Fréttin sem við birtum í gær um Guðlaug Þór og þá hagsmuni sem ráðherrahjónin eiga af því að Hólmsárvirkjun verði að veruleika, olli miklum usla. Strax í gærkvöld var hún orðin ein mest lesna fréttin á Íslandi og hver fylgdarsveinn ráðherra hefur síðan sprottið fram og hrópað úlfur úlfur og borið fyrir sig að um rangfærslur sé að ræða í fréttinni.
Þó hefur enginn þeirra getað bent á þessar meintu rangfærslur enda er fréttin bæði rétt og studd heimildum sem eru birtar með fréttinni. Því sá aukni þrýstingur á virkjanir sem fylgir innleiðingu þriðja orkupakka ESB mun vissulega auka líkurnar á Hólmsárvirkjun og þeim hagnaði sem ráðherrahjónin mega vænta af henni.
Fréttablaðið var einn af þátttakendunum í að halda uppi klúðurslegri vörn fyrir utanríkisráðherra og Ágústu Þóru Johnson, frú hans, en það er þó engin furða enda er eigandi blaðsins, Helgi Magnússon, meðstjórnandi í Hreyfingu. Hreyfingu Eignarhaldsfélagi og Hreyfingu-Fasteignum sem eru vissulega öll í eigu konu ráðherra. Til viðbótar við það, sitja þau saman í stjórn Bláa Lónsins. Þarna er því um gamalgróinn viðskiptafélaga hennar að ræða sem knýr áfram upphrópin við hlið leiðara blaðsins í dag og reynir þar að kasta rýrð á annars réttar upplýsingar.
Það er þó annað en viðskiptatengsl Helga Magnússonar við Guðlaug og frú sem er merkilegt og það er þátttaka hans í framboði Guðna Th. Jóhannessonar til forseta Íslands. Helgi er nefnilega ekki bara hjálparkokkur Guðlaugs heldur er hann jafnframt einn af aðalstyrkjendum forsetans bæði persónulega og í gegnum félög í sinni eigu.
Kanónurnar í Sjálfstæðisflokknum hafa greinilega séð einhvern hag í að styðja Guðna til framboðs því það er ekki bara viðskiptafélagi ráðherrahjónanna sem studdi hann heldur var Friðjón R. Friðjónsson, miðstjórnarmaður úr flokknum og aðalráðgjafi Bjarna Ben og flokksins, kosningastjóri forsetans og einn af styrktaraðilum hans í gegnum fyrirtæki sitt KOM.
Þess má til gamans geta að hann og fyrirtæki hans sinna erindrekstri fyrir Atlantic Superconnection, sæstrengsfyrirtæki Edmund Truell, sem skv. Financial News hefur þegar uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru fyrir því að leggja sæstreng samkvæmt íslenskum lögum. Það eina sem vantar upp á er grænt ljós frá Bretum en Ísland og ríkisstjórnin okkar er sem sagt engin fyrirstaða, ólíkt því sem ríkisstjórnin hefur haldið fram í umræðum um orkupakkann.
Allt er þegar þrennt er en þriðji Sjálfstæðismaðurinn og frændi Bjarna Benediktssonar, Einar Sveinsson, studdi Guðna einnig í sitt framboð persónulega sem og í gegnum fyrirtæki í sinni eigu. Guðni er því studdur í bak og fyrir af forsvarsmönnum Sjálfstæðisflokksins og forsprökkum orkupakkans. Því er ef til vill ekki óeðlilegt að spyrja, er forseti hæfur til að skrifa undir lög um orkupakkann?
https://gamli.frettatiminn.is/2019/08/29/skilar-orkupakki-3-625-milljonum-i-vasa-utanrikisradherra/