Maðurinn var sakfelldur fyrir þrjár líkamsárásir, hótanir, ólögmæta nauðung, nauðgun og stórfelldar ærumeiðingar gagnvart þáverandi sambýliskonu sinni.
Við ákvörðun refsingar mannsins var litið til þess að brot hans beindust gegn sambýliskonu hans á heimili þeirra.
Var refsing ákvörðuð með hliðsjón af almennum hegningarlögum og þá var einnig litið til þess að útgáfa ákæru tafðist nokkuð og var hún gefin út. Eða um 28 mánuðum eftir að atvik málsins áttu sér stað og ekki komu fram skýringar á þessum töfum við meðferð málsins. Var refsing mannsins ákveðin fangelsi í þrjú ár sem er hálfu ári skemur en ákveðin var í héraðsdómi. Þá var honum gert að greiða konunni 2.000.000 króna í miskabætur.
Maðurinn er dæmdur fyrir líkamsárás og hótanir, með því að hafa á tímabilinu frá fimmtudeginum 27. mars og fram yfir miðnætti föstudaginn 28. mars, ítrekað veist að konunni með ofbeldi en ákærði tók konuna meðal annars kverkataki í þrjú skipti og herti að þannig að hún átti erfitt með andardrátt, dró hana ítrekað á hárinu og höndum um íbúðina þannig að líkami hennar slóst utan í innanstokksmuni og hurðakarma og henti henni í rúm í svefnherbergi þannig að höfuð hennar slóst í vegginn. Þá hótaði ákærði konunni ítrekað lífláti.
Af þessu hlaut konan ílangt far utan á hálsi hægra megin, vægan roða neðarlega framan á hálsi rétt vinstra megin við miðlínu, þreifieymsli utan um barka og yfir tungubeini, roða á miðjum báðum upphandleggjum og þreifieymsli yfir miðbik þríhöfða beggja handleggja.
Hann er einnig dæmdur vegna líkamsárásár, ólögmæta nauðung og hótanir, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 3. apríl veist að konunni í svefnherbergi íbúðarinnar, bundið hana við rúmið og hótað því að selja nafngreindum mönnum aðgang að henni, stuttu síðar losað konuna en tekið upp rakvélarblað og hótað að skera hana og jafnframt hótaði henni lífláti og þrisvar sinnum tekið hana hálstaki en haft sæng á milli.
Auk þessa dró ákærði konuna á hárinu um íbúðina og inn á bað þar sem hann henti henni í gólfið, setti hnéð í bringu hennar og hótaði að raka af henni allt hárið. Af þessu hlaut konan eymsli yfir kjálkum og í hálsi og bólgnar varir.
Maðurinn er dæmdur fyrir líkamsárás, hótanir og nauðgun, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 25. apríl veist að konunni þar sem hún var í baði, ýtt henni þrisvar sinnum í kaf og haldið henni í kafi í þó nokkurn tíma. Þá reif ákærði konuna upp úr baðinu og niður á gólf þannig að hún lenti með bakið og höfuðið á baðherbergisgólfinu og dró hana svo inn í svefnherbergi þar sem hann tók upp hamar og hótaði að drepa konuna ef hún gæfi frá sér hljóð en nágranni hafði á þessum tíma bankað á útidyrahurð.
Eftir að ákærði fór til dyra og ræddi við nágrannann, sem síðan fór, hafði ákærði samfarir við konuna gegn hennar vilja með ólögmætri nauðung en konan þorði ekki annað en að láta að vilja ákærða vegna ofbeldis og hótana sem hann hafði beitt hana stuttu áður. Af þessu hlaut konan marbletti víða um líkamann, meðal annars á tám, kálfum, lærum, hægri rasskinn og hægri olnboga auk þreifieymsla yfir vinstra herðablaði.
Maðurinn var einnig dæmdur fyrir stórfelldar ærumeiðingar, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum, ítrekað móðgað og smánað konuna.
Af hálfu konunnar var þess krafist að maðurinn yrði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 3.500.000 krónur, auk vaxta.
Hér að neðan má lesa málavaxtalýsingu fyrir dómstólum:
Málsatvik
Mánudaginn 28. apríl 2014 mætti A, brotaþoli í máli þessu, hjá lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða, X, fyrir heimilisofbeldi. Í skýrslu brotaþola kemur fram að þau ákærði hefðu verið í sambandi frá því í […]og búið saman að […] í Reykjavík. Hún kvaðst ítrekað hafa orðið fyrir ofbeldi af hans hálfu. Þannig lýsti hún því að fimmtudagsmorguninn 27. mars hefði komið til ósættis á milli þeirra vegna færslna sem hann hefði séð á facebook-síðu hennar. Hefði ákærði veist að henni, tekið um háls hennar og þrengt að í þrjú skipti. Þá hefði hann dregið hana um íbúðina, meðal annars á hárinu, en við það hefði hún skollið utan í húsmuni og veggi. Ákærði hefði haldið henni í íbúðinni í rúmlega sólarhring, ítrekað hótað henni lífláti og þvingað hana til að taka töluvert magn af lyfjum, í því skyni að eyðileggja fyrir henni […] sem hún ætti í. Aðfaranótt föstudagsins 28. mars hefði hún ekið ákærða á slysadeild eftir að hann fékk […]. Hefði hún notað tækifærið og rætt við lögreglukonu sem þar var stödd og sagt henni frá því sem hefði gerst. Síðar um daginn kvaðst hún hafa séð að ákærði hefði tæmt bankareikning hennar, en hún hefði átt […] króna innstæðu.
Aðfaranótt fimmtudagsins 3. apríl hefði ákærði ráðist á hana á ný, en tilefnið hefði sem fyrr verið skilaboð sem hann sá á facebook-síðu hennar. Ákærði hefði haldið hnífi að hálsi hennar og neytt hana til að taka lyf. Hann hefði bundið hana við rúmið og hótað henni að hringja í nafngreinda menn sem myndu koma og misþyrma henni. Þá hefði hann dregið hana á hárinu inn á baðherbergi, fleygt henni þar í gólfið, barið höfði hennar í gólfið, sett hné á brjóstkassa hennar eða maga og hótað að raka af henni hárið. Þá hefði hann tekið rakvélarblað og hótað að skaða hana með því í andliti og á kynfærum. Hann hefði einnig hótað henni lífláti og sagst jafnframt myndi svipta sig lífi. Síðar hefði hún séð að fjármunir hefðu einnig verið teknir út af bankareikningi hennar í þetta skipti, um […] krónur. Hún kvaðst hafa náð að senda vinkonu sinni SMS-skilaboð um nóttina, þegar ákærði fór á salernið. Vinkonan hefði séð skilaboðin þegar hún vaknaði daginn eftir og komið að sækja hana. Ákærði hefði þá verið farinn til vinnu og hefði vinkonan ekið henni á slysadeild. Hún kvaðst hafa farið af heimilinu eftir þetta og dvalið hjá annarri vinkonu sinni, sem byggi […].
