Bjarni Benediktsson mælti fyrir frumvarpi sínu um þjóðarsjóð á Alþingi og fjallaði ítarlega um. Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og þingmaður hjá Miðflokknum, taldi hinsvegar að engin þörf væri á sérstökum þjóðarsjóði. Ríkissjóður væri fyllilega fær um að annast um hlutverk sem honum væri ætlað og Seðlabanki Íslands sömuleiðis. Hægt er að hlusta á ræðu Ólafs Ísleifssonar hér að neðan og greinargerð Bjarna Benediktssonar, þar fyrir neðan. Það þurfi ekki sérstakan þjóðarsjóð til þess að sjá um eðlileg og fyrirsjáanleg verkefni líkt og hjúkrunarheimili og heilsugæslu ofl. hefðbundin verkefni. Þá væri hætta á að þjóðarsjóður yrði á einhverjum tímapunkti notaður til óskynsamlegra fjárfestinga.
Þá hefur komið fram að uppbygging svokallaðs Þjóðarsjóðs sé óþarfi að mati Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar. Það kom fram í nefndaráliti annars minnihluta efnahags- og viðskiptanefndar, sem Þorsteinn er í forsvari fyrir, vegna frumvarps Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um Þjóðarsjóð.
Í álitinu segir hann m.a. að um sé að ræða tekjur af sjálfbærum auðlindum, orkunni, en ekki ósjálfbærum eins og í tilfellum annarra þjóðarsjóða eins og olíusjóðinn norska. Auk þess sé lífeyriskerfi landsmanna þegar fjármagnað með sjóðsöfnun. Þá sé gjaldeyrisvaraforði Seðlabanka Íslands öflugur. Þá bendir hann á að lög um opinber fjármál eigi að tryggja að stjórn ríkisfjármála sé ávallt með þeim hætti að ríkissjóður sé fær um að takast á við tímabundin áföll. Þorsteinn segir það hagkvæmara að láta viðbótartekjur greiða niður ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar, en þær nema rúmum 600 milljörðum króna að svo stöddu.
.
Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Þjóðarsjóð en hér er um að ræða frumvarp sem samið var í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, m.a. með hliðsjón af tillögum sérfræðinganefndar sem falið var snemma á árinu 2017 að fjalla um þetta málefni. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi og afgreitt úr efnahags- og viðskiptanefnd til 2. umr. en hlaut ekki frekari umfjöllun á því þingi. Við endurflutning frumvarpsins hefur verið tekið tillit til allra breytingartillagna sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði fram við meðferð málsins á Alþingi en að öðru leyti eru ákvæði þess þau sömu og áður. Ég held að það fari vel á því að ég víki að þeim breytingum undir lok ræðu minnar.
Ég vík fyrst aðeins nánar að aðdraganda þessa frumvarps. Það er ástæða til að minnast á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lýst skýrum ásetningi um að þjóðarsjóði verði komið á fót. Þá er rétt að hafa í huga að í fimm ára fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024, og raunar einnig í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2020, hefur þegar verið gert ráð fyrir áætluðum fjárhagslegum áhrifum af fjárreiðum Þjóðarsjóðs og verkefnum í tengslum við hann, þ.e. framlögum í sjóðinn samhliða uppbyggingu hjúkrunarrýma og stuðningi við nýsköpun. Þá má segja að þetta frumvarp sé eins konar fylgifrumvarp fjárlagafrumvarpsins 2020 þegar það kemur nú fram öðru sinni.
Ég gerði grein fyrir öllum meginatriðum frumvarpsins þegar ég mælti fyrir málinu seint á síðasta ári. Þó er rétt í þágu umræðunnar núna að rifja í stuttu máli upp það helsta sem snýr að tilgangi og fyrirkomulagi Þjóðarsjóðs. Að öðru leyti vísa ég til fyrri ræðu minnar um málið og ítarlegrar greinargerðar með frumvarpinu. Þá ætla ég einnig að víkja að nokkrum sjónarmiðum sem komið hafa fram í umræðum um málefnið.
