Gerðardómur hefur komist að niðurstöðu um nýtt rafmagnsverð í framlengdum rafmagnssamningi milli Landsvirkjunar og Elkem Ísland ehf., vegna verksmiðjureksturs Elkem á Grundartanga.
Upphaflegur rafmagnssamningur milli fyrirtækjanna tveggja er frá árinu 1975 og hefur honum verið breytt alls sex sinnum en verksmiðjan hóf rekstur árið 1979. Gilti rafmagnssamningurinn til ársins 2019. Í samningnum var Elkem heimilt að framlengja gildistímann um 10 ár eða til ársins 2029. Elkem ákvað að framlengja samninginn um nefnd 10 ár og vísa jafnframt ákvörðun um rafmagnsverðið til gerðardóms. Gerðardómnum bar að taka ákvörðun um nýtt rafmagnsverð með hliðsjón af sambærilegum rafmagnssamningum við stórnotendur í málmframleiðslu á Íslandi.
Gerðardómurinn hefur nú komist að niðurstöðu um rafmagnsverðið, sem mun gilda á framlengingartímanum, það er frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2029.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar: „Gott er að niðurstaða gerðardómsins skuli nú liggja fyrir enda hefur ferlið um nýtt rafmagnsverð verið langt og umfangsmikið. Við höfum átt farsæl viðskipti við Elkem og forvera þess í rúm 40 ár og lítum björtum augum til áframhaldandi samstarfs við fyrirtækið.“
Elkem er fjórði stærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar og nemur rafmagnsmagn samningsins 127 MW og 1.035 GWst.