Brotaþoli greindi frá því að ákærði hefði tekið saman dótið sitt og farið úr íbúðinni á meðan hún dvaldi […]. Þau hefðu þó ákveðið að tala saman og hefði hann komið að sækja hana og ekið henni í bæinn. Síðan hefði hann farið að gista aftur hjá henni. Aðfaranótt föstudagsins 25. apríl hefði hann veist að henni á nýjan leik í íbúðinni. Hún hefði verið í baði þegar hann hefði komið inn á baðherbergið og verið reiður vegna þess að hann hefði uppgötvað að hún hefði hitt […] sinn fyrr um daginn. Hún lýsti því að hann hefði reynt að kaffæra hana þrisvar sinnum í baðkarinu, en alltaf togað hana upp þegar hún hætti að hreyfa sig. Þá hefði nágranni þeirra barið að dyrum íbúðarinnar. Ákærði hefði dregið hana inn í svefnherbergi, haldið hamri á lofti og hótað að drepa hana ef hún gæfi frá sér hljóð. Hann hefði síðan farið fram og rætt við nágrannann, sem hefði farið aftur upp til sín. Eftir þetta hefði ákærði róast og farið að reyna að hugga hana. Hún kvaðst hafa „spilað með“ til þess að fá tækifæri til þess að komast út úr íbúðinni eða ná að hringja í einhvern. Þau hefðu haft samfarir, en það hefði ekki verið með hennar vilja. Hún hefði þó ekki sagt neitt og ekki barist á móti, en fundist best að hlýða og þykjast. Kynferðismökin hefðu staðið yfir í tvær til þrjár klukkustundir og hefðu þau verið harkaleg, leiðinleg og niðurlægjandi. Hún hefði verið með tárin í augunum og skolfið á meðan á þeim stóð.
Í málinu liggja fyrir dagbókarfærslur lögreglu, sú fyrsta frá 28. mars 2014. Þar kemur fram að lögreglukona hafi rætt við brotaþola á slysadeild eftir að hún hefði ekið sambýlismanni sínum þangað. Þegar sambýlismaðurinn var kominn undir læknishendur hefði hún […] og sagt frá því að hún hefði þurft að þola líkamsmeiðingar af hans hálfu. Brotaþoli hafi verið í uppnámi og með sýnilega áverka. Hún hafi gengist undir læknisskoðun í framhaldi af samtalinu.
Þá kemur fram í dagbók lögreglu að brotaþoli hafi mætt ásamt lögmanni sínum til viðtals á lögreglustöð og greint frá því að ákærði hafi beitt hana ofbeldi aðfaranótt fimmtudagsins 3. apríl. Hún hafi hvorki viljað leggja fram kæru né gefa skýrslu vegna málsins af hræðslu við ákærða og hefndaraðgerðir af hans hálfu.
Í dagbókarfærslu frá 25. apríl 2014 kemur fram að lögmaður brotaþola hafi haft samband við lögreglu og látið vita af því að brotaþoli hefði sent henni SMS-skilaboð með beiðni um að hringja í Neyðarlínuna. Í kjölfarið hefðu lögreglumenn farið að […] og rætt við brotaþola sem hefði verið skjálfandi og hrædd við ákærða. Hún hefði greint frá því að hann hefði rifið í hár hennar þegar hún var í baði og haldið höfði hennar ofan í vatninu og hefði þetta gerst þrisvar sinnum. Þá hefði hann dregið hana um íbúðina og lamið hana. Brotaþoli hafi verið með rispur á hálsi og marbletti víða. Hún hefði óskað eftir því að ákærði yrði fjarlægður af heimilinu. Hann hafi samþykkt að yfirgefa íbúðina, en neitað að hafa beitt hana ofbeldi.
Þá liggja fyrir vottorð lækna á slysa- og bráðadeild Landspítala vegna komu brotaþola þangað. Í vottorði B læknis kemur fram að brotaþoli hafi laumast í skoðun eftir að hafa fylgt ákærða á bráðamóttöku. Hún hafi lýst því að hann hefði um nóttina tekið hana kverkataki svo að hún missti næstum meðvitund. Hann hafi fleygt henni í vegg, gripið fast um upphandleggi hennar og togað í hár hennar. Brotaþoli hafi verið í miklu uppnámi og liðið illa. Við skoðun hafi hún reynst vera með ílangt far, u.þ.b. tveggja cm langt, hægra megin á hálsi, vægan roða framan á hálsi, rétt neðan við miðlínu, og hefðu verið þreifieymsli um barka og yfir tungubeini. Loks hafi verið roði á miðjum báðum upphandleggjum og þreifieymsli yfir þríhöfða beggja handleggja.
Í sama vottorði kemur fram að brotaþoli hafi leitað á deildina á ný 3. apríl og hafi komið fram hjá henni að ákærði hefði um nóttina slegið hana, tekið hana hálstaki fleygt henni til og frá og troðið einhverju upp í hana. Hún hefði ekki verið með sýnilega áverka, en fundið fyrir eymslum yfir kjálkum og í hálsi.
Í vottorði C læknis kemur fram að brotaþoli hafi leitað á deildina 25. apríl, laust fyrir klukkan 15, og lýst því að ákærði hafi reynt að drekkja henni í þrígang í baðkari, dregið hana á höndum um íbúðina og haft við hana kynmök án hennar samþykkis. Við skoðun hafi hún reynst vera með marbletti víða, s.s. á tám, kálfum og lærum, og stórt mar hafi verið á hægri rasskinn. Þá hafi nokkrir dökkir marblettir verið á hægri olnboga og fleiri á víð og dreif um líkamann. Jafnframt hafi verið þreifieymsli um vinstra herðablað.
Í málinu liggja fyrir ljósmyndir sem teknar voru af áverkum brotaþola við læknisskoðun á slysadeild 28. mars og 25. apríl 2014. Þá liggja fyrir myndir sem vinkona brotaþola tók af áverkum hennar í síðarnefnda skiptið, en þær afhenti brotaþoli lögreglu í kjölfar skýrslutöku.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu miðvikudaginn 30. apríl 2014. Hann var spurður um atvik 26. til 28. mars og kvaðst hann hafa hrint brotaþola einhvern tíma á þessu tímabili. Hann hefði hrint henni pínulitið harkalega þannig að hún lenti utan í sófa og meiddi sig á fæti. Hann kvaðst hafa tekið í hana og verið gæti að hann hefði rekist í hálsinn á henni, en hafnaði því að hafa þrengt að hálsi hennar eða reynt að kyrkja hana. Hann kvað geta verið að hann hefði hótað henni, en það hefði verið í reiði og engin alvara þar að baki. Þau hefðu bæði verið að neyta […] og lyfja og neitaði hann að hafa neytt brotaþola til að taka lyf. Hann kvaðst einu sinni hafa dregið hana um íbúðina og hefði hann þá haldið um úlnlið hægri handar hennar, en neitaði því að hafa dregið hana um á hárinu. Verið gæti að hún hefði fengið marbletti við þetta, en marbletti á líkama hennar mætti þó aðallega rekja til kynlífsathafna þeirra. Hann kvað þau stunda svokallað BDSM-kynlíf og nota við það ólar, bönd og svipur. Þá kvað hann þau iðulega hafa fært fjármuni á milli bankareikninga sinna og hefði verið samkomulag um það þeirra á milli.
Ákærði neitaði að hafa veist að brotaþola aðfaranótt 3. apríl, eins og hún hafði lýst. Hann kvaðst kannast við að hafa misst stjórn á sér og fengið reiðiköst, en ekkert í líkingu við það sem brotaþoli lýsti þarna. Þá kvaðst hann kannast við að hafa bundið brotaþola í tengslum við kynlífsathafnir þeirra, en það hefði verið með hennar vilja. Hann kvað það geta verið að hann hefði hótað henni einhverju í fljótfærni. Loks kannaðist hann við að hafa haft á orði að hann gæti svipt sig lífi.