Eins og ég nefndi í framsöguræðu minni á sínum tíma við fyrri framlagningu frumvarpsins byggist það á því viðhorfi að nýta beri góð ár og hagstæð skilyrði í þjóðarbúskapnum til að sýna fyrirhyggju og ábyrgð í ríkisfjármálum og búa þannig í haginn fyrir framtíðina. Í frumvarpinu er lagt til að í þessu skyni verði komið verði á fót varúðarsjóði, svonefndum Þjóðarsjóði. Sjóðnum verði ætlað að gegna því meginhlutverki að verða eins konar áfallavörn fyrir þjóðina þegar ríkissjóður verður fyrir fjárhagslegri ágjöf í tengslum við meiri háttar ófyrirséð áföll á þjóðarhag, annaðhvort vegna afkomubrests eða vegna kostnaðar við viðbragðsráðstafanir sem stjórnvöld hafa talið óhjákvæmilegt að grípa til í kjölfar áfalls eða til að varna því. Með því móti verði byggt upp viðnám til að mæta þungum fjárhagslegum áföllum án þess að það leiði til mikillar og hamlandi skuldasöfnunar eða skattahækkana hins opinbera, skertrar opinberrar starfsemi eða viðsjárverðs ójafnvægis í hagkerfinu á tímum þegar erfiðleikar steðja að landinu.
Með frumvarpinu er þannig ætlunin að undirbúa viðbúnað við skakkaföllum sem eru fátíð en sagan sýnir að hafa riðið yfir á nokkurra áratuga fresti en stundum með lengri hléum. Það gætu verið stórfelldar náttúruhamfarir sem gætu stórlaskað byggð, samgönguinnviði, vatnsafls- og jarðhitavirkjanir eða þess vegna stóriðjuver. Það er heldur ekki loku fyrir það skotið að hér geti einnig orðið alvarleg mengunar- eða umhverfisslys, vistkerfisbreytingar, sjúkdómsfaraldrar eða önnur áföll sem valdið gætu þungbæru efnahagslegu tjóni umfram þann skaða sem tryggður er með öðrum hætti, svo sem með Náttúruhamfaratryggingu Íslands.
Einnig gæti verið um að ræða atburði eða kringumstæður af allt öðrum toga, svo sem afleiðingar af stórfelldum netárásum á mikilvæga innviði Íslands, hryðjuverk eða atburðarás af öðrum meiði sem nú er algerlega óþekkt eða ófyrirséð. Við þurfum sem samfélag að horfast í augu við það að saga okkar verður ekki áfallalaus um alla framtíð. Það getum við gert með því að sýna þá fyrirhyggju gagnvart afkomendum okkar að ætla ekki þeim einum að axla byrðar af stóráfalli sem getur dunið yfir heldur leitast við að leggja eitthvað af mörkum til þess. Ófyrirsjáanleiki og óviss stærðargráða slíkra stóráfalla felur í sér að nær ógerlegt er fyrir stjórnvöld að undirbúa sig fyrir afleiðingarnar í vanalegri fjárlagagerð og fjárhagsáætlunum til meðallangs tíma á annan hátt en þann að sýna þá fyrirhyggju að standa fyrir viðeigandi sjóðsöfnun, auk þess að reka ríkissjóð jafnan á traustum og sjálfbærum grunni.
