Fréttatilkynning frá Starfsgreinasambandi Íslands
Starfsgreinasamband Íslands ítrekar nauðsyn þess að aðgerðir stjórnvalda í kjölfar Covid-19 nái til allra, og að afkomuöryggi hópa, s.s. einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma, óléttra kvenna og foreldra sem hafa misst úr vinnu vegna takmarkaðs leik- og grunnskólastarfs, verði tryggt. Það er aldrei hægt að una við það að hópar félagsmanna okkar, sem hvað veikast standa, séu skildir eftir í aðgerðum stjórnvalda.
Formannafundur Starfsgreinasambandsins minnir jafnframt á mikilvægi þess að álagsgreiðslur til framlínustarfsfólks í heilbrigðisgeiranum nái til allra sem þar starfa t.d. við þrif, umönnun og aðhlynningu. Þetta fólk hefur brugðist við erfiðum og krefjandi aðstæðum af miklum dugnaði og elju og á svo sannarlega skilið að fá sinn skerf af umræddum álagsgreiðslum.
Þetta á einnig við um starfsfólk undirverktaka, einkarekinna hjúkrunarheimila og annarra, sem sinnir mörgum af þessum störfum á einstökum stofnunum. Skiljum engan út undan.