Nálægt fjörutíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina
Grófasta brotið var framið á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, við Hvassahraun, en þar mældist bifreið á 185 km hraða. Ökumaðurinn, karlmaður á fertugsaldri, var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða, en hann á yfir höfði sér ákæru fyrir þennan ofsaakstur.
Fimm til viðbótar voru sviptir ökuréttindum til bráðabirgða vegna hraðaksturs annars staðar í umdæminu, en ökumennirnir sem komu við sögu lögreglunnar í hraðakstursmálum helgarinnar eru á öllum aldri.
Sá yngsti er 17 ára og nýkominn með bílpróf en sá elsti er á áttræðisaldri. Að venju voru líka margir teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur um helgina, eða tuttugu og fimm.