Ákærði neitaði því jafnframt að hafa brotið kynferðislega gegn brotaþola aðfaranótt 25. apríl. Hann kvaðst ekki muna sérstaklega eftir að þau hefðu stundað kynlíf í umrætt sinn. Þá neitaði hann því að hafa reynt að kaffæra hana eða drekkja henni í baðkari og að hafa hótað henni eða beitt hana annars konar ofbeldi þessa nótt. Hann kvaðst ekki minnast þess að nágranni þeirra hefði komið til þeirra þessa nótt. Hann kvað það þó vera hugsanlegt þótt hann myndi það ekki, en hann væri haldinn […] sem valdi minnistapi.
Læknisvottorð voru borin undir ákærða við yfirheyrsluna, en hann hafnaði því að hafa verið valdur að áverkum brotaþola, sem þar er lýst. Nánar spurður um geðhagi sína kvaðst hann haldinn […] sem lýsti sér sem […].
Í kjölfar yfirheyrslunnar ritaði ákærði undir yfirlýsingu þar sem hann heimilaði lögreglu að afla vottorða hjá geðlækni sínum í þágu rannsóknar málsins og aflétti þagnarskyldu læknisins þar að lútandi. Slík gagnaöflun fór hins vegar ekki fram við rannsóknina. Liggja því ekki fyrir læknisfræðileg gögn um geðheilsu ákærða.
Loks er þess að geta að með úrskurði héraðsdóms 6. maí 2014 var staðfest ákvörðun lögreglustjóra frá 30. apríl um að ákærði skyldi sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola í sex mánuði.
Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða, brotaþola og annarra vitna við aðalmeðferð málsins, að því marki sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar þess.
Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa veist að brotaþola með ofbeldi og hótað henni, eins og honum er gefið að sök í 1. ákærulið. Hann kvað þau hafa verið að neyta […] þetta kvöld og hefði það orðið til þess að hann fékk […] og þurfti að leita á slysadeild. Hann neitaði því að hafa tekið brotaþola kverkataki í þrígang, eins og lýst er í ákæru. Þá neitaði hann því að hafa dregið hana á hári og höndum um íbúðina, hent henni í rúm þannig að höfuð hennar slóst við vegginn og hótað henni lífláti, eins og þar er lýst. Spurður um áverka sem brotaþoli reyndist vera með við komu á slysadeild kvaðst hann ekki hafa aðra skýringu á þeim en að þau hefðu stundað BDSM-kynlíf og gætu þeir stafað af ólum sem tengdust því. Hann kvaðst þó ekki telja að þau hefðu verið að stunda slíkt kynlíf áður en þau fóru á slysadeild þessa nótt.
Að því er 2. ákærulið varðar kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa bundið brotaþola við rúm og hótað að selja nafngreindum mönnum aðgang að henni. Þá kvaðst hann ekki heldur kannast við að hafa hótað að skera hana með rakvélarblaði, hótað henni lífláti eða tekið hana hálstaki. Hann neitaði því einnig að hafa dregið hana á hárinu um íbúðina og hótað að raka af henni hárið.
Spurður um 3. ákærulið kvaðst ákærði muna eftir því að lögreglan hefði komið í íbúðina og hefði hann sýnt lögreglukonu tvær fullar töskur af ólum og slíku sem hann og brotaþoli hefðu notað við BDSM-kynlíf. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa reynt að kaffæra brotaþola í baðkarinu. Hann kvaðst þó muna eftir því að hún hefði verið í baði, en hann hefði ekki komið nálægt henni þar. Þá kvaðst hann ekki kannast við að hafa dregið hana upp úr baðkarinu eða hótað henni með hamri. Ákærði kvaðst nú muna eftir því að nágranni þeirra hefði bankað upp á hjá þeim þessa nótt vegna þess að hann hefði heyrt rifrildi. Hann kvaðst kannast við að rifrildi hefði verið í gangi, en ekkert ofbeldi hefði fylgt því. Nágranninn á efri hæðinni, D, hefði barið að dyrum og sagt þeim að dempa hávaðann þar sem það væru börn í íbúðinni uppi. Þau hefðu lofað því og hann hefði við það búið farið upp til sín. Ákærði neitaði því að þau hefðu stundað kynlíf eftir þetta. Hann kvaðst ekki geta sagt nákvæmlega til um hvernig áverkar sem brotaþoli reyndist vera með við læknisskoðun daginn eftir væru til komnir. Mögulega gætu þeir hafa stafað af því að hún hefði dottið, en hún hefði verið […] á þessum tíma.
Ákærði kvað þau brotaþola hafa verið saman í […] mánuði þegar þessi atvik urðu. Samband þeirra hefði verið mjög gott þótt það hafi komið fyrir að þau rifust eða deildu. Hann kvaðst ekki hafa haft aðgang að facebook-síðu brotaþola og neitaði því að hafa skoðað hana. Þá neitaði hann því að hafa nokkurn tíma svipt brotaþola frelsi. Ákærði kvað brotaþola hafa verið að vinna […]. Hún hefði átt ýmsa muni sem tengdust BDSM-kynlífi, alls konar ólar, sem þau hefðu notað, en það hefði alltaf verið með fullu samþykki beggja.
Borið var undir ákærða það sem kom fram hjá honum við yfirheyrslu hjá lögreglu varðandi 1. ákærulið, að hann hefði hrint brotaþola einhvern tíma á þessu tímabili og jafnframt að hann hefði hrint henni „pínu harkalega“ og að hún hafi lent utan í sófa og meitt sig í fætinum. Ákærði kvaðst telja að hann hefði verið að ýta henni frá sér þegar þetta var, en þau hefðu verið að rífast. Spurður um það sem kom fram hjá honum að hann hefði kannski tekið í brotaþola, en ekki þrengt að hálsi hennar eins og hún hefði lýst, kvaðst ákærði hafa tekið í föt hennar við upphandlegg, en ekkert ofbeldi hefði fylgt því og hann hefði ekki tekið um háls hennar. Þá kvaðst hann ekki telja að hann hefði hótað henni. Spurður um framburð hans um að hann hefði dregið brotaþola með sér inn í eldhús, nánar tiltekið þannig að hann hefði tekið í úlnlið hennar og dregið hana, kvaðst ákærði ekki kannast við þetta. Hann kvaðst telja að hann hefði tekið í hönd hennar og leitt hana þannig. Ákærði kvaðst ekki hafa orðað þetta rétt við skýrslutöku hjá lögreglu, en hann hafi búið stóran stóran hluta ævi sinnar í […] og íslensk tunga sé honum ekki töm.
Borið var undir ákærða að við yfirheyrslu hjá lögreglu varðandi 3. ákærulið hefði hann ekki sagst muna eftir því að brotaþoli hefði farið í bað þessa nótt. Þá hefði hann ekki sagst muna eftir því að nágranninn hefði komið og bankað upp á. Ákærði kvaðst muna þessi atvik betur nú og gaf þá skýringu að hann hefði verið í uppnámi þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu.