Tilefni lagasetningar um að koma á fót varúðarsjóði er einnig það að fyrirséð er að ríkissjóður muni á komandi árum geta haft talsverðar nýjar tekjur af arðgreiðslum eða auðlindaafnotagjöldum frá orkuvinnslufyrirtækjum vegna nýtingar á orkuauðlindum á forræði ríkisins. Fyrst um sinn verða þær tekjur einkum frá Landsvirkjun. Hér þarf þó að hafa í huga að ýmislegt getur haft áhrif á tekjur af þessum toga, svo sem breytingar í orkubúskap, sviptingar á alþjóðlegum orkumörkuðum og tæknibreytingar. Það er engin fullvissa fyrir þeim til mjög langs tíma litið. Að mínu mati er skynsamlegt fyrir okkur að búa þannig um hnútana að þessar nýju tekjur verði ekki nýttar eins og hver annar tekjustofn til að standa undir auknum og reglubundnum ríkisútgjöldum. Vöxtur þeirra hefur þar að auki verið það hraður á undanförnum árum að varla ætti að vera þörf á að bera öllu meira í þann læk, ef maður getur leyft sér að orða það þannig, sem mörgum finnst vera orðið nokkuð straumþungt fljót miðað við umræðurnar í þinginu. Það er kannski af því að okkur hefur á undanförnum árum einmitt tekist að nýta gott hagvaxtarskeið til að styrkja innviði og gera betur í samneyslunni, sinna þeim málaflokkum sem við ætlum að standa sameiginlega á bak við með opinberum rekstri, og um leið hefur okkur tekist að laga mjög skuldastöðuna þegar við teljum skynsamlegt að leggja þetta frumvarp til.
Ákvarðanir um arðgreiðslur liggja ekki fyrir á þessu stigi og það er nokkur óvissa um fjárhæð nýrra tekna, en í frumvarpinu er til bráðabirgða miðað við að tekjur ríkissjóðs aukist árlega sem nemur um 10 milljörðum kr.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fyrirkomulag Þjóðarsjóðs verði í meginatriðum þannig að sjóðurinn fái framlög úr ríkissjóði sem svari til tekna næstliðins árs af arðgreiðslum og leigugreiðslum frá orkuvinnslufyrirtækjum. Sjóðurinn fjárfesti þá fjármuni einvörðungu í erlendum verðbréfum samkvæmt fjárfestingarstefnu sem stjórn hans setur með samþykki ráðherra.
Gert verði ráð fyrir fjárreiðum sjóðsins í fimm ára fjármálaáætlunum fyrir hið opinbera og í fjárlögum. Komi til ófyrirséðs áfalls af framangreindum toga og að uppfylltum tilteknum skilyrðum og mati nefndar á fjárhagsáhrifum áfallsins, eins og fjallað er um í frumvarpinu, geti ráðherra gert tillögu um að Alþingi samþykki þingsályktunartillögu um að stjórn Þjóðarsjóðs úthluti til ríkissjóðs framlagi sem nemi allt að helmingi eigna sjóðsins vegna eins atburðar. Heimildir vegna slíkra framlaga og fjárreiðna sjóðsins að öðru leyti verði jafnframt settar með fjárlögum með atbeina þingsins.
Þjóðarsjóðurinn verður eign íslenska ríkisins og verður færður sem slíkur í efnahagsreikning ríkissjóðs, enda verður hann í rauninni tiltekið fyrirkomulag á stýringu og ávöxtun á afmörkuðum hluta af peningalegum eignum ríkissjóðs. Sjóðmyndunin jafngildir því að greiða niður skuldir ríkisins í sama mæli og er gert ráð fyrir að það muni koma til frádráttar skuldastöðunni samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sett verði sérstök stjórn yfir sjóðinn sem fari með yfirstjórn hans, stjórnin beri ábyrgð á rekstri, setji sér starfsreglur og geri tillögu um fjárfestingarstefnu til samþykktar af ráðherra á grundvelli meginviðmiða í frumvarpinu.
Það fyrirkomulag mála sem hér er verið að leggja til á sér að vissu leyti ákveðnar samsvaranir erlendis. Það verður þó að teljast nokkuð sérstætt með tilliti til þess að hlutverk sjóðsins verður mjög afmarkað við fátíð áföll og að fyrirkomulag á ráðstöfun hans verður í mjög skýru samhengi við fjárstjórnarvald þingsins. Víða um lönd eru starfræktir svokallaðir þjóðarauðssjóðir, sem á enskri tungu kallast Sovereign Wealth Funds. Þjóðarauðssjóðir eru fjárfestingarsjóðir sem ríki eiga og reka í ákveðnum tilgangi. Í meginatriðum eru til tvær gerðir sjóða, annars vegar sparnaðarsjóðir og hins vegar stöðugleikasjóðir. Þeir fyrrnefndu tengjast gjarnan sparnaði til að mæta öldrun þjóða og þar af leiðandi fyrirsjáanlegum auknum opinberum útgjöldum, bæði lífeyrisgreiðslum og útgjöldum til heilbrigðismála. Tilgangur þeirra síðarnefndu, stöðugleikasjóðanna, er yfirleitt að jafna sveiflur í útflutningstekjum til skemmri eða lengri tíma litið, jafnvel á milli kynslóða. Slíkir sjóðir eru einkum til í hrávöruútflutningslöndunum sem eru háð einni hrávöru, þá jafnvel takmarkaðri auðlind, t.d. olíu, kopar og demöntum. Þetta tvennt getur svo farið saman, eins og við höfum dæmi um í olíusjóði Noregs.
