,,Að mínu mati er spillingin komin á það stig að forseti eigi að grípa þar inn í, því Alþingi gerir lítið annað en að bítast um spillingarbúta. A.m.k. eru þær tillögur sem ég er með þar að lútandi þannig að allir flokkar ættu að geta tekið undir þær, nema að því leyti sem þeir eru spilltir. Vald forsetans er meira en margir vilja meina, en hann á að sjálfsögðu að beita því mjög varlega.“ Segir Guðni Þór Þrándarson sem hefur ákveðið að bjóða sig fram sem næsti forseti Íslands.
Á vef sínum kynnir hann framboð sitt undir yfirskriftinni ,,Burt með spillinguna! – Guðna Þór á Bessastaði“ og skrifar eftirfarandi kynningu, þar sem hann lýsir fyrir kjósendum þær áherslur sem hann stendur fyrir:
Hver er Guðni Þór?
Ég er 35 ára, hef mikinn áhuga á heimspeki og því sem finnst í heiminum. Lærði náttúrufræði í MR, efnafræði í HÍ, var 1 ár í læknisfræði og er með einkaflugmannspróf. Eftir útskrift kynntist ég Marie Legatelois í fuglarannsóknum á Látrabjargi og hún útskrifaðist með M.Sc. í Haf-og strandsvæðastjórnun frá Háskólasetri Vestfjarða.
Við giftum okkur á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar; Hrafnseyri við Arnarfjörð, árið 2014. Við höfum mest unnið að uppbyggingu framleiðslu nýrrar tegundar af salti sem við teljum að muni hjálpa mörgu fólki.
Fyrir fjórum árum lentum við í áfalli og þurftum að yfirgefa heimili okkar og tilraunavinnslu. Eftir það (og áður) glímdum við við allskonar óréttlæti og ósveigjanleika í kerfinu en erum loks næstum komin í endurhæfingu.
Ljós í þessum erfiðleikum hafa verið börnin okkar, sem eru orðin sjö. Það elsta verður 10 ára í júní og þau hafa stækkað hjarta okkar með sköpun sinni og gleði, hvert á sinn einstaka hátt.
Af hverju vil ég verða forseti? Pólítík snýst um framtíðina og börnin eru framtíðin. Þar sem ég er viss um að með samhentu átaki sé hægt að koma böndum á helstu fyrirstöðu betri framtíðar fyrir börn allra landsmanna; spillinguna; verð ég að reyna að sýna fólki þá aðferð.
Gefa fólki von þegar því finnst það vera valdalaust og byggja brýr milli ólíkra sjónarmiða. Óréttlætið hefur haft afgerandi áhrif á „samfélagssáttmálann“, hann er ekki sá sami í dag og fyrir t.d. 50 árum. Í dag hefur stór hluti af þessum sáttmála þau áhrif að stía fólki í sundur og halda því niðri í blóðugri baráttu um stöður innan spillingarkerfisins. Þess vegna eru það að mörgu leiti tóm orð þegar stórfyrirtæki og ríkisstofnanir tala um að fagna fjölbreytileika; fjölbreytileiki innan ramma niðurnjörfaðs samfélagssáttmála sem margir passa ekki inn í.
Ég forðast alfarið að kenna einstaklingum eða stjórnmálaflokkum um ástandið. Sérstaklega út af því að það er fullt af góðu fólki innan þessa kerfis sem sér vandamálin og nær samt að hjálpa fólki. Ég ætla að tryggja að við höldum vel á okkar auðlindum, náttúru, fullveldi og menningu fyrir framtíðina og stuðla að sem bestum samskiptum við allar þjóðir og leiðtoga þeirra.
Af hverju er svona mikil spilling á Íslandi?
Hvers vegna taka fáieinir bankamenn, útvegsmenn og aðrir til sín ofurhagnað á meðan launin okkar duga rétt svo til framfærslu? Svarið mitt felst í einfaldri sögu sem flestir kannast við. Ég var í sundi og þar voru 7-8 ára drengir að skemmta sér. Leikurinn varð fljótt stórkarlalegur hjá þeim; þeir fóru að taka yfir hluta af lauginni undir fótboltaþrusur. Þeir sögðu öðrum að þeir þyrftu að færa sig svo þeir væru ekki fyrir boltanum. Þá greip ég í taumana, stóð upp og sagði þeim að þeir mættu ekki trufla aðra laugargesti.
Við það stóðu aðrir upp, frekjugangurinn var kveðinn niður og allir gátu haft það notalegt. Þetta held ég að lýsi líka eðli fákeppni, kúgunar og sóunar á Íslandi. Við erum að horfa á freka stráka (og stelpur) sem hafa tekið sér vald yfir hlutum sem við þurfum öll á að halda til að lifa því lífi sem við viljum. Maður þarf yfirnáttúrulegan hroka til að halda því fram að hann eigi einkarétt á fisknum í sjónum eða náttúruöflum Íslands. Pant eiga eldgosin! Spóana! Andrúmsloftið! Stóru strik sögunnar snúast um eign „aðalsmanna“ á landi og þrælkun þeirra sem búa á því.