A kvað þau ákærða hafa byrjað að vera saman í […]og hefðu þau búið saman í íbúðinni að […] síðan […]. Hún lýsti atvikum að því er 1. ákærulið varðar þannig að hún hefði vaknað um klukkan sjö um morguninn og hefði ákærði þá farið að rífast í henni. Hún hefði sagt við hann að hún vildi bara að hann færi því að hann væri búinn að vera með leiðindi við hana. Þá hefði ákærði ráðist á hana og tekið utan um hálsinn á henni. Hann hefði tekið af henni símann og elt hana út um allt svo að hún hefði ekki komist út. Þá hefði hann dregið hana um alla íbúðina og hent henni utan í húsgögn og veggi. Þá hefði hann „kyrkt“ hana tvisvar í viðbót. Þannig hefði sólarhringurinn liðið. Um nóttina hefði ákærði sofnað í hálftíma eða fjörutíu mínútur, en hún hefði þurft að aka honum á sjúkrahús þegar hann vaknaði og þá hefði hún sloppið.
Brotaþoli lýsti atvikum nánar svo að ákærði hefði tekið þrisvar sinnum utan um hálsinn á henni. Í fyrsta skipti hefðu þau verið í rúminu. Hann hefði sest ofan á hana og tekið báðum höndum um háls hennar þannig að þumalfingur hans þrýstu framan á hálsinn. Hún kvaðst hafa verið við það að detta út og gæti verið að það hefði gerst. Hún hefði hugsað: […]. Hún kvaðst ekki hafa orðið eins hrædd í hin skiptin tvö sem hann gerði þetta og ekki muna eins vel eftir þeim nú. Þá kvað hún ákærða hafa dregið hana á hárinu og höndunum og ýtt henni um íbúðina svo að hún rakst utan í veggi og húsgögn. Á þessu hefði gengið í marga klukkutíma. Ákærði hefði til skiptis verið mjög rólegur og beðist afsökunar, en svo orðið snarvitlaus aftur. Hann hefði síðan sofnað, en vaknað upp með […] og hefðu þau þá farið upp á slysadeild þar sem hún hefði getað hnippt í hjúkrunarfræðing og beðið hana um að hjálpa sér. Hún hefði einnig rætt við lögreglu á sjúkrahúsinu. Eftir ábendingu starfsfólks sjúkrahússins hefði hún farið […] daginn eftir. Hún hefði verið símalaus og lyklalaus, en ákærði hefði tekið allt af henni. Hún kvaðst svo hafa hitt hann aftur síðar þennan dag eða daginn eftir og farið aftur heim.
Atvik sem 2. ákæruliður lýtur að hefðu orðið um viku síðar. Þetta hefði byrjað um klukkan tvö um nóttina. Ákærði hefði vakið hana og verið alveg brjálaður út af gömlu facebook-spjalli hennar við vinkonu sína frá árinu 2012. Hann hefði ráðist á hana. Þetta hefði verið versta tilvikið, þar sem ákærði hefði hótað henni svo mikið. Hann hefði meðal annars dregið hana á hárinu inn á bað, hótað að raka af henni hárið og sett rafmagnsrakvél í samband. Hann hefði alveg verið að fara að gera það, en samt ekki látið verða af því. Hún hefði þó verið langhræddust þegar hann hefði horft í augun á henni alveg rólegur og sagt: „Það er of mikið búið að gerast hjá okkur. Ef ég get ekki fengið þig þá fær þig enginn og ég get alveg eins drepið okkur bæði.“ Hann hefði sagt að hún mætti velja hvort hann myndi skera hana á púls í baði eða aka með henni í bifreið á vegg á 160 km hraða svo að þau myndu bæði deyja. Hann hefði verið svo alvarlegur að hún hefði trúað að hann myndi gera þetta. Hún kvaðst ekki eiga orð til að lýsa því hvað hún varð hrædd. Þessa nótt hefði hann líka tekið utan um hálsinn á henni og minnti hana að hún hefði þá verið í rúminu og hann hefði verið með sængina við hálsinn á henni. Hann hafi allan tímann verið með stóran eldhúshníf, ýmist haldið á honum í hendinni eða látið hann liggja á borðinu eða náttborðinu þar sem þau voru. Hann hefði hótað að skera húðina á andlitinu á henni. Þá hefði hann hótað að skera hana á háls ef hún tæki ekki einhver lyf. Þessa nótt hefði hann líka bundið hana niður í rúmið eftir að hafa látið hana fara úr nærbuxunum, sótt síma og sagst ætla hringja í nafngreinda menn til að selja aðgang að henni. Hún kvaðst hafa trúað því að hann myndi gera það. Í þetta skipti hefði hann líka dregið hana á hárinu um íbúðina. Þetta hefði verið eins og í fyrra skiptið, hann hefði verið rólegur og brjálaður til skiptis.
Hún kvaðst margoft þessa nótt hafa verið alveg viss um að hún myndi deyja. Hún kvaðst þess fullviss að ákærða hefði verið alvara þegar hann hótaði henni. Hann hefði hótað henni lífláti, farið inn á bað og látið renna í baðkarið eins og til að láta af því verða. Hún kvaðst ekki hafa kallað á hjálp en reynt að opna glugga svo að nágrannarnir heyrðu til þeirra. Þá hefði hún reynt að komast fram í anddyri, en hann hefði stöðvað hana. Hún hefði reynt að spila með til að halda honum góðum. Þá hefði hún náð símanum sínum af honum og sent vinkonu sinni, E, SMS-skilaboð og beðið hana um að hringja á lögregluna. E hefði séð skilaboðin þegar hún vaknaði daginn eftir og komið til hennar, en þá hefði ákærði verið farinn út. Hún hefði síðan farið á slysadeild og verið skoðuð af lækni þar. Eftir þetta hefði hún farið upp í sveit til F vinkonu sinnar og dvalið þar í tæpa viku. Hún hefði átt einhver símtöl við ákærða á meðan hún var hjá F og síðan hefði hún farið aftur heim til hans.
Brotaþoli lýsti því að einhver smá tími hefði liðið þar til þau atvik urðu sem 3. ákæruliður lýtur að, en einn daginn hefði henni fundist ákærði vera farinn að „sýna einhverja takta“. Hún hefði orðið hrædd og haft sambandi við […] og fengið að vera hjá honum eina nótt. Ákærði hefði komist að því kvöldið eftir, en hún hefði þá verið í baði og hann farið að skoða símaskilaboð í tölvunni hennar á meðan. Hann hefði komið inn á baðherbergið, ýtt henni á kaf ofan í baðkarið og haldið henni niðri heillengi. Hún kvaðst hafa verið alveg viss um að hún myndi deyja. Hann hefði síðan dregið höfuð hennar upp úr vatninu og hefði hún hóstað og hóstað. Hann hefði endurtekið þetta tvisvar sinnum, en það hefði þó ekki varað eins lengi og í fyrsta skiptið. Hún hefði sparkað svo fast í baðkarið að hún hefði náð að vekja nágrannana og hefði D, sem bjó á efri hæðinni, komið niður og hringt dyrabjöllunni. Ákærði hefði þá dregið hana upp úr baðkarinu og inn í svefnherbergi. Þá hefði hann allt í einu verið kominn með hamar sem hún vissi ekki hvaðan kom. Hann hefði hótað að berja hana með hamrinum í höfuðið og líka hótað að drepa D. Hún kvaðst halda að hún hafi kallað á hjálp en ekki muna það alveg. Hún kvaðst hafa heyrt ákærða og D tala saman frammi og hafi ákærði sagt að þau hefðu verið að stunda BDSM-kynlíf. D hafi sagst vilja fá að sjá hana en hún hefði ekki farið fram. D hefði farið upp til sín eftir þetta og ákærði orðið rólegri, en hamarinn hafi samt ennþá legið á náttborðinu. Síðan hefðu þau sofið saman og hún hefði verið alveg frosin á meðan á því stóð. Hún hefði ekkert sagt eða gert, en kynmökin hafi ekki verið með hennar vilja. Nánar lýsti brotaþoli því að hún hefði ekki þorað að segja ákærða að hún vildi þetta ekki, enda segi maður ekki neitt með hamar við hliðina á sér. Hún hefði verið hrædd við hann og fundist hann vera líklegur til alls. Daginn eftir hefðu þau farið á bensínstöð til að fá sér að borða og hefði hún þá náð að senda lögmanni sínum skilaboð um að hringja í Neyðarlínuna. Síðan hefði lögreglan komið heim til hennar og fjarlægt ákærða, en hún hefði farið á slysadeild til að láta líta á áverka sem hún hefði hlotið. Hún kvaðst ekki hafa séð ákærða síðan þetta var.
