Athugun Eflingar á launatöflum í nýjum kjarasamningum félaga innan BHM leiðir í ljós að ríkið hefur þegar veitt hálaunahópum prósentuhækkanir launa langt umfram hina flötu krónutöluhækkun í svokölluðum Lífskjarasamningi.
Í texta 2. greinar umræddra samninga BHM-félaga er gefið til kynna að hækkanir á samningstímanum séu þær sömu og í Lífskjarasamningnum eða samtals 68 þúsund krónur.
Verulegar umframhækkanir hæstu launa koma hins vegar í ljós þegar launatöflur í fylgiskjölum eru bornar saman. Ekki er minnst á þessar hækkanir í samningstexta.
Umframhækkanir hærra launaðra starfsmanna samkvæmt launatöflum umræddra BHM-félaga ná til mánaðarlauna sem voru á bilinu 570 til 885 þúsund krónur fyrir undirritun samnings. Hækkanir launa á þessu bili ganga mikla lengra en hin umsamda flata krónutöluhækkun Lífskjarasamningsins upp á 68 þúsund krónur og eru þegar hæst lætur vel á annað hundruð þúsund krónur.
Í tilfelli launaflokks 22 hjá BHM er um að ræða heildarhækkun upp á 110.765 kr. en það er 42.765 kr. umfram flata krónutöluhækkun Lífskjarasamningsins.
Samanburður á launatöflunum sýnir að hækkanirnar virðast hafa verið stilltar af þannig að hærra launaðir hópar fái aldrei minna en 12,5% heildarhækkun launa á tímabilinu.
Ríkið hefur því umbreytt flötum krónutöluhækkunum Lífskjarasamningsins á almennum vinnumarkaði í prósentuhækkanir fyrir hærra launaða ríkisstarfsmenn.
Enn fremur eru í launatöflum BHM félaganna nýir og hærri launaflokkar þar sem hæstu grunnlaun fara yfir 1.270 þúsund. Svo virðist sem þeir flokkar muni einnig taka prósentuhækkunum umfram Lífskjarasamninginn.
BHM félagi í launaflokki 22 fær þegar upp er staðið um 63% hærri krónutöluhækkun á samningstímanum en launamaður á almennum vinnumarkaði sem starfar ofan við taxta og tekur kjör eftir kjarasamningum Eflingar eða VR.
Athuganir Eflingar á kjarasamningum BHM félaganna sýna þannig að Ríkið hefur þegar samið við hálaunahópa á íslenskum vinnumarkaði um launahækkanir umfram Lífskjarasamninginn.
Upphæðir þessara umframhækkana eru sambærilegar við launaleiðréttingu sem Efling hefur farið fram á fyrir hönd láglaunafólks hjá Reykjavíkurborg.
Tillögur Eflingar um launaleiðréttingu borgarstarfsmanna á lægstu launum hafa verið gagnrýndar harðlega af Samtökum atvinnulífsins fyrir að vera ekki í samræmi við flatar krónutöluhækkanir hins svokallaða Lífskjarasamnings. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur rætt um Lífskjarasamninginn sem ófrávíkjanlegan ramma kjarasamningsgerðar og með þeim rökum hafnað tillögum Eflingar um sérstaka leiðréttingu lægstu launa.
Sjá nánar:
Kjarasamningur Félags íslenskra félagsvísindamanna, Fræðagarðs, Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga og Stéttarfélags lögfræðinga við Ríkið: https://www.stett.is/static/files/Launatoflur/kjarasamningur-fif-frg-sbu-og-sl-vid-rikid_2019.pdf
BHM hækkanir samantekt á hækkunum í BHM samningi
Umfjöllun Spegilsins á RÚV frá 22. október 2019 um kjarasamninga BHM félaga undir fyrirsögninni „Sömu launahækkanir og í Lífskjarasamningi“.