Ríkisstjórnin er fallin samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Prósent framkvæmdi fyrir Fréttablaðið. Stjórnarflokkarnir mælast með samanlagt 39,9 prósent og fengju 26 menn kjörna á Alþingi samkvæmt könnuninni en 32 þingmenn þarf til að mynda meirihluta. Stjórnin hefur 38 manna meirihluta á þingi í dag, þar af einn sem gekk úr Miðflokknum og í Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningar.
Mestu fylgi tapar Sjálfstæðisflokkurinn sem mælist nú með 17,9 prósenta fylgi en flokkurinn fékk 24,4 prósent í kosningunum síðasta haust. Flokkurinn tapar rúmlega sex prósenta fylgi, að því er fram kemur í fréttinni.
Framsóknarflokkurinn mælist með fimm prósenta lægra fylgi en í kosningum þegar flokkurinn bætti verulega við sig fylgi og fékk 17,3 prósent. Hann mælist nú með 12,4 prósenta fylgi.
Vinstri græn, fokkur forsætisráðherra, tapar þremur prósentum frá kosningum og mælist með 9,6 prósenta fylgi.
Bæði Píratar og Samfylking bæta við sig um sjö prósentum hvor frá kosningum. Samfylking mælist nú með 16,8 prósenta fylgi en fékk 9,9 prósent í kosningunum. Píratar mælast með 16,2 prósent en fengu 8,8 prósent í kosningunum. Viðreisn bætir við sig um einu og hálfu prósenti. Fer úr 8,3 prósentum í 9,6 prósent og er með jafn mikið fylgi og Vinstri græn.
Flokkur fólksins og Miðflokkur tapa hins vegar fylgi. Flokkur fólksins tapar einu prósenti og missir einn mann samkvæmt könnuninni og Miðflokkurinn fengi 4,1 prósent og dytti út af þingi. Sósíalistar fengi hins vegar 5,4 prósent og þrjá menn kjörna á þing ef gengið yrði til þingkosninga nú.
Könnunin, sem Prósent vann fyrir Fréttablaðið, er netkönnun, gerð dagana 13. – 26. apríl. Úrtakið var 3.500 manns og svarhlutfallði rétt rúmlega 50 prósent.