Brotaþoli kvaðst ekki hafa viljað leggja fram kæru á hendur ákærða eftir fyrstu ofbeldistilvikin tvö. Hún hefði verið hrædd við hann, en líka þótt vænt um hann og því ekki verið tilbúin að kæra hann. Þá hefði staða hennar verið sú að hún hefði verið […]. Hún kvaðst ekki eiga orð til að lýsa líðan sinn á þessu tímabili. […]
Spurð um fyrsta tilvikið sem rakið er í ákæru kvað hún sér hafa fundist hún vera ófrjáls á þessum tíma. Hún tók fram að hún hefði getað komist í burtu þegar ákærði sofnaði um nóttina. Hann hefði sofið í hálftíma eða fjörutíu mínútur, en hún hefði setið eins og lömuð við eldhúsborðið á meðan og ekki getað hreyft sig.
Hún lýsti því jafnframt að […]. Hefði ákærði tvisvar sinnum neytt hana til að taka inn lyf, sem hún var hrædd um að myndu mælast í lyfjaprófi sem hún varð að gangast undir vegna málsins, en þetta hefðu verið lyf sem mældust lengi í þvagi. Í annað skiptið sem þetta gerðist hefði ákærði hótað henni með hnefa, en í hitt skiptið með hnífi og hefði hann sagst myndi skera hana á háls ef hún kyngdi þessu ekki. Hann hefði sagt við hana að hann skyldi sjá til þess að […].
Að því er varðar annað tilvikið sem ákært er fyrir kvað hún ákærða hafa hótað að skera hana í andlitið með rakvélarblaði sem þau notuðu til að […]. Þá hefði hún legið í gólfinu og hann dregið hana þannig á hárinu inn á baðherbergi þar sem hann hótaði að raka af henni hárið. Í hin skiptin hefði hann tekið í hár hennar og togað hana þannig með sér. Hún kvað hann hafa bundið hana í rúmið með „leikfangaböndum“ sem þau áttu. Sérstaklega spurð hafnaði hún því alfarið að þau hefðu stundað svokallað BDSM-kynlíf.
Spurð um þann ákærulið sem lýtur að nauðgun kvaðst brotaþoli hafa verið frosin af hræðslu þegar kynferðismökin áttu sér stað. Hún kvað geta verið að hún hafi aðeins tekið þátt í kynferðisathöfnunum, en hún hefði verið að reyna að halda ákærða góðum til að hann yrði ekki alveg brjálaður. Hún hefði verið hrædd og fundist hún verða að spila með.
G lögreglumaður ræddi við brotaþola á slysadeild aðfaranótt 28. mars 2014. Hún kvað brotaþola hafa hvíslað því að starfsfólki sjúkrahússins að hún þarfnaðist aðstoðar þar sem ákærði hefði beitt hana ofbeldi um lengri tíma. Hún hefði lýst því að ákærði hefði vakið hana upp og að þetta hefði staðið í marga klukkutíma. Hún hefði verið mjög hrædd við hann og kvaðst vitnið hafa þurft að fullvissa hana um að hann fengi ekki vitneskju um að hún hefði leitað sér aðstoðar. Vitnið kvað áverka brotaþola hafa verið það grófasta sem hún hefði séð eftir heimilisofbeldi. Hún hefði verið með áverka á hálsi og bringu og lýst því að ákærði hefði legið ofan á henni og að hún hefði ekki getað andað. Kvað vitnið sér hafa fundist þetta nánast eins og banatilræði. Áverkar brotaþola hefðu verið í samræmi við lýsingar hennar á því sem gerst hefði.
H lögreglumaður kom á heimili brotaþola 25. apríl 2014. Vitnið kvað málið vera sér minnisstætt vegna þess að hún hefði aldrei séð manneskju jafn hrædda og brotaþoli var. Hún hefði áttað sig á því fljótlega eftir að hún kom inn í íbúðina að brotaþoli vildi ekki að hún færi en þorði ekki að segja neitt. Hún hefði því komið því í kring að félagi hennar fór afsíðis með ákærða. Hún kvaðst ekki muna hvað brotaþoli sagði en hún hefði alls ekki viljað vera ein með þessum manni. Þau hefðu síðan fengið ákærða til að yfirgefa íbúðina með sér.
Vitnið kvaðst aldrei hafa komið að máli þar sem hún hefði orðið vitni að því að einhver væri svona hræddur við einhvern annan. Ákærði hefði sagt að þetta væri algjör misskilningur og kennt því um hvernig brotaþoli var að þau stunduðu mjög harkalegt kynlíf. Vitnið kvaðst muna eftir að hafa séð áverka á brotaþola, en í skýrslu sem rituð var um útkallið kemur fram að hún hafi verið með rispu á framanverðum hálsi og marbletti víðs vegar um líkamann. Þá kemur fram í skýrslunni að brotaþoli hafi lýst því að ákærði hefði í þrígang um nóttina rifið í hár hennar þar sem hún var í baði og haldið henni ofan í vatninu, auk þess sem hann hefði dregið hana um íbúðina og lamið hana. Vitnið kvað brotaþola varla hafa þorað að tala fyrir framan ákærða. Hann hefði svarað öllu fyrir þau bæði. Brotaþoli hefði verið eins og lítil mús. Hún hefði hvíslað að henni þegar hún lýsti því sem hefði gerst. Vitnið kvaðst muna eftir því að ákærði hefði verið að sýna henni einhverja muni í tösku, en hún hefði ekki séð nein tæki eða tól sem gætu tengst svokölluðu BDSM-kynlífi. Þá lýsti vitnið því að íbúðin hefði verið „á hvolfi“, eins og mikið hefði gengið þar á.
D, sem bjó í íbúð á […] hússins að […], kvað sambýliskonu sína hafa vakið sig aðfaranótt 25. apríl 2014 um klukkan hálffjögur þar sem mikill hávaði hefði borist frá íbúðinni á neðri hæðinni. Vitnið kvað sömu herbergjaskipan vera á íbúðunum og hefði hann áttað sig á því að hávaðinn barst frá baðherberginu á neðri hæðinni. Hann hefði heyrt dynki og gutl í vatni og fundist hann heyra einhver öskur. Hann hefði rokið út og barið að dyrum á neðri hæðinni. Enginn hefði komið til dyra og hefði hann því barið aftur. Þá hefði ákærði komið til dyra og opnað að hálfu leyti. Hann hefði verið alveg nötrandi, greinilega í miklum æsingi og rennandi blautur frá toppi til táar. Þá hefði hann greinilega verið „vel í því“. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærða hver fjandinn væri í gangi og að hann hefði áður rætt við hann um að vera ekki með hávaða þar sem börn væru í húsinu. Ákærði hefði beðist afsökunar og sagt að þau væru að stunda kynmök þarna inni. Vitnið kvaðst þá hafa krafist þess að fá að tala við konuna hans, en ákærði hefði sagt að hún væri nakin og hefði hann þá ekki kunnað við að fylgja því frekar eftir. Það hefði hins vegar verið greinilegt að eitthvað mikið væri í gangi þarna inni. Ákærði hefði allur verið rennandi blautur og skolfið eins og hrísla. Það hefði verið eins og komið hefði verið að honum í einhverju „akti“.