Á það hefur verið bent í opinberri umræðu um þetta mál eins og það lá fyrir þinginu hér síðast að Ísland sé í töluvert annarri stöðu en þær þjóðir sem hafa komið á fót sparnaðarsjóðum eða stöðugleikasjóðum, einhvers konar þjóðarauðlindasjóðum. Það er alveg rétt að Ísland er að ýmsu leyti í annarri stöðu en þau lönd sem hafa stofnað slíka þjóðarauðssjóði enda er þetta frumvarp byggt upp með öðrum hætti. Verði það að lögum munum við hafa aðra tegund af sjóði en menn hafa horft til sem fyrirmynda. Þannig er hægt að segja að við séum í annarri stöðu vegna þess að ekki verður séð að brýnt tilefni sé til þess hér á landi að hlutverk Þjóðarsjóðs verði að safna upp sparnaði til að jafna velferð milli kynslóða þar sem ætlunin er að fjármagna sjóðinn með arði sem stafar af endurnýjanlegum auðlindum, ólíkt því sem á við um tekjur af takmörkuðum auðlindum á borð við olíu, samanber Noreg aftur.
Það er alveg rétt að það er ekki brýnt tilefni til að koma á fót þess háttar sjóði og í öðru lagi má nefna í sambandi við sparnaðarsjóði að ólíkt því sem gerist víða annars staðar er hér á landi fyrir hendi öflugt kerfi lífeyrissjóða. Það felur í sér að þjóðarbúið er mun betur í stakk búið en flest önnur lönd til að standa undir öldrun þjóðarinnar og vaxandi lífeyrisútgjöldum samfara henni. Okkar lífeyriskerfi hefur reyndar glímt við nokkurn uppsafnaðan vanda vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna. Tekið var á þeim vanda til frambúðar hvað varðar A-deild LSR með samkomulagi ríkis og sveitarfélaga við viðkomandi stéttarfélög og lagasetningu í framhaldi af því sem tók gildi á árinu 2017. Hvað varðar B-deild LSR sem var lokað árið 1997 hefur ríkissjóður aftur hafið forinngreiðslur á móti lífeyrisskuldbindingum deildarinnar sem nema 7 milljörðum kr. árlega og hafa þau framlög verið felld inn í fimm ára fjármálaáætlanir.
Samkvæmt sjóðstreymisútreikningum sem LSR hefur gert fyrir deildina til langrar framtíðar mun hún ekki fara í þrot ef þessar forinngreiðslur haldast óbreyttar næstu 30 árin.
Þá er að líta til erlendra fyrirmynda um stöðugleika- eða sveiflujöfnunarsjóði. Þótt Ísland sé í hefðbundnum skilningi töluvert háð útflutningi á hrávöru, bæði sjávarafurðum og stóriðjuafurðum, eru aðstæður samt nokkuð frábrugðnar því sem gerist í hrávöruútflutningslöndunum. Íslenskur sjávarútvegur er afar fjölbreyttur, byggist á margvíslegum fisktegundum, veiðum, vinnslu og mörkuðum, sem til viðbótar skilvirku fiskveiðistjórnarkerfi felur í sér að sjávarútvegur er ekki undirseldur sveiflum af sama toga og einhæfar hrávörugreinar. Álframleiðsla hefur ekki verið alvarlegur sveifluvaldur í íslensku efnahagslífi og er ekki heldur ráðandi í útflutningi. Ferðaþjónustan hefur aukið fjölbreytni og hlutur svonefnds alþjóðageira í verðmætasköpuninni hefur farið mjög vaxandi undanfarin misseri.
