Margrét Hauksdóttir, húsmóðir og fyrrverandi ráðherrafrú, varð bráðkvödd í sumarhúsi sínu á Hallandaengjum í Flóa í fyrradag, sjötíu ára að aldri. Hún lætur eftir sig eiginmanninn Guðna Ágústsson, dæturnar Brynju, Agnesi og Sigurbjörgu og sjö barnabörn.
Greint er frá andláti Margrétar í Morgunblaði dagsins í dag.
Margrét fæddist í Reykjavík þann 3. apríl 1955. Foreldrar hennar voru Jón Haukur Gíslason, bóndi á Stóru-Reykjum í Hraungerðishreppi, og Sigurbjörg Geirsdóttir húsfreyja. Margrét ólst upp á Stóru-Reykjum, gekk í Þingborgarskóla, sem var barnaskóli sveitarinnar, og síðan í Gagnfræðaskólann á Selfossi. Eftir að skólagöngu lauk á Selfossi fór hún í Húsmæðraskólann í Reykjavík.
Ævistarf Margrétar vann ýmiss konar þjónustu- og umönnunarstörf á Selfossi og í Reykjavík á fyrri árum og fylgdi síðar eiginmanni sínum í embættisstörfum hans. Margrét og Guðni héldu heimili bæði á Selfossi og í Reykjavík. Þau festu kaup á íbúð í miðbæ Selfoss og bjuggu þar síðustu ár, en voru nýlega flutt aftur til Reykjavíkur þegar hún lést.
Margrét hélt miklu ástfóstri við heimahagana í Flóanum og höfðu þau hjónin komið sér vel fyrir í sumarhúsi á „Engjunum“ þar sem hún átti unaðsreit með fólkinu sínu.
Eftirlifandi eiginmaður Margrétar er Guðni Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður og landbúnaðarráðherra. Dætur þeirra eru: Brynja, f. 7. mars 1973, gift Auðuni Sólberg Valssyni, börn þeirra eru Guðni Valur, Salka Margrét og Óliver Tumi; Agnes, f. 20. nóvember 1976, börn hennar eru Freyja og Snorri, faðir þeirra er Guðni Vilberg Björnsson; Sigurbjörg (Sirra), f. 15. apríl 1984, gift Arnari Þór Úlfarssyni, börn þeirra eru Eva, Eik og andvana fæddir tvíburadrengir.
Systkini Margrétar eru María Ingibjörg Hauksdóttir, Gerður Hauksdóttir, Gísli Hauksson, Vigdís Hauksdóttir og Hróðný Hanna Hauksdóttir.