Vitnið kvað brotaþola hafa komið upp til þeirra daginn eftir og þakkað honum fyrir að hafa komið niður. Hún hefði sagst hafa legið sofandi í rúminu um nóttina, en vaknað við að ákærði var byrjaður að kyrkja hana. Hann hefði síðan dregið hana inn á baðherbergi og reynt að drekkja henni í baðkarinu. Þá hefði hún sagt að þegar vitnið barði að dyrum hefði ákærði verið með hamar í hendinni og hefði hann ætlaði að fara að berja hana í höfuðið. Hún hefði talað um að hann hefði bjargað lífi sínu. Vitnið lýsti því að brotaþoli hefði verið með áverka á hálsi og, að hann minnti, á handleggnum. Hann tók fram að hann gæti ekki fullyrt að hann myndi alveg hvernig brotaþoli lýsti atvikum.
I, þáverandi sambýliskona vitnisins D, kvaðst hafa vaknað upp við hávaða frá íbúðinni á neðri hæðinni. Hún kvaðst áður hafa heyrt hávaða frá íbúðinni en þetta hefðu verið öðruvísi hljóð sem hefðu vakið hjá henni óhug. Hún hefði heyrt dynki í baðkari, vatnshljóð og öskur frá brotaþola. Hún kvaðst hafa vakið D og sagt honum að hann yrði að fara niður þar sem hún héldi að ákærði ætlaði að drepa brotaþola í þetta skipti. Hún hefði heyrt þegar D barði að dyrum, en enginn hefði svarað og hefði hún heyrt að hann barði þá einnig í gluggann. Síðan hefði hún heyrt þegar ákærði kom til dyra og D spurði hvað væri í gangi, en hún hefði ekki heyrt hvað þeim fór annað á milli. Hún kvaðst hafa heyrt smá grát niðri eftir að D fór niður, en ekki hávaða eins og hún hefði heyrt áður.
Vitnið kvað brotaþola hafa komið upp til þeirra daginn eftir og þakkað þeim fyrir. Hún hefði sagt þeim að í þeirri andrá sem D kom niður hefði ákærði haldið hamri á lofti og að hún hefði talið að hún myndi ekki lifa þetta af.
E kvaðst hafa sótt brotaþola á heimili hennar, eftir að lögregla fjarlægði ákærða þaðan 25. apríl 2014, og hefði hún ekið henni á slysadeild. Vitnið kvaðst hafa séð áverka á brotaþola. Hún hefði verið marin og blá, ein taugahrúga, grátandi og í sjokki. Hún hefði lýst því að ákærði hefði reynt að drekkja henni í baðkarinu og lamið hana.
Vitnið kvaðst einu sinni áður hafa ekið brotaþola á slysadeild. Þá hefði hún vaknað og séð að brotaþoli hefði sent henni SMS um nóttina og beðið hana um að koma. Hún kannaðist jafnframt við að hafa ekið brotaþola upp í sveit þar sem hún ætlaði að dvelja hjá F vinkonu sinni. Þá kvaðst hún minnast þess að hafa tekið myndir með síma sínum af áverkum á líkama brotaþola, sem liggja fyrir í málinu, en af gögnum málsins verður ráðið að þær hafi verið teknar eftir atvikið 25. apríl 2014.
F kvaðst hafa fengið SMS-skilaboð frá brotaþola þar sem fram kom að hún væri hrædd við ákærða og hefði hún beðið um að fá að koma og dvelja hjá henni í sveitinni […]. Hún hefði komið daginn eftir og verið gjörsamlega niðurbrotin. Vitnið kvaðst hafa séð marblett á henni eins og eftir hálstak og hún hefði verið með skallablett á höfðinu. Hún hefði lítið getað sagt til að byrja með, en þó lýst því að ákærði hefði haldið henni fanginni og tekið af henni lykla og síma. Þá hefði hann haldið henni niðri í rúminu og dregið hana inn á baðherbergi. Brotaþoli hefði dvalið hjá vitninu í fimm til sjö daga. Fyrstu dagana […]. Vitnið kvaðst jafnframt muna eftir því að ákærði hefði hringt í heimasíma hennar og verið að reyna að ná sambandi við brotaþola á meðan hún dvaldi hjá henni.
B, læknir á slysa- og bráðadeild Landspítala, skoðaði brotaþola við komu þangað aðfaranótt 28. apríl 2014. Hann kvað áverka sem hún var með hafa samrýmst vel þeirri lýsingu sem hún gaf á atvikum, um að hún hefði verið tekin kverkataki, henni verið fleygt í vegg, gripið hefði verið fast um upphandleggi og togað í hár. Rakti vitnið þá áverka sem fram komu við skoðun á hálsi, auk þreifieymsla yfir þríhöfða á upphandleggjum, sem geti samrýmst því að tekið hafi verið um upphandleggina. Vitnið kvað brotaþola hafa verið í miklu uppnámi og geðshræringu. Hún hefði verið óttaslegin vegna þessa manns og fengið að vera á slysadeild um nóttina. Það hefði verið gert til að hún fengi að jafna sig andlega, jafnframt því að tryggja öryggi hennar, en fólki sé ekki leyft að dvelja á deildinni nema rík ástæða sé til. Vitnið svaraði því jafnframt að hann teldi áverka brotaþola ekki verða rakta til þess að hún hefði verið í […] eða þjáðst af […] á þessum tíma.
J læknir skoðaði brotaþola við komu á slysadeild 3. apríl 2014. Hann kvað hana hafa lýst því að sambýlismaður hennar hefði slegið hana, fyrst fyrir um viku og svo aftur nóttina fyrir komu, tekið hana hálstaki, hent henni til og frá og troðið einhverju upp í hana. Við skoðun hefði hún reynst vera með eymsli í kjálka og hálsi og bólgna vör, sem hefði getað verið eftir að einhverju hefði verið troðið upp í hana. Brotaþola hefði verið vísað til áfallateymis sjúkrahússins og hefði hún komið þangað daginn eftir.
C læknir skoðaði brotaþola við komu á slysadeild 25. apríl 2014. Hann kvað áverka hennar hafa samrýmst vel þeirri lýsingu á atvikum sem hún gaf. Hún hefði verið með marbletti á útlimum, kálfum og lærum, stórt mar á hægri rasskinn, og mar á olnboga og víðar á líkamanum. Áverkar á útlimum hafi vel getað komið heim og saman við að hún hefði barist um í baðkari. Þá kæmu marblettir á upphandleggjum vel heim og saman við að henni hafi verið haldið og ýtt niður. Vitnið kvað brotaþola hafa verið í miklu uppnámi, henni hefði liðið mjög illa og […] við skoðunina.
