Láglaunafólk hefur eignast nýjan leiðtoga
Láglaunafólk á Íslandi hefur eignast nýjan leiðtoga þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir, nýkjörinn formaður verkalýðsfélagsins Eflingar er.
Þetta kom skýrt í ljós í samtali Helga Seljan við Sólveigu Önnu í Vikulokum RÚV í fyrradag.
Hún setti mál sitt fram á skýran en hófsaman hátt og gerir sér raunsæja grein fyrir því verkefni, sem hún hefur tekið að sér.
Sólveig Anna telur að láglaunafólk hafi ekki notið góðs af miklum uppgangi fyrir hrun og að það sama sé að gerast í velgengni líðandi stundar. Hún er að segja: Hingað og ekki lengra. Sólveig Anna Jónsdóttir
Hin hefðbundna verkalýðsforysta er í vörn eins og sjá má af samtali Morgunblaðsins í dag við Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ. Það er þó ekki alveg sanngjarnt vegna þess að auðvitað hefur Gylfi rétt fyrir sér í því, að láglaunafólk hefur verið betur statt frá og með þjóðarsáttarsamningum 1990 en fyrir þá.
Sú ólga sem er meðal launafólks vegna ákvarðana Kjararáðs um launahækkanir til handa æðstu embættismönnum, þingmönnum og ráðherrum, sem eru algerlega út úr kortinu, er ekki sök verkalýðshreyfingarinnar heldur sameiginlegt verk þingmanna í öllum flokkum utan Pírata.
Hins vegar er málið flóknara, þegar kemur að launahækkunum æðstu stjórnenda skráðra fyrirtækja, sem líka eru úr öllu sambandi við íslenzkan veruleika. Ástæðan er sú að vegna eignaraðildar lífeyrissjóðanna að þessum fyrirtækjum hefði verkalýðshreyfingin ýmist getað komið í veg fyrir þá þróun eða gert ágreining um hana en hefur hvorugt gert.
En athyglisvert er að nýr formaður Samtaka atvinnulífsins gerir sér skýra grein fyrir þessum veikleika í málefnastöðu samtakanna.
Snemma á þessu ári gaf forsætisráðherra ítrekað yfirlýsingar um að ríkisstjórnin mundi leggja fyrir Alþingi í vor frumvarp um breytingar á þeim málum, sem hafa snúið að Kjararáði. Það hefur aldrei verið skýrt í hennar máli, hvort í því fælist að ríkisstjórnin mundi leggja til frystingu hinna umdeildu launakjara, en verkalýðshreyfingin hefur krafizt þess að þær hækkanir verði dregnar til baka.
Síðustu daga hefur forsætisráðherra, án skýringa, sagt að þessar tillögur mundu koma fram í haust.
Er ekki sjálfsagt í ljósi þess gagnsæis, sem allir flokkar boða, að upplýst verði hvað valdi þessari frestun? Segir Styrmir Gunnarsson f.v. ritstj. Morgunblaðsins í pistli sínum