Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.
Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 18. – 24. ágúst, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 18. ágúst. Kl. 15.48 varð tveggja bíla árekstur í Rofabæ í Reykjavík. Annarri bifreiðinni var ekið frá Rofabæ og inn á bifreiðastæði við Árbæjarkirkju þegar hinni var bakkað þar út úr stæði svo árekstur varð með þeim. Farþegi var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.05 var bifreið ekið norður Sæbraut í Reykjavík, að gatnamótum Kleppsmýrarvegar og Skeiðarvogs, og aftan á aðra bifreið sem var að stöðva vegna þess að rautt umferðarljós hafði kviknað fyrir akstursstefnu hennar. Tjónvaldurinn ók af vettvangi, en bifreið hans fannst síðar og er vitað hver ökumaðurinn er. Ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þríðjudaginn 20. ágúst. Kl. 10.34 var bifreið ekið vestur Suðurlandsveg í Reykjavík, á móts við Olís, þegar vörubifreið var á sama tíma ekið frá hvíldarplani, sem þarna er norðanmegin, og inn á veginn svo árekstur varð með þeim. Við áreksturinn klemmdist fólksbifreiðin á milli vörubifreiðarinnar og vegriðs, sem aðskilur akstursleiðir. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.27 rákust saman tvö reiðhjól á göngu- og hjólastíg við undirgöng að Rauðavatni í Reykjavík, en þeim var hjólað úr gagnstæðri átt. Báðir hjólreiðamennirnir voru fluttir á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 21. ágúst. Kl. 9.58 var rafmagnshlaupahjóli ekið austur á hjólastíg meðfram Bústaðavegi í Reykjavík, austan Kringlumýrarbrautar, og á gangandi vegfaranda. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 15.13 var bifreið ekið suður Snorrabraut í Reykjavík, að gatnamótum við Flókagötu, og aftan á aðra bifreið, sem hafði snögghemlað. Ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á, var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.11 var bifreið bakkað á gangandi vegfaranda framan við anddyri á fyrstu hæð norðanmegin í Smáralind í Kópavogi. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 24. ágúst. Kl. 15.28 árekstur bifreiðar og rafmagnshlaupahjóls á gatnamótum Bústaðavegar og Suðurhlíðar í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið vestur Bústaðaveg, en við gatnamótin beygði ökumaður hennar til norðurs (akstursleið að Veðurstofu Íslands) þegar ökumaður rafmagnshlaupahjólsins ætlaði að þvera veginn á sama stað svo árekstur varð með þeim. Ökumaður rafmagnshlaupahjólsins var fluttur á slysadeild, en hann er mikið slasaður. Og kl. 17.58 var bifreið ekið um Lækjargötu í Hafnarfirði og aftan á aðra bifreið, sem við það kastaðist áfram á þriðju bifreiðina. Í aðdragandanum hafði ökumaður öftustu bifreiðarinnar blindast af sólinni og því fór sem fór. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.