Bóluefni Pfizer kom með flugi til landsins frá Hollandi í morgun og var án tafar flutt í höfuðstöðvar Distica í Garðabæ, en fyrirtækið mun annast vörslu og dreifingu bóluefnisins hér á landi. Fjölmiðlar sýndu beint frá móttöku bóluefnisins þar sem meðal annarra voru viðstödd, auk Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Ástu Valdimarsdóttur ráðuneytisstjóra, þau Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, Alma Möller landlæknir, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Bólusetning hefst strax á morgun þar sem byrjað verður á að bólusetja framlínustarfsfólk í heilbrigðisþjónustu og íbúa á hjúkrunarheimilum og öldrunarstofnunum.
Eins og fram kom í máli heilbrigðisráðherra er bóluefni Pfizer enn sem komið er eina bóluefnið sem komið er með markaðsleyfi í Evrópu en fleiri bóluefni eru í augsýn. Samningur Íslands við Pfizer á grundvelli Evrópusamstarfsins tryggir bóluefni fyrir 85.000 manns. Samningur Íslands við Moderna verður undirritaður fyrir áramót. Þess er vænst að lyfið fái markaðsleyfi fyrri hluta janúarmánaðar og í kjölfarið mun áætlun um afhendingu bóluefnisins liggja fyrir. Samningur Íslands um bóluefni Astra Seneca var undirritaður 15. október sl., beðið er eftir markaðsleyfi en fyrirtækið stefnir að því að hefja afhendingu efnisins til Evrópuþjóða á fyrsta fjórðungi næsta árs.
Hér að neðan má sjá myndir frá komu bóluefnisins til Keflavíkur og frá afhendingu þess í höfuðstöðvum Distica.