Með einokun landsgæða og fákeppni markaða, hafa afæturnar í raun klófest líf okkar og frelsi
En nú hafa dólgarnir uppgötvað tæknilegar leiðir til þess að hneppa fólk í þrældóm. Þeir hafa beislað krafta samfélagsins í gegn um lánamarkað, nauðsynjaverslun og nettækni. En er ekkert hægt að gera; lögmál markaðarins ráða? Jú, lausnin er að virkja lýðræðið, alveg eins og þegar stöðva þarf einelti og frekju. Þjóðin er stjórnarskrárgjafi lýðveldisins okkar, og þeir valdhafar sem hún velur hafa einir rétt á að ríkja yfir landinu. Þannig tryggir Ríkisstjórn, í umboði Forseta, jafnan aðgang landsmanna að lífi og frelsi.
Með einokun landsgæða og fákeppni markaða, hafa afæturnar í raun klófest líf okkar og frelsi. Við verðum að standa saman þótt ófrýnilegar séu, því hrægammar eru heiglar þegar á reynir. Endurheimtum erfðaréttinn! Mannréttindin! landið okkar! gjöf Guðs. Við sáum engan taka þennan málstað gegn spillingu svo við ákváðum að undirbúa framboð. Þjóðin hefur ekkert að gera við silfurtungur sem gera ekki annað en að dáleiða okkur.
Hvað getur forseti gert til þess að endurheimta réttlætið?
Hvað getur forseti samt gert til þess að endurheimta réttlætið? Hann hjálpar Ríkisstjórn og Alþingi að ná fram þjóðarviljanum í málum sem hafa afgerandi áhrif á lífsafkomu okkar. Stjórnvöld gætu tamið fákeppni og sóun með öflugasta stjórntækinu: skattlagningu. Skattur sem leiðréttir óréttláta skiptingu auðs var uppgötvaður af Henry George, einum virtasta hagfræðingi sögunnar sem var langt á undan sínum tíma. Fáir hafa heyrt um hann af því aðrar hagfræðihugmyndir henta valdhöfum mikið betur.
Ég mæli eindregið með því að fólk lesi bók hans Progress and poverty (1879), því hún útskýrir vandamál sem við sjáum núna á Íslandi: aukin uppbygging leiðir til meiri misskiptingar. Fyrsta mál George var að horfa á hagfræði síns tíma. Þar var helst að nefna Adam Smith, sem enn í dag er undirstaða hagfræði. En Henry tók eftir alvarlegum rök- og stærðfræðivillum í hornsteinum kenningar hans, sem gerðu það að verkum að hann byggði upp einskonar vúdúhagfræði. Þá hafði hann mikið út á félags-darwinisma og Malthusianisma að setja (sem enn eru mjög áhrifamiklar hugmyndir); því maðurinn er ekki eins og engisprettuplága heldur getur hann sjálfur aukið matarframleiðslu þegar á þarf að halda. George lagði þá nýjan og skýran grunn, með einföldum og algildum skilgreiningum á hugtökum sem aðrir höfðu oft óskýr (og eru enn í dag).
Hann var þó sammála öðrum hagfræðingum um það sem kallað er rentulögmálið: það segir að öll umframverðmæti sem staðsetning skapar (þ.e. á landi) skili sér sem renta til landeigenda. Þetta sá hann sem mikið samfélagsmein, beinlínis þar sem hann óx úr grasi með San Francisco frá litlum smábæ þar sem allir voru álíka vel settir (eins og Ísland fyrir ca. 50 árum); yfir í borg þar sem nokkrir urðu vellauðugir á meðan aðrir urðu allslausir (Ísland í dag). Allt vegna leiguokurs landeigendanna. Lækningin sem hann uppgötvaði var að skattleggja eingöngu leiguvirði lands eða rentu.
Renta er tekin af samfélaginu sem gjald fyrir að nýta tækifæri lands og sjávar, sem samfélagið hefur sjálft gert verðmætt. Renta er þannig í raun fjárkúgun eða einokunarstarfsemi, svo hann taldi einnig nauðsynlegt að afnema einokun á innviðum og mörkuðum. Rentuskattur myndi skila það miklum tekjum að aðrir skattar eins og á laun og nauðsynjavörur (fátækraskattar) væru óþarfir. Þetta er réttlátasti skatturinn því einokunarhagnaður er tekinn af samfélaginu í heild.
Svona skattur eykur skilvirkni, samvinnu, samkennd og framleiðni og hefur átt mikilvægan þátt í uppbyggingu t.d. í Hong Kong. Til að taka af allar áhyggjur bænda, þá væri svona skattur á bújarðir ekki hár; vel innan við helmingur þeirrar skattbyrði sem þeir bera í dag. Einnig ítreka ég að þessar breytingar ættu sér stað í samvinnu við þjóð og þing. Breytt skattalög væru algjörlega fyrirsjáanleg og mikið einfaldari en skattaframkvæmd dagsins í dag, svo engin áhætta væri tekin með því að innleiða nýtt skattkerfi.
