22% íbúa í Reykjavík eru erlendir ríkisborgarar
Íslenskum ríkisborgurum fækkaði í Reykjavík frá 2014-2023. Öll íbúafjölgun í Reykjavík er því borin uppi af erlendum ríkisborgurum. Íbúum í Reykjavík fjölgaði um 21 þúsund á tímabilinu, eða um 17%. Reykjavík er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu þar sem íslenskum ríkisborgurum fækkaði.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag og þar segir að íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafi verið rúmlega 252 þúsund í byrjun október sl. og hafði þá fjölgað um tæp 42 þúsund frá 2014, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þar af fjölgaði erlendum ríkisborgurum um tæplega 30 þúsund en íslenskum ríkisborgurum um 12 þúsund. Í Garðabæ, Kópavogi og Mosfellsbæ standa íslenskir ríkisborgarar undir meirihluta íbúafjölgunar á því tímabili sem um ræðir.
22% erlendir ríkisborgarar
Um 143 þúsund íbúar voru í Reykjavík í byrjun október sl. Um 31.000 voru erlendir ríkisborgarar, eða um 22% íbúa í borginni. Í íbúum talið hefur fjöldinn nær þrefaldast á umræddu tímabili. Það hefur hann þó líka gert í Kópavogi og í Garðabæ. Um 5.600 íbúar í Kópavogi eru erlendir ríkisborgarar, um 14% íbúa, og um 4.800 í Hafnarfirði, eða um 15% íbúa.
Hlutfallslega hefur mesta fjölgunin meðal erlendra ríkisborgara þó verið í Mosfellsbæ, en þar hefur fjöldi þeirra fimmfaldast. Í íbúum talið er það þó ekki mikið, þar sem um 1.600 íbúa eru erlendir ríkisborgarar en voru aðeins um 350 fyrir níu árum.
Í Hafnarfirði hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað hraðar en íslenskum, en ólíkt Reykjavík hefur íslenskum ríkisborgurum fjölgað á tímabilinu. Hið sama má segja um Seltjarnarnes, þó fjölgunin sé mun minni.
Íbúar í Kópavogi voru um 40.400 í byrjun október, um 31.200 bjuggu í Hafnarfirði og um 19.300 í Garðabæ. Þá bjuggu um 13.700 í Mosfellsbæ og um 4.700 á Seltjarnarnesi.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.