Hugleiðingar veðurfræðings
Nú þegar þetta er skrifað nálgast lægð óðfluga úr suðri og veldur hún sunnanátt með rigningu á stærstum hluta landsins í dag. Undir kvöld má búast við strekkings vindi og talsverðri eða mikilli rigningu á sunnanverðu landinu og geta vöð yfir óbrúaðar ár orðið illfær eða alveg ófær vegna vatnavaxta.
Norðaustantil á landinu verður hærra undir skýin og lengst af lítil eða engin úrkoma og getur hiti náð í 18-19 stig á þeim slóðum þegar best lætur.
Á morgun gera spár ráð fyrir að áðurnefnd lægð verði á sveimi skammt suðvestur af landinu. Vindur minnkar eftir því sem líður á morgundaginn. Sunnanlands má búast við rigningu með köflum. Í öðrum landshlutum ætti að rofa til og eitthvað að sjást til sólar, en stöku skúrir geta þó látið á sér kræla. Spá gerð: 28.07.2024 06:46. Gildir til: 29.07.2024 00:00.
Gul viðvörun vegna veðurs: Suðurland, Suðausturland og Miðhálendi
Veðurhorfur á landinu
Sunnan 5-10 m/s. Úrkomulítið um landið norðaustanvert, en víða rigning annars staðar. Suðaustan 10-15 sunnantil undir kvöld með talsverðri eða mikilli rigningu á þeim slóðum. Hiti 10 til 19 stig, hlýjast norðaustanlands.
Minnkandi sunnanátt á morgun. Bjart með köflum og stöku skúrir, en lengst af rigning sunnanlands. Hiti breytist lítið.
Spá gerð: 28.07.2024 09:40. Gildir til: 30.07.2024 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Vestlæg átt 5-10 m/s. Skýjað og sums staðar dálítil rigning en úrkomumeira norðaustantil. Bjart að mestu á Suðausturlandi. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast suðaustantil. Vaxandi sunnanátt á vestanverðu landinu um kvöldið.
Á miðvikudag:
Austan- og suðaustan 8-15 og dálítil rigning, en hægari vindur og bjart með köflum um landið norðanvert. Hiti 8 til 18 stig, svalast við austurströndina. Bætir í rigningu sunnan- og suðvestantil um kvöldið.
Á fimmtudag:
Austan 5-10, en 10-15 norðvestantil og við suðurströndina. Rigning á sunnanverðu landinu en þurrt að kalla fyrir norðan. Hiti 8 til 17 stig, svalast á Austfjörðum.
Á föstudag og laugardag:
Útlit fyrir norðaustlæga átt. Rigning með köflum í flestum landshlutum, einkum fyrir austan. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast suðvestantil.
Spá gerð: 28.07.2024 09:26. Gildir til: 04.08.2024 12:00.