Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.
Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. mars, en alls var tilkynnt um 24 umferðaróhöpp í umdæminu.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 14. mars. Kl. 12.25 var bifreið ekið á sjö kyrrstæðar bifreiðar á bifreiðastæði í Álfheimum í Reykjavík, áður en hún hafnaði á húsvegg og staðnæmdist þar. Einn var fluttur á slysadeild. Kl. 14.14 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Kópavogi, við Dalveg, og utan í aðra bifreið í sömu akstursstefnu. Í framhaldinu hafnaði síðarnefnda bifreiðina utan vegar, en hún fór í gegnum grindverk á vinnusvæði áður en hún staðnæmdist. Einn var fluttur á slysadeild.
Kl. 16.09 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Garðahrauns og Suðurhrauns í Garðabæ. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en sá hinn sami er grunaður um ölvunarakstur. Og kl. 17.49 varð tveggja bíla árekstur á Vatnsendavegi í Garðabæ, vestan við hesthúsahverfi og gatnamót að Hattarvöllum. Einn ætlaði sjálfur að leita sér aðstoðar á slysadeild. Talið er sólin hafi blindað annan ökumanninn í aðdraganda slyssins.
Miðvikudaginn 15. mars kl. 8.06 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg í Mosfellsbæ, við Skarhólabraut, og aftan á aðra bifreið, sem við það kastaðist áfram á þriðju bifreiðina. Tveir voru fluttir á slysadeild. Grunur er um að ökumaður hafi verið að tala í síma án handfrjáls búnaður í aðdraganda slyssins.
Fimmtudaginn 16. mars kl. 11.01 varð tveggja bíla árekstur á Breiðholtsbraut í Reykjavík, við Seljaskóga. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 18. mars. Kl. 5.33 féll hjólreiðamaður af rafhlaupahjóli í Lækjargötu í Hafnarfirði. Hálka var á vettvangi. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 17.58 varð tveggja bíla árekstur á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, vestan við Straumsvík. Þeim var ekið úr gagnstæðri átt, en önnur bifreiðin er talin hafa runnið yfir á öfugan vegarhelming með fyrrgreindum afleiðingum.
Mikil hálka var á vettvangi. Fimm voru fluttir á slysadeild. Og kl. 19.16 missti ökumaður bifreiðar stjórn á henni á Stórhöfða í Reykjavík og hafnaði bifreiðin á steypublokk. Mikil hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Umræða