Tómir ísskápar veiks og fatlaðs fólks
Fréttatilkynning: Fátækt, sem hingað til hefur verið vel falin, blasir nú við öllum sem vilja sjá
Nú er sá tími mánaðar runninn upp að öryrkjar eiga ekki lengur fyrir mat. Í síðustu viku fór fram mikið átak við að koma matvælum til um 570 fjölskyldna á Reykjavíkursvæðinu. Ekki verður úthlutað á vegum Fjölskylduhjálpar Íslands í þessari viku. Það er ljóst að örorkulífeyrisþegar hafa flestir hverjir lítið milli handanna seinni hluta mánaðarins, of lítið til að kaupa matvæli, auk þess sem margir treysta sér ekki út á meðal fólks vegna undirliggjandi sjúkdóma.
Nú þegar fjarar undan asa daglegs lífs þjóðfélagsins, blasir við það vandamál að alltof margir lifa ekki af lífeyri sínum mánuðinn á enda, og neyðast því til að treysta á hjálparsamtök. Þegar sú aðstoð bregst, er lítið um bjargir. Fátækt, sem hingað til hefur verið vel falin, blasir nú við öllum sem vilja sjá.
Fyrir viku síðan var sett á fót sérstakt viðbragðsteymi sem á að taka við málum sem varða viðkvæma hópa í samfélaginu. Þrátt fyrir að vika sé liðin frá því viðbragðsteymið var sett upp, er hvergi að finna upplýsingar fyrir almenning, hvernig hægt sé að óska aðstoðar teymisins. Ekki á covid.is ekki á vefsíðu landlæknis, né félagsmálaráðuneytisins.
Frá þessu teymi barst skýrsla í dag um starf þess þessa fyrstu daga.
Þar segir að ábendingar hafi borist um að margt fatlað fólk sé óöruggt og hafi áhyggjur af mögulegri takmörkun á þjónustu, þjónustu sem þau sum hver eru háð í daglegu lífi.
Ekki aðeins er margt fatlað fólk óöruggt vegna smithættu, fólk er uggandi yfir því hvenær það fær næst að borða. Forsætisráðherra hefur líkt ástandinu við stríðsástand. Sagan kennir okkur að í stríðsástandi er fatlað fólk og veikt, fyrst til að verða skilið eftir.
Öryrkjabandalag Íslands krefst aðgerða strax. Skiljum engan eftir!
https://gamli.frettatiminn.is/unnar-graetur-vegna-stodu-sinnar-sem-oryrki/?fbclid=IwAR0FULbdkztZwf6YpmKgz9lKngPS0UgeHMrNrr5_MTP6OJPtIC5LgJWTSKQ