Í þessu sambandi er ástæða til vekja athygli á því að ýmis dæmi eru um að stjórnvöld komi á fót áfallaviðbúnaðarsjóðum sem á ensku kallast, til frekari skýringar, Disaster Relief Funds. Ég held að við getum sagt að því sé ágætlega lýst með því að kalla þá áfallaviðbúnaðarsjóði. Slíkum sjóðum hefur fyrst og fremst verið ætlað að mæta náttúruhamförum og hefur almennt ekki verið skipað í flokk með þjóðarauðlindasjóðum. Sem dæmi má nefna National Emergency Fund í Kostaríka og Natural Disaster Fund á Nýja-Sjálandi. Ég hef hér bæði notað orðið þjóðarauðlindasjóð og þjóðarauðssjóð og það fer aðeins eftir eðli máls. Hérna erum við með dæmi í Kostaríka og á Nýja-Sjálandi um að menn sjái ástæðu til að fara í sjóðsöfnun til að mæta áföllum sem geta sett stórt skarð í þjóðarbúskapinn, þá sjaldan þau gerast.
Eins og ég hef rakið í stuttu máli varð niðurstaðan sú við undirbúning þessa frumvarps að ekki væri sama þörf og í sumum öðrum löndum fyrir sjóð sem væri til mótvægis við áhrif af nýtingu óendurnýjanlegrar auðlindar eða af ófjármögnuðu lífeyriskerfi. Meðal annars þess vegna felur frumvarpið í sér að hlutverk Þjóðarsjóðs verði frekar að veita viðnám við ytri stóráföllum sem örhagkerfi og smátt samfélag er viðkvæmara fyrir en gengur og gerist meðal stærri þjóða. Með öðrum orðum, þótt í frumvarpinu hafi verið höfð nokkur hliðsjón af svonefndum þjóðarauðssjóðum og tilmælum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um regluverk fyrir slíka sjóði er ekki þar með sagt að Þjóðarsjóður falli beinlínis í þann flokk sjóða heldur eigi hann að ýmsu leyti meira sammerkt með áfallaviðbúnaðarsjóðum.
Ég vil að þessu sögðu víkja að nokkrum sjónarmiðum sem komið hafa fram um þetta málefni í umræðum og umfjöllunum á undanförnum misserum. Þar má nefna fyrst að komið hafa fram sjónarmið um að ekki sé þörf á þjóðarsjóði þar sem aðrar tryggingar séu til staðar. Það er rétt að þegar hefur verið byggður upp talsverður viðbúnaður við náttúruhamförum í landinu, bæði í mynd viðbragðsaðila og vátrygginga. Náttúruhamfaratrygging Íslands vátryggir húseignir og margs konar lausafé en auk þess helstu veitukerfi, hafnarmannvirki og ýmsa aðra innviði.
Utan þessara trygginga falla hins vegar stór samgöngumannvirki, svo sem meginhluti vegakerfisins. Þá getur orðið umtalsvert tjón í tengslum við ýmis afleidd áhrif hamfara, sem Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir ekki, auk þess sem stjórnvöld kynnu að vilja grípa til aðstoðar sem væri af öðrum toga en fallið getur undir slíkar fyrirframtryggingar. Þá ætti okkur öllum að vera ljóst að sérstakur fjárhagslegur viðbúnaður til að mæta stóráföllum af öðrum völdum en náttúruhamförum, t.d. afdrifaríku umhverfisslysi á fiskimiðum eða mannskæðri farsótt, er ekki fyrir hendi í teljandi mæli hér á landi.
