Fuku öll fögur fyrirheit um baráttu gegn hnattrænni hlýnun út vindinn þegar Katrín og hennar flokkur komst til valda?
Vinstri grænum er afar umhugað um loftslagsmál og hefur það lengi verið á stefnuskrá flokksins að endurskoða raforkusamninga við stóriðju þar sem stóriðjan losar mikið magn af koldíóxið (CO2) við sína iðju. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 2017 kemur fram að losun frá iðnaði og efnanotkun hefur aukist um 13% síðan 1990 og var 45% af allri losun koldíóxíðs á Íslandi árið 2017. Í þessum flokki er álframleiðsla og járnblendi stærsti hlutinn eða 85%.
Í ljósi þessara upplýsinga er eðlilegt að flokkur forsætisráðherra, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, taki einarða afstöðu um að endurskoða samninga við stóriðju þar sem koldíóxið mengun hennar er svo stór hluti sem raun ber vitni. Enda kemur fram í stefnuskrá þeirra: „Þvert á móti er eðlilegt að kanna hvort ekki megi draga úr raforkunotkun í þágu stóriðjunnar, til dæmis með því að hefja endurskoðun raforkusamninga til stóriðju til framtíðar, með því markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, fækka mengandi stóriðjuverum, auðvelda orkuskipti í samgöngum, auka fjölbreytni í iðnaði og fjölga í hópi „grænna“ fyrirtækja sem nota raforku á Íslandi.“
Nú var Katrín Jakobsdóttir nýverið viðstödd athöfn þar sem jökullinn Ok var kvaddur og vill hún meina að hvarf jökulsins sé skýr birtingarmynd hnattrænnar hlýnunnar sem má þá m.a. rekja til losun koldíóxiðs. Á heimasíðu Vinstrihreyfingarinnar er vitnað í ræðu Katrínar á Okinu og kom þar m.a. fram: „Katrín sagði að íslensk stjórnvöld hefðu sett fram fjármagnaða aðgerðaáætlun í fyrra sem þyrfti að endurskoða reglulega og bæta við frekari aðgerðum. Framundan væru viðamikil orkuskipti í samgöngum, grænir skattar hefðu verið kynntir til sögunnar og stóraukið við kolefnisbindingu, auk fjölda annarra aðgerða. Ísland hvetti önnur ríki til að grípa markvisst til aðgerða.“
Allar þessar staðhæfingar virðast vera á pari við stefnu VG og því er ekki laust við að það veki furðu þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir , ráðherra, segir á ársþingi Landsvirkjunar að búið sé að endurnýja flesta samninga við stórnotendur. Hvernig stendur á því að þessir samningar séu endurnýjaðir á sama tíma og Vinstri græn sitja í ríkisstjórn og segjast vera að berjast gegn losun kodíóxíðs.
Fuku öll fögur fyrirheit um baráttu gegn hnattrænni hlýnun út vindinn þegar Katrín og hennar flokkur komst til valda? Hvað með athöfnina við Okið, var hún þá bara hluti af leikriti sem hefur þann einn tilgang að slá ryki í augu almennings? „Að ljúga að öðrum er ljótur vani en að ljúga að sjálfum sér er hvers manns bani“ – Confucius.