Þriggja ára bið er fangavist í sjálfu sér
Afstaða fagnar því að dómsmálaráðherra hefur brugðist við ástandi á fangelsismálum og hinum löngu biðlistum með því að náða þá sem hafa beðið lengi eftir afplánun. Um er að ræða einstaklinga sem hafa verið á boðunarlista lengur en í þrjú ár. Afstaða harmar það hins vegar að ráðherra og starfshópur sá sem skipaður hefur verið um málið ætli sér að mismuna dæmdum mönnum á grundvelli brotaflokka. Ráðherra og umræddur starfshópur ætla þannig að fella eigin dóm um það hvaða afbrot eða afbrotamenn eiga möguleika á náðun og hverjir ekki. Matið verður þar með huglægt og líklega ómálefnalegt.
Hafi einstaklingar á annað borð beðið afplánunar lengur en í þrjú ár má ætla að það hafi ekki verið knýjandi þörf til þess að hneppa þá í fangelsi. En hin rúmlega þriggja ára bið er þó fangavist í sjálfu sér þar sem viðkomandi getur ekki undirbúið framtíð sína eða tekist á hendur skuldbindingar í hinum samfélagslega lífi. Brotaflokkur hefur ekkert með það að gera. Færa má rök fyrir því að minni hætta sé á því að veita einstaklingum með alvarlegra brot náðun er einstaklingum í örðum brotaflokkum.
Náðun í þessu tilliti skyldi byggja á hagsmunum almennings jafnt sem hagsmunum sakamanna. Hún skyldi ekki byggja á ótta fangelsisyfirvalda við að beita dæmda menn jafnræði óháð brotaflokkum. Sömu sjónarmið eiga við um reynslulausn. Afstaða þekkir ekkert ríki sem mismunar dæmdum mönnum og föngum með þeim hætti sem gert er á Íslandi þegar kemur að losun úr fangavist. Brotaflokkur ræður ekki ferðinni á hinum Norðurlöndunum. Reyndar hefur Mannréttindadómstóll Evrópu hafnað því að ómálefnaleg sjónarmið á við þyngd refsingar geti komið til skoðunar við ákvörðun um losunartíma.
Það er löngu tímabært að íslensk fangelsisyfirvöld byggi losun úr fangelsum eð niðurfellingu fangavistar á raunverulegu mati á því hversu örugg og farsæl sú losun getur orðið. Því er grundvallarskilyrði að byggja á áhættumati í hverju tilviki og líkum á því að viðkomandi valdi samfélaginu skaða á ný.
F.h. Afstöðu, félags fanga á Íslandi, Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður