Kafli við Gullinbrú endurgerður og aðrir kaflar skoðaðir
Nýtt malbik verður lagt yfir kafla á Kjalarnesi á milli Grundarhverfis og Hvalfjarðarganga um leið og aðstæður leyfa, á þeim kafla þar sem nýlögn stenst ekki staðla og útboðsskilmála varðandi viðnám. Kaflinn var mældur í morgun og reyndist mun hálli en kröfur eru gerðar um af Vegagerðinni. Sama á við um kafla við Gullinbrú í Reykjavík, sá kafli verður fræstur og endurlagður. Aðrir kaflar sem gætu verið of hálir verða skoðaðir og lagfærðir ef þörf reynist á.
Hraði hefur verið tekinn niður á þessum köflum og verður fylgst með viðnáminu og leyfilegur hraði hækkaður þegar aðstæður leyfa. Þekkt er að nýlagt malbik er hálla í byrjun en jafnar sig nokkuð hratt. Í tilvikum sem hér um ræðir er viðnámið hinsvegar þannig að ekki verður við unað og því er brugðið til þess ráðs að leggja nýtt malbik yfir.
Til framtíðar verður sú regla einnig tekið upp við lagningu malbiks að hraði verður ætíð tekinn niður. Hraðinn verður ekki hækkaður fyrr en viðnámið er ásættanlegt. Svæðið verður skiltað þannig að ekki fari á milli mála að mögulega sé malbik hálla en alla jafna og þá sérstaklega í miklum hita og/eða rigningu.
Vegfarendur eru hvattir til að aka varlega og hafa í huga að næstu daga er spáð miklum hita og skúrum og aðstæður geta því fljótt breyst til hins verra.