Ég gæti einnig nefnt hér að sett hafa verið fram sjónarmið um að frekar ætti að verja nýjum tekjum af orkuvinnslu til að greiða niður skuldir eða verja slíkum tekjum til að forinngreiða á lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs. Í sambandi við beinar skuldir ríkissjóðs er nærtækast að líta til þess að þær eru þegar komnar niður fyrir skilyrði laga um opinber fjármál og áætlanir miða að áframhaldandi lækkun þeirra. Skuldastaða ríkissjóðs telst vera orðin hófleg í alþjóðlegum samanburði. Skynsamlegt þykir að fara blandaða leið við að halda áfram að styrkja fjárhagsstöðuna með því móti að mynda nokkurn uppsafnaðan sparnað í sjóði samhliða því að skuldir verði áfram greiddar niður. Í þessu sambandi er ekki síður litið til þess að ekki verður ráðlegt að draga svo mikið úr skuldabréfaútgáfu ríkisins að það hamli virkni innlends fjármálamarkaðar heldur þurfi fremur, eins og felst í skuldareglu laga um opinber fjármál, að horfa til nettóstöðunnar, brúttóskulda að frádregnum sjóðum og innstæðum.
Hvað varðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs fór ég aðeins yfir stöðu þeirra mála fyrr í ræðu minni. Í stuttu máli sagt: Með ráðstöfunum sem fyrir liggja í þeim efnum eru horfur á því að Ísland verði eitt örfárra ríkja í heiminum þar sem fyrir hendi eru traustar áætlanir um nánast fullfjármagnað og samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn, þar á meðal starfsmenn hins opinbera.
Því hefur verið hreyft í umræðu um þetta mál á fyrri stigum að tekjunum sem hér er um að ræða ætti frekar að verja til að auka innviðafjárfestingar, efla opinbera þjónustu eða lækka skatta. Þetta eru allt gild og skiljanleg sjónarmið en hér er ástæða til að benda á að það liggur fyrir, m.a. í nýframlagðri fjármálaáætlun, að samhliða því að þessu nýja fjárflæði verður veitt í varúðarsjóð stendur hið opinbera fyrir mjög myndarlegri aukningu í fjárfestingum þar sem m.a. er um að ræða stórt átak í uppbyggingu samgönguinnviða og byggingu á nýju þjóðarsjúkrahúsi. Ég minni líka á að samkvæmt frumvarpinu verður allnokkrum hluta teknanna einmitt varið til fjárfestingar í hjúkrunarrýmum og nýsköpun fyrstu fimm árin. Fram hafa komið hugmyndir um að setja þessa fjármuni frekar í alls kyns önnur samneysluverkefni sem eru góðra gjalda verð, allt frá loftslagsaðgerðum yfir í betri heilbrigðisþjónustu. Það þarf ekki að hafa mörg orð um að fórnarkostnaður fylgir allri ráðstöfun fjármuna í þeim skilningi að þeim verður þá ekki verið til annarra verkefna, svo sem til að byggja upp sparnað í stað aukinnar samneyslu. Ljóst er að hægt væri að tefla fram endalausum lista af öðrum verðugum verkefnum frekar en að setja til hliðar nokkra fjármuni sem verði til taks fyrir þjóðþingið ef landið verður fyrir óvæntu reiðarslagi.
Í þessu frumvarpi er einfaldlega lagt til að tekin verði ákvörðun um að fresta því að auka samtímaneyslu okkar og efna í staðinn til nokkurs sparnaðar til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir sem aldrei kæmi til ef stjórnvöld settu jafnan slíkan fórnarkostnað fyrir sig. Skattar á Íslandi eru vissulega tiltölulega háir í alþjóðlegum samanburði en svigrúm til skattalækkana verður áfram til staðar, óháð tilvist Þjóðarsjóðs, einkum ef tekst að auka framleiðni, bæði í einkageiranum og hinum opinbera, og leggja áherslu á betri nýtingu opinberra útgjalda. Skattbyrðin, bæði í það heila tekið og á einstökum sviðum, verður viðvarandi pólitískt viðfangsefni hér á landi eins og annars staðar þar sem sjóðir á borð við Þjóðarsjóð eru starfræktir.
