Síðdegis á laugardag barst lögreglunni tilkynning um mann sem æki ölvaður um sprungusvæði við Grímsvötn. Maðurinn var í hópi með öðrum ökumönnum á svæðinu og er grunaður um að hafa ekið ölvaður um sprungusvæðið . Samferðafólk mannsins reyndi án árangurs að fá manninn til að stöðva bifreiðina og óskaði því eftir aðstoð lögreglu við að stöðva akstur mannsins.
Þar sem um langan veg er að fara á vettvang var ákveðið að óska eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar og sérsveitar til að komast á vettvang og hélt þyrlan áleiðis á vettvang frá Reykjavík um klukkan 20:20 með tvo sérsveitarmenn.
Á meðan þyrlan var á leiðinni á vettvang fengust þær upplýsingar af vettvangi að maðurinn hafði skilað sér í skála og að samferðamaður hans hefði tekið við akstri bifreiðarinnar og að hópurinn hefði haldið áfram í Jökulheima.
Þyrlan lenti rétt norðan við Jökulheima um klukkan 21:30 þar sem hópurinn var að koma niður af jöklinum. Hinn ölvaði var handtekinn og fluttur með þyrlu á lögreglustöð.
Í dag hafa svo verið teknar skýrslur af hinum handtekna og vitnum að akstrinum en maðurinn var laus úr haldi lögreglu seinni partinn í dag.
Litið er á málið alvarlegum augum þar sem hættulegt sé að ferðast um jökla og nauðsynlegt að ökumenn séu alsgáðir við aksturinn.