Landrentuskattur myndi koma miklu betra lagi á húsnæðismarkaðinn og bæta landnýtingu, því í dag á sér stað gríðarleg sóun á illa nýttum þéttbýlislóðum (t.d. gömul léleg hús sem eru viljandi í niðurníðslu þangað til eigandi sér tækifæri til að rífa þau og byggja hótel þar); þeir sem ættu illa nýttar lóðir þyrftu að borga hátt gjald fyrir að meina öðrum að byggja þar upp. Þetta væri sterkur hvati til að þétta byggð, sem eykur hagkvæmni þegar vel er gert og gæfi húseigendum áhugaverða möguleika eins og að leigja út aukaíbúð án hærri skatta.
En hvað með alla hina einokunina?
Jú, leigulén eru á sama hátt uppspretta spillingar á öðrum mörkuðum. Við þekkjum öll kvótakerfið, en þar væri enn einfaldara að beita lækningu George: Allur kvóti fengi á sig skatt sem nemur nánast öllu leiguverði. (Leiguverð á strandveiðikvóta væri áfram niðurgreitt skv. vilja Alþingis, heildarskattbyrði strandveiða myndi því lækka). Einnig er hægt að finna „leiguverð húsnæðisláns“, með því að spyrja banka hvað borga þurfi þeim fyrir að taka yfir þjónustu láns. Það sama á við um fleiri fákeppnismarkaði; t.d. er hægt að spyrja bensínstöðvar hvað borga þurfi þeim fyrir að taka yfir rekstur einnar bensínstöðvar, samfélagsmiðla hvað þeir vilji leigja auglýsingaþjónustu sína fyrir o.s.frv.
Fyrirtækin gætu ennþá staðið sig vel í rekstri, en einokunarhagnaðinum væri réttilega skilað þangað sem hann var tekinn; til samfélagsins. Nú er rétt að minna á að flestir aðrir skattar væru á sama tíma lagðir niður. Þ.e. skattar á laun, mannvirki, neysluvörur, bíla, báta, verkfæri, hagnað, erfðafé, o.s.frv. Þjóðin og Alþingi ættu að sjálfsögðu að ræða saman til að ákveða hvernig aðrir skattar væru minnkaðir eða aflagðir, en segja þarf skýrt að flestir aðrir skattar en rentuskattar eru skaðlegir samfélaginu og í raun fátækraskattar.
Forseti hlustar og kemur góðum hugmyndum til framkvæmda Sem sameiningartákn tel ég rétt að forseti taki eftir góðum hugmyndum alls staðar að. Þess vegna las ég nýjustu stefnur stjórnmálaflokkana og skráði mig í þá alla.
Ég hef auk þess starfað við „einkennandi“ störf flestra flokkanna, svo hér er listi:
- xB: Bý í sveit og hef starfað fyrir bóndabýli, met íslenska bændur mikils.
- xC: Hef verið frumkvöðull á erlendum mörkuðum, ánægður með að þeir vilji betri nýtingu auðlinda og aukna samkeppni.
- xD: Hef rekið verslun og er hlynntur lægri sköttum á fólk og fyrirtæki.
- xF: Er með örorkumat og finn mikið til með þeim sem minna mega sín.
- xJ: Hef unnið við hótelþrif og er að töluverðu leyti sammála þeim um slæm áhrif auðvalds.
- xM: Hef gengt ýmsum iðnaðarmannastörfum í viðhaldi og breytingum eigin húsnæðis og bifreiða. Opinn fyrir hugmynd þeirra um að leyfa olíuleit við Ísland.
- xP: Hef forritað vefsíður, ágætur tölvugrúskari. Ánægður með hugmyndir þeirra um beint lýðræði og gegnsæi í stjórnkerfinu.
- xS: Hef starfað á frístundaheimili. Góðir talsmenn jafnra tækifæra.
- xV: Hef unnið ýmis vísindastörf. Endurskoðun skipulags og áhættumats vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga er nauðsyn.
Allir flokkar eru með ýmsar fleiri góðar hugmyndir, sem margar væri vel hægt að framkvæma öllum til framdráttar.
Að lokum: Viljum við vera þrælar á plantekru fákeppninnar, eða viljum við FRELSI? Viljum við trúa galdralæknum elítunnar, eða viljum við SANNLEIKANN? Viljum við að aðalsstéttirnar gleypi öll auðæfi LANDSINS OKKAR, eða viljum við RÉTTLÆTI?
Vinsamlegast skrifaðu undir meðmælalistann! (veljið Guðni Þór Þrándarson): https://island.is/forsetaframbod
Með kærum þökkum, Guðni Þór Þrándarson og Marie Legatelois, gthrandarson@gmail.com 7900790