Nefnt hefur verið í umfjöllun um þetta málefni að ekki sé þörf fyrir varúðarsjóð þar sem landið búi að mjög öflugu lífeyrissjóðakerfi sem hægt væri að losa eignir úr eða reiða sig á við áfall. Um það vildi ég aðeins segja að lífeyrismál landsmanna væru heldur betur í uppnámi ef verja ætti töluverðum hluta eigna sjóðanna til að mæta afleiðingum efnahagsáfalls eða vistkerfisbrests. Það væri reyndar óheimil eignaupptaka samkvæmt lögum enda hefur ríkið engan umráðarétt yfir þeim eignum. Einnig hefur verið nefnt að gjaldeyrisforði Seðlabankans sé orðinn mjög stór og þjóni sama tilgangi og Þjóðarsjóði er ætlað. Þetta virðist mér vera nokkuð langsótt sjónarmið og slíkt forðahald hefur ekki staðið í vegi fyrir stofnun opinberra sparnaðar- eða varúðarsjóða í öðrum löndum.
Það er varla hægt að líta svo á að gjaldeyrisvaraforða á vegum Seðlabankans hafi verið haldið úti til að mæta áföllum á borð við alvarlegar afleiðingar faraldurs, vistkerfisbrests eða náttúruhamfara með því móti að yfirstjórn bankans geti tekið ákvarðanir um að verja forðanum til að fjármagna tekjutap ríkisins eða útgjöld af mótvægisráðstöfunum í kjölfar slíkra áfalla, eins og Þjóðarsjóði er ætlað. Gjaldeyrisforðinn snýr að viðfangsefnum sem varða sveiflur í greiðslujöfnuði og greiðsluhæfi landsins við útlönd sem og getu Seðlabankans til að styðja við gjaldmiðilinn eftir aðstæðum. Forðahaldið lýtur öðrum viðmiðum en eiga við um Þjóðarsjóð enda hefur ávöxtun forðans verið harla lítil og varsla hans í raun falið í sér kostnað sem nemur tugum á einstaka árum, eftir gengissveiflum, mörgum milljörðum. Fremur virðist koma til álita að skoða hvort umfang gjaldeyrisforðans sé ekki orðið óþarflega mikið.
Þá vildi ég nefna sjónarmið um að ríkissjóður sé lítið skuldsettur og geti farið í lánsfjáröflun í kjölfar áfalls, þ.e. að ekki sé þörf á sjóðsöfnun, ríkissjóður sé að komast í það miklar álnir að verði áfall sé ekkert að því að skuldsetja ríkissjóð. Varðandi skuldastöðu ríkissjóðs og afleidda vaxtabyrði er hún reyndar enn þá töluverð og engin vissa fyrir því að hún verði mjög hófleg í fjarlægri framtíð þegar stóráfall riði yfir. Í öllu falli væri alltaf verra að þurfa að hækka hana mikið við erfiðar aðstæður. Áfall gæti verið af þeim toga sem þrengdi almennt að lánsfjárkjörum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eða sérstaklega að kjörum Íslands, auk þess sem mikil skuldabréfaútgáfa við neyðaraðstæður hlýtur að öðru jöfnu að vekja upp hærri ávöxtunarkröfu. Ástæða er til að rifja upp að fyrir fall bankakerfisins haustið 2008 voru hreinar lántökur ríkissjóðs komnar niður í nærri 4% af vergri landsframleiðslu og að handbært fé á innstæðureikningi í Seðlabankanum nam um 10% af vergri landsframleiðslu. Engu að síður var greiðsluhæfi ríkissjóðs og þjóðarbúsins í hættu eftir áfallið. Því var varnað með neyðarráðstöfunum og samstarfi sem tókst við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Sú lánsfjáraðstoð sem nágrannaþjóðir veittu Íslandi í kjölfar bankahrunsins var nokkuð dýru verði keypt.