Niðurstaða
Ákæruliður 1
Við yfirheyrslu hjá lögreglu, sem tekin var upp í hljóði og mynd, viðurkenndi ákærði að hafa hrint brotaþola „pínulítið harkalega“ með þeim afleiðingum að hún lenti utan í sófa og meiddi sig á fæti. Þá viðurkenndi hann jafnframt að hafa „tekið í“ hana og sést hann á myndupptöku sýna með látbragði að hann hefði gripið í hana með báðum höndum. Jafnframt kannaðist ákærði við að hafa hótað brotaþola lífláti í reiði, þótt engin alvara hefði verið þar að baki, og að hafa tekið um úlnlið hægri handar hennar og dregið hana þannig um íbúðina. Þá kvað hann að verið gæti að hún hefði fengið einhverja marbletti eftir þetta. Hann kvaðst þó telja að áverka á líkama hennar mætti aðallega rekja til kynlífsathafna þeirra.
Við aðalmeðferð málsins neitaði ákærði hins vegar alfarið sök og bar því við að hann hefði „misorðað“ lýsingar sínar við skýrslugjöf hjá lögreglu. Hann kvaðst kannast við að hafa tekið í föt brotaþola og að hafa tekið í hönd hennar og leitt hana um íbúðina, en ekki annað það sem hann hefði áður lýst. Um skýringu á áverkum brotaþola vísaði ákærði til þess að þau hefðu stundað svokallað BDSM-kynlíf. Brotaþoli hafnaði því alfarið fyrir dóminum að svo hefði verið.
Verknaðarlýsing í ákæru er byggð á framburði brotaþola við skýrslutöku hjá lögreglu og lýsti hún atvikum í meginatriðum á sama veg fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins. Er það jafnframt mat dómsins að framburður hennar hafi verið einkar trúverðugur og augljóst að hún lýsti atvikum sem hefðu fengið mjög á hana. Frásögn brotaþola fær einnig stoð í læknisvottorði og vitnisburði B læknis, sem lýsti því að áverkar sem hún bar hefðu komið vel heim og saman við lýsingar hennar á líkamsárás ákærða. Þá báru B og lögreglumaðurinn G að hún hefði óttast ákærða mjög. Á hinn bóginn hefur framburður ákærða verið misvísandi við meðferð málsins og eru skýringar hans á breyttum framburði fyrir dóminum ótrúverðugar. Þá er sú frásögn hans í andstöðu við læknisfræðileg gögn og vitnisburði, sem að framan greinir.
Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að leggja beri frásögn brotaþola til grundvallar um atvik í umrætt sinn. Þykir sannað að ákærði hafi veist að brotaþola með ofbeldi og hótað henni lífláti, eins og lýst er í ákæru. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið og varðar háttsemi hans við 1. mgr. 217. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður 2
Verknaðarlýsing í ákæru er byggð á framburði brotaþola við skýrslutöku hjá lögreglu. Ákærði hefur alfarið neitað sök. Hann lýsti því þó við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann kannaðist við að hafa misst stjórn á sér og að hafa fengið reiðiköst, en ekkert í líkingu við þetta. Þá útilokaði hann ekki að hafa hótað brotaþola í fljótfærni. Ákærði lýsti því jafnframt við yfirheyrslu hjá lögreglu og fyrir dóminum að hann hefði bundið brotaþola í tengslum við kynlífsathafnir þeirra, en kvað það hafa verið með hennar vilja.
Framburður brotaþola við aðalmeðferð málsins hefur verið rakinn og lýsti hún atvikum á sama veg og við skýrslutöku hjá lögreglu. Brotaþoli gaf greinargóða lýsingu á atvikum fyrir dóminum og var frásögn hennar einkar trúverðug að mati dómsins. Meðal annars kom skýrt fram hjá henni að hún hefði verið þess fullviss að ákærði myndi láta verða af líflátshótunum sínum og hótunum um misþyrmingar. Framburður brotaþola fær stoð í vitnisburði E, um að hún hafi fengið send SMS-skilaboð frá henni með hjálparbeiðni þessa nótt og ók vitnið henni á slysadeild daginn eftir. Þá liggur fyrir vottorð um læknisskoðun brotaþola á slysadeild þar sem fram kemur að við skoðun hafi hún reynst vera með eymsli yfir kjálkum og í hálsi, auk þess sem varir hafi verið bólgnar og sprungnar, en J læknir gerði frekari grein fyrir vottorðinu fyrir dóminum. Framburður brotaþola fær enn fremur stuðning í vitnisburði F, sem kvaðst hafa séð áverka á brotaþola er hún kom til hennar daginn eftir, auk þess sem vitnið lýsti andlegri vanlíðan hennar eftir atvikið.
Með vísan til framangreinds verður trúverðugur og stöðugur framburður brotaþola, sem jafnframt fær stoð í læknisfræðilegum gögnum og vitnaframburði, lagður til grundvallar um atvik í umrætt sinn. Þykir, gegn neitun ákærða, sannað að hann hafi veist að brotaþola með ofbeldi og hótað henni, eins og lýst er í ákæru, og að hafa beitt hana ólögmætri nauðung með því að binda hana við rúm, eins og þar greinir. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og varðar brot hans við 1. mgr. 217. gr., 225. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður 3
Ákærði neitar alfarið sök. Við aðalmeðferð málsins kvað hann þau brotaþola hafa rifist þessa nótt, en ekkert ofbeldi hefði fylgt því. Þá hafnaði hann því að hafa haft samfarir við brotaþola eða hótað henni. Hann kvaðst þó minnast þess að brotaþoli hefði verið í baði þarna um nóttina og að D nágranni þeirra hefði komið niður og beðið þau um að hafa lægra. Við yfirheyrslu hjá lögreglu bar ákærði hins vegar að mestu fyrir sig minnisleysi um atvik að þessu leyti. Hann kvaðst ekki minnast þess að D hefði komið þarna að, en hugsanlegt væri að svo hefði verið. Vísaði ákærði í því sambandi til þess að hann væri haldinn […], sem valdi minnistapi. Spurður við yfirheyrsluna hvort þau brotaþoli hefðu stundað kynlíf þennan dag eða þessa nótt svaraði hann því til að það hefðu þau gert flest alla daga, en hann myndi ekki nákvæmlega hvort svo hefði verið í þetta skipti, þau hefðu verið „alltaf að“. Hann hafnaði því hins vegar alfarið að hafa haft samfarir við brotaþola gegn hennar vilja. Við aðalmeðferð málsins var ákærði beðinn um að skýra hvers vegna fram kæmi hjá honum að hann myndi atvik, sem hann hefði ekki talið sig muna við yfirheyrslu hjá lögreglu. Ákærði gaf þá skýringu að hann hefði verið í uppnámi þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu, en kvaðst muna atvik betur nú.
Sem fyrr er verknaðarlýsing í ákæru byggð á framburði brotaþola við skýrslutöku hjá lögreglu og lýsti hún atvikum á sama veg fyrir dóminum. Rakinn hefur verið vitnisburður nágrannanna D og I um að þau hafi heyrt dynki, vatnshljóð og óp koma frá baðherbergi íbúðarinnar. Þá bar D að ákærði hefði verið blautur frá toppi til táar og mjög æstur þegar hann kom til dyra í umrætt sinn. Þá hefur verið rakinn vitnisburður lögreglumannsins H, sem kom á heimilið daginn eftir. Kom meðal annars fram hjá vitninu að hún hefði hvorki fyrr né síðar í starfi sínu séð jafn óttaslegna manneskju. Einnig liggur fyrir læknisvottorð C, sem skoðaði brotaþola við komu á slysadeild þennan dag. Í vottorðinu er höfð eftir brotaþola lýsing á atvikum og kemur þar meðal annars fram að ákærði hafi haft við hana kynmök án samþykkis hennar. Í vitnisburði læknisins fyrir dóminum kom jafnframt fram að áverkar brotaþola hefðu samrýmst vel frásögn hennar af því sem gerst hefði, meðal annars kæmu marblettir á upphandleggjum vel heim og saman við að henni hefði verið haldið og ýtt niður. Þá liggur fyrir vitnisburður E um að hún hafi séð áverka á brotaþola þegar hún kom á heimili hennar þennan dag og eru ljósmyndir sem hún tók af þeim meðal gagna málsins, auk mynda sem teknar voru á slysadeild.
