Rétt fyrir minættið þann 20. febrúar valt bifreið út af veginum í Hestfirði, n.t.t. við Geitahvammsá. Auk ökumanns voru þrír farþegar í bifreiðinni. Enginn slasaðist, enda öll með öryggisbelti og viðeigandi verndarbúnað. Annað umferðaróhapp varð í Breiðdadal um miðjan dag þann 22. febrúar þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og hafnaði hún utan vegarins. Hvorki ökumaður né farþegi meiddust, enda báðir í öryggisbelti.
Þá varð árekstur við hringtorgið á Ísafirði þann 24. febrúar þegar ekið var aftan á bifreið sem var stöðvuð meðan ökumaður beið eftir að komast inn í hringtorgið. Mikilvægt er að haga akstri í samræmi við aðstæður og má minna á mikilvægi notkunar öryggisbelta.
Eins og komið hefur fram áður varð eldur laus í nýbyggingu fiskeldisfyrirtækis í botni Tálknafjarðar snemma morguns þann 23. febrúar. Allt tiltækt slökkvilið og björgunarsveitir á sunnanverðum fjörðunum fóru á vettvang, auk 6 slökkviliðsmanna á tveimur slökkvibifreiðum frá Ísafirði. Tóks slökkviliði að verja nálægar byggingar og tanka. Slökkvistarfi lauk síðar sama dag. Rannsókn á tildrögum eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum, sem nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Ungur skíðamaður slasaðist í Tungudal síðdegis þann 24. febrúar. Sá var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði til aðhlynningar. Áverkar ekki lífshættulegir.
Seint að kveldi 24. febrúar bárust tilkynningar um að grjót væri að losna úr veggjum stystu jarðganga á Íslandi, svk. Arnarneshamarsgatinu á Súðavíkurhlíð. Vegagerðin hreinsaði grjótið af veginum. Vegfarendur eru beðnir um að gæta varúðar.
Aðfaranótt 19. febrúar hafði lögreglan afskipti af erlendum
ferðamönnum á Ísafirði. Í bifreiðinni reyndust vera umframfarþegar og var ökumaðurinn kærður fyrir það brot.
Einn ökumaður var stöðvaður, grunaður um að vera undir áhrifum áfengis við akstur á Barðaströnd rétt um miðnættið þann 25. febrúar
Einn ökumaður var kærður fyrir að aka sviptur ökuréttindum.
6 ökumenn voru kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir voru stöðvaðir í Reykhólasveit, Þröskuldum en einnig í Skutulsfirði.