Eðlilegt er að spurt sé hver sé hæfileg stærð sjóðs sem þessa. Markmiðið hlýtur að vera að sjóðurinn verði nægilega stór til að ekki þurfi að nýta hann allan í einu áfalli. Vegna góðra trygginga gagnvart náttúruhamförum og annars viðbúnaðar sem þegar er fyrir hendi í landinu er talið skynsamlegt að stefnt verði að því að framtíðarstærð sjóðsins verði nálægt 250–300 milljörðum eða nærri tíu hundraðshlutar af landsframleiðslu. Það er sjóður sem byggist upp yfir mörg ár. Ástæða er til að leggja áherslu á að Þjóðarsjóður verður ekki til í einni sviphendingu heldur hægt og bítandi. Ætla má að það gæti tekið um 15–20 ár að byggja upp slíkan sjóð miðað við að tekjur ríkissjóðs frá orkuvinnslufyrirtækjum geti aukist um langa hríð og líka að því gefnu að ekki þurfi að bæta fjárhagsáföll úr sjóðnum á því tímabili. Ég undirstrika að þetta er að gefnum öllum þeim forsendum að ekkert komi upp á.
Með þessu frumvarpi er því ekki stefnt að því að mynda risavaxinn sjóð sem dragi til sín mikið fjármagn á fáum árum, heldur er um að ræða hægfara uppbyggingu á litlum hluta þjóðhagslegs sparnaðar landsins og það mun útheimta töluverða pólitíska þolinmæði. Þessi stærðarhlutföll eru allt önnur og minni en t.d. á við þegar litið er til lífeyrissjóðakerfisins innan lands eða olíusjóðsins í Noregi þar sem í hlut eiga eignasöfn sem eru vel yfir 150% af landsframleiðslu.
Að endingu vil ég nefna að gerðar hafa verið breytingar á frumvarpinu sem samsvara þeim breytingum sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til við meðferð málsins á síðasta þingi, enda var einhugur um þær milli nefndarinnar og ráðuneytisins. Ég nefni einkum sjálfstæði áhættustýringar, í samræmi við ábendingu Fjármálaeftirlitsins, sem og skerpingu á orðalagi í tengslum við áhættustýringu og hæfi stjórnarmanna. Að öðru leyti vísa ég til ágætra skýringa á þessum breytingum í nefndaráliti meiri hlutans í þskj. 1576 á 149. þingi. Þá hefur sérstakri tilvísun og umfjöllun verið bætt við í greinargerð frumvarpsins varðandi græn skuldabréf í skýringum um ákvæði um fjárfestingarstefnu.
Í ákvæðum frumvarpsins er ekki mælt nákvæmlega fyrir um efni fjárfestingar sjóðsins, að því frátöldu að þær mega ekki stangast á við gott siðferði heldur verður kveðið nánar á um það í fjárfestingarstefnu með hvaða hætti stuðla skuli að heppilegum markmiðum á borð við vernd mannréttinda eða baráttu gegn loftslagsbreytingum. Þannig er gengið út frá því að við mótun fjárfestingarstefnunnar muni þurfa að hafa hliðsjón af skuldbindingum og markmiðum Íslands í loftslagsmálum, t.d. með því móti að svokallaðir grænir verðbréfasjóðir fái tiltekið vægi í eignasafninu.
Það hefur komið fram í samskiptum við alþjóðastofnanir og lánhæfismatsaðila og í umfjöllun erlendra fjölmiðla að áform um stofnun Þjóðarsjóðs séu bæði skynsamleg og skýr teikn um öfluga og skjóta endurreisn opinberra fjármála eftir eitt stærsta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa þurft að takast á við. Stofnun sjóðsins endurspeglar aga í meðferð fjármuna ríkisins og er til marks um breytta og betri tíma. Sjálfbærni opinberra fjármála styrkist sem er til þess fallið að auka traust á íslenskt hagkerfi og þjóðarbúskap, efla lánshæfi Íslands og þar með stuðla að hagstæðari lánakjörum. Allir þessir þættir eru til hagsbóta til lengri tíma litið fyrir okkur öll, fyrir komandi kynslóðir og velferð þjóðarinnar í víðu samhengi.
Að öðru leyti vísa ég til nánari umfjöllunar um fyrirkomulag Þjóðarsjóðs í greinargerð frumvarpsins og legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.