Óvenjulegar aðstæður en tilefni til að bæta viðbragð
Niðurstöður starfshóps vegna lokunar Reykjanesbrautar
Ljóst er að ekki hefði verið unnt að koma í veg fyrir lokun Reykjanesbrautar dagana 19. og 20. desember sl., að mati starfshóps sem falið var að vinna viðbragðsáætlun vegna lokunarinnar. Meðal mögulegra lausna til að stytta þann tíma sem lokað var má nefna fleiri tiltækar vinnuvélar til viðbótar við hefðbundin snjómoksturstæki Vegagerðarinnar. Þannig hefði t.d. mögulega mátt losa fasta bíla af meiri snerpu.
Skýrsla starfshópsins hefur verið bort á vef innviðaráðuneytisins.
Skýrslan.
Innviðaráðherra skipaði hópinn sem ætlað er að koma með tillögur um hvernig bregðast skuli við, komi upp sambærilegar aðstæður á ný. Í umræddu tilviki var flugvöllurinn að mestu opinn og flugvélar gátu lent og tekið á loft. Fordæmalausar veðuraðstæður voru á svæðinu og afar sérstakar. Veður hafði verið óhagstætt lengi, mikill og laus snjór auk vindáttar, sem leiddi til þráláts skafrennings og blindu. Þannig lagðist allt á á eitt um að gera aðstæður á Reykjanesbraut sem örðugastar og leiddi til svona óvenjulega langrar lokunar.
Nauðsyn að efla og samhæfa miðlun upplýsinga
Vegagerðin tók þátt í vinnu starfshópsins og skrifar undir niðurstöður hans jafnframt því sem atburðurinn hefur verið rýndur innanhúss. Þeirri vinnu verður haldið áfram næstu vikur og verklagi breytt í kjölfarið eða skerpt á núgildandi verklagi eftir þörfum.
Þannig hefur Vegagerðin fyrir sitt leyti farið í ítarlegri greiningu á því sem betur hefði mátt fara samkvæmt niðurstöðu hópsins en þær umbætur tengjast m.a. örari upplýsingagjöf frá vaktstöð Vegagerðarinnar. Vert er að taka fram að mikið og víðtækt álag var á starfsemi vaktstöðvarinnar á umræddum tíma þar sem því fór fjarri að veðurtengdar áskoranir þessa sólarhringa tengdust einvörðungu Reykjanesi.
Upplýsingagjöf og samhæfing upplýsinga er lykilviðfangsefni í aðstæðum líkum þeim sem gerðust á Reykjanesbraut. Starfshópurinn gerir athugasemdir við upplýsingagjöf til innri aðila, samstarfsaðila Vegagerðarinnar, sem og til almennings. Nefna má að um er að ræða upplýsingar sem koma víða að, frá mörgum aðilum, auk þess sem um er að ræða flókna atburðarás og mikinn hraða.
Rýni starfshópsins nýtist Vegagerðinni og samstarfsaðilum vel til þess að straumlínulaga upplýsingagjöf varðandi veður og færð á þjóðvegum þótt auðvitað geti jafnframt verið ástæða til þess að miðla upplýsingum af öðrum toga varðandi atburð sem þennan.
Veghald verður að vera skýrt við erfiðar aðstæður
Fyrir liggur að skýra þarf betur hver fer með veghald hverju sinni í aðstæðum sem þessum þegar samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð hefur verið opnuð. Veghald merkir forræði yfir vegi og samkvæmt lögum er Vegagerðin veghaldari þjóðvega á Íslandi.
Starfshópurinn kemst að eftirfarandi niðurstöðu „Að mati starfshópsins er skýrt hvar ábyrgð á og vald til ákvarðanatöku um opnun og lokun Reykjanesbrautar liggur. Vegagerðin sem veghaldari er ein bær til að taka slíkar ákvarðanir. Lögreglu er þó heimilt að taka í sínar hendur umferðastjórn, takmarka eða banna umferð um veg, telji hún það nauðsynlegt vegna aðstæðna. Að mati Vegagerðarinnar var það skýrt hver bar ábyrgð á ákvarðanatöku um lokun vegareins en ekki nægilega skýrt hvenær heimilt væri að opna veginn að nýju eftir að lögregla tók ákvörðun um lokun.“ Vegagerðin tekur undir tillögu starfshópsins um að settir verði saman skýrir verkferlar um ákvarðanatöku vegna lokana og opnana vega.
Skerpa á samráði
Þessa daga komu upp einstaklega fólknar og fordæmislausar aðstæður varðandi veður og færð. Þarna reyndi sem aldrei fyrr á samstarf og samvirkni Vegagerðarinnar, lögregluembætta, almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra og stjórnenda samhæfingarstöðvarinnar í Skógarhlíð. Þar með jókst mjög álag á verkferla sem augljóst er að skerpa þarf í kjölfarið. Samráðvettvangurinn og vinna starfshópsins hefur reynst afar vel til þess að fara yfir þetta samspil og greina hvar unnt er að bæta það. Í heildina verður af þessu öllu dreginn mikill lærdómur sem mun speglast í breyttum verkferlum og bættri samhæfingu í framtíðinni. Vert er jafnframt að halda því til haga að árangursrík viðbrögð hljóta alltaf að miðast við hvað er í mannlegu valdi og hvað ekki. Vonskuveðri og fannfergi verður ekki stjórnað.