Svo sem rakið hefur verið hefur brotaþoli verið samkvæm sjálfri sér í lýsingum á atvikum í umrætt sinn. Lýsingar hennar við aðalmeðferð málsins á háttsemi ákærða voru ítarlegar og greinargóðar og rakti hún atvik í sömu tímaröð og fyrr. Þá var framburður hennar jafnframt trúverðugur að mati dómsins, auk þess sem hann fær stoð í læknisfræðilegum gögnum og framburði vitna, sem að framan greinir. Þykir sem fyrr rétt að leggja til grundvallar frásögn brotaþola um atvik í umrætt sinn, en hafna misvísandi og ótrúverðugum framburði ákærða. Þykir sannað að ákærði hafi veist að brotaþola með ofbeldi og hótað henni, eins og lýst er í ákæru.
Þá er til þess að líta að við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði ákærði því ekki að hafa haft samfarir við brotaþola þessa nótt, heldur kvaðst hann ekki muna sérstaklega eftir því. Skýringar sem ákærði gaf á breyttum framburði sínum að þessu leyti við aðalmeðferð málsins eru ótrúverðugar að mati dómsins. Samkvæmt framangreindu þykir nægjanlega sýnt fram á að ákærði hafi haft samfarir við brotaþola, eins og hún hefur borið um. Brotaþoli hefur lýst því að kynferðismökin hafi verið gegn hennar vilja, en hún hafi látið að vilja ákærða af ótta við hann vegna þess sem á undan var gengið. Til þess er að líta að ákærði beitti brotaþola grófu ofbeldi og hótaði henni lífláti skömmu áður en hann hafði við hana samræði. Eins og á stóð hlaut honum að vera ljóst að vilji hennar gat ekki staðið til þess að hafa við hann kynferðismök og að henni stæði ógn af honum. Þykir vera sýnt fram á að ákærði hafi með þessu þröngvað brotaþola til kynferðismakanna með ólögmætri nauðung, eins og honum er gefið að sök í ákæru.
Samkvæmt framangreindu verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið og varða brot hans við 1. mgr. 217. gr., 233. gr. og 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.
Við flutning málsins fyrir dóminum krafðist verjandi ákærða sýknu af ákæruatriðum er varða 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, samkvæmt 1. til 3. ákærulið, þar sem þau væru fyrnd, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til 4. mgr. sömu lagagreinar eru sakir ákærða samkvæmt framangreindum ákæruliðum ófyrndar og ber því að hafna kröfu um sýknu á þeim grunni.
Ákæruliður 4
Ákærða er gefið að sök að hafa með þeirri háttsemi, sem í 1. til 3. ákærulið greinir, ítrekað móðgað og smánað brotaþola svo að talið verði fela í sér stórfelldar ærumeiðingar í skilningi 233. gr. b almennra hegningarlaga, sbr. þá breytingu sem varð á lögunum með lögum nr. 27/2006. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi að þeim lögum getur móðgun eða smánun í merkingu ákvæðisins átt sér stað í orðum eða athöfnum. Þá kemur fram að ákvæðið hafi það einkum að markmiði að sporna við því að höfð séu í frammi ummæli eða athafnir á milli nákominna sem taldar verða á grundvelli almenns og hlutlægs mælikvarða fela í sér stórfelldar ærumeiðingar, svo sem ýmsar athugasemdir eða athafnir geranda sem beinast meðal annars að útliti, persónulegum eiginleika eða hátterni brotaþola. Meiri líkur verði taldar á því að fullnægt sé skilyrðinu um stórfelldar ærumeiðingar ef fyrir liggur að móðgandi eða smánandi orðbragð eða athafnir á milli nákominna sé endurtekið eða aðstæður að öðru leyti þess eðlis að móðgun eða smánun verði talin alvarleg skerðing á friðhelgi brotaþola.
Brot þau sem ákærði er sakfelldur fyrir í máli þessu beindust gegn sambýliskonu hans á heimili þeirra og var um þrjár atlögur að ræða á tæplega mánaðar löngu tímabili. Um var að ræða alvarleg brot, sem sum vörðu um lengri tíma, og beindust þau að líkama konunnar, frjálsræði og friðhelgi einkalífs hennar. Verður talið að með háttseminni hafi ákærði móðgað og smánað brotaþola í orði og athöfnum, svo að varði hann refsingu samkvæmt 233. gr. b almennra hegningarlaga, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 843/2014. Samkvæmt framangreindu verður ákærði einnig sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið.
Ákærði er fæddur árið […]. Samkvæmt sakavottorði var hann dæmdur í […] 2008 til 30 daga skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar og greiðslu sektar fyrir þjófnaðar- og umferðarlagabrot. Í […] 2011 var honum gerð sektarrefsing fyrir fíkniefnalagabrot. Hann var dæmdur í […] 2011 til 5 mánaða fangelsisrefsingar fyrir þjófnað, fjársvik, skjalafals og fíkniefna- og umferðarlagabrot og jafnframt sviptur ökurétti í 12 mánuði, en fyrrgreindur skilorðsdómur frá árinu 2008 var dæmdur upp í málinu. Hann var dæmdur í […] 2012 til tveggja mánaða fangelsisrefsingar fyrir umboðssvik. Loks var hann dæmdur í […] 2016 til sektargreiðslu vegna brota gegn umferðarlögum og fíkniefnalögum og sviptur ökurétti í tvö ár.
Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir líkamsárásir, hótanir, ólögmæta nauðung og nauðgun og beindust brot hans gegn sambýliskonu hans á heimili þeirra, sem fyrr greinir. Refsing verður ákvörðuð með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður við ákvörðun refsingar einnig litið til 1. og 3. tölul. 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.
Af hálfu brotaþola er krafist miskabóta að fjárhæð 3.500.000 krónur auk vaxta. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða samkvæmt a- og b-liðum 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun fjárhæðar miskabóta verður litið til sjónarmiða sem höfð voru til hliðsjónar við ákvörðun refsingar. Þá verður litið til þess sem fram kom hjá brotaþola við meðferð málsins, að henni hefði staðið mikil ógn af ákærða og óttast um líf sitt á meðan á atlögum hans stóð. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 3.000.000 króna, sem beri vexti sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 879.780 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins og við upphaf málsmeðferðar fyrir dóminum, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 429.660 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helgu Völu Helgadóttur hdl., 946.275 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 114.512 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.
Málið dæma héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir, sem dómsformaður, og Þórður S. Gunnarsson, og Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.
Ákærði greiði A, kt. […], 3.000.000 króna í miskabætur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 27. mars 2014 til 28. desember 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 879.780 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 429.660 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helgu Völu Helgadóttur hdl., 946.275 krónur. Ákærði greiði 114.512 krónur í annan sakarkostnað.