Há verðbólga í janúar veldur miklum vonbrigðum segir hagfræðingur ASÍ. Hann segir stjórnvöld að hluta til kynda undir verðbólguna með hækkun skatta og opinberra gjalda að því er fram kemur í frétt ríkisútvarpsins.
Verðbólgan í janúar mælist rétt tæp tíu prósent og er þar með að toppa árið í fyrra með jafnhárri verðbólgu og í júlí. Það sem er óvenjulegt er að þetta er í janúar en í venjulegu árferði draga janúarútsölur úr verðbólgu. Svo virðist nú sem enginn einn liður drífi verðbólguna áfram í vísitölu, sagði sérfræðingur Hagstofunnar í fréttum í gær heldur sé um að ræða hækkun heilt yfir í mörgum flokkum, segir í jafnframt í fréttinni.
Stjórnvöld voru vöruð við
Róbert Farestveit er hagfræðingur Alþýðusambands Íslands, hann segir verðbólguna nú fyrst og fremst vegna hækkunar skatta og opinberra gjalda. „Við höfum auðvitað áhyggjur af þessu í ljósi þess að það var varað við þessu þegar fjárlagafrumvarpið var í vinnslu að þessar hækkanir á gjöldum og krónutölum væru illa tímasettar og kæmu núna fram þegar verðbólga væri há og slíkar hækkanir eru verri á tímum þegar verðbólga er há“ segir Róbert Farestveit. Hann segir að flestir hafi bent á að heppilegra hefði verið að fara aðrar leiðir við tekjuöflun þegar fjárlagafrumvarpið hafi verið í vinnslu og því valdi svo háar tölur nú miklum vonbrigðum. Hið opinbera sé að hluta til að kynda undir verðbólguna með opinberum hækkunum sem ýti undir verðbólguna.
Flest bendir til að verðbólgan hjaðni á ný
Róbert segir að stjórnvöld þurfi að nýta aðrar leiðir til tekjuöflunar eins og til dæmis með skattlagningu sem ekki komi beint fram í neysluverði, með hækkun á fjármagnstekjuskatti til dæmis. Verðlagshorfur séu enn þokkalegar þannig að allt bendi til þess að verðbólgan hjaðni á þessu ári.