Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, alþingiskona, átti góðan fund með framkvæmdastjóra VR, Stefáni Sveinbjörnssyni, mánudaginn 18. febrúar sl. Þar ræddi Áslaug Arna frumvarp sem hún hefur lagt fyrir þingið sem snýr að rýmri inntökuskilyrðum fyrir umsækjendur í háskóla. VR telur slík rýmri inntökuskilyrði til bóta fyrir marga félagsmenn og að þau séu breyting sem komi sér vel fyrir þá sem hafa mikla og dýrmæta reynslu af vinnumarkaðinum. VR tekur undir nauðsyn þess að opna háskólana fyrir námsmenn með fjölbreyttari bakgrunn en gert er í dag.
VR kynnti fyrir Áslaugu Örnu diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun, sem er fyrsta fagháskólanámið á Íslandi en VR vann að náminu í samstarfi við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Félagið á í virku samstarfi við háskólana um þetta verkefni og þar er vilji til breytinga og vilji til þess að halda áfram þróun raunfærnimats í háskólanum. Markmið VR er að félagsmenn, sem starfa í verslun, geti fengið reynslu sína staðfesta og skjalfesta. Í kjölfarið sé greið leið til áframhaldandi náms ef áhugi er fyrir því.
Þá kynnti VR henni einnig þróunarvinnu um heildsteypt fagnám fyrir starfsfólk í verslun sem unnið er að með Verzlunarskóla Íslands og lykilfyrirtækjum. Um er að ræða 90 eininga fagnám þar sem stór hluti þess fer fram í vinnustaðanámi. Við þróun námsins er lögð áhersla á möguleika námsmanna á því að fara í áframhaldandi nám og ótvírætt sé að þeir sem kjósa geti haldið áfram í diplómanámið í viðskiptafræði og verslunarstjórnun.