ólíklegt að nokkur íþróttamaður frá Rússlandi eða Belarús tryggi sér þátttökurétt á vetrarólympíuleikum fatlaðra í Mílanó Cortina 2026. Í yfirlýsingunni er kallað eftir skýringum um hvaða þýðingu ákvörðun aðildarfélaga IPC muni hafa fyrir paralympíska íþróttaviðburði eftir vetrarólympíuleikana sem og fyrir þau svæði undir Ólympíunefnd Úkraínu sem Rússland hefur tímabundið hernumið. Jafnframt er skorað á alþjóðleg sérsambönd að fylgja afstöðu IOC og tryggja enga þátttöku undir merkjum Rússlands eða Belarús á íþróttaviðburðum á þeirra vegum.

