,,Íslendingar eru svo heimskir!“ ,,Nei þeir eru ekki heimskir.“

Eilífðarstúdent
Ég var að spjalla við fólk um daginn um komandi kosningar og fólki varð ansi heitt í hamsi og meðal annars kom frá einum:
,,Íslendingar eru svo heimskir! Þeir kjósa alltaf Sjálfstæðisflokkinn eða annan lygaflokk og grenja síðan um það í fjögur ár því ekkert af loforðum stjórnmálamanna voru sönn. Svo gera þeir það aftur og aftur.“
Þessi einstaklingur býr í foreldrahúsum eins og svo margir því bankakerfið vill ekki hjálpa honum þó hann eigi fyrir útborgun. En hann er öryrki og því má reikna með að það sé ástæðan, fordómar.
Ég svaraði einfaldlega að þetta væri rangt. Málið er að stjórnmálamenn eins og Bjarni Ben eru bókstaflega æfðir, mjög vel æfðir í því að selja þér harðfisk og komast upp með það þegar þú sèrstaklega pantaðir súkkulaði köku.
Við erum ekki heimsk. Við erum plötuð aftur og aftur af heimsklassa sálfræðingum sem segja þér það sem þú vilt heyra og þessir sálfræðingar kallast stjórnmálamenn.
Selja þér hvað sem þú vilt og þú trúir því 100%
Það má líkja stjórnmálamanni við sjónhverfingarmann þó það sé fyndin líking en hún er mjög nákvæm og sönn.
Stjórnmálamenn eins og Bjarni Ben og margir aðrir hafa verið æfðir allt sitt líf í að selja þér hvað sem þú vilt og þú trúir því 100% að þú fáir það þegar það eru bara innantóm orð og lygar. Og þeir gera það brosandi.
Hugsaðu bara málið aðeins og farðu bara yfir tvö síðustu kjörtímabil ef þú manst þau og aðaláherslurnar og loforðin. Hefur eitthvað breyst til hins betra? Skoðaðu málið með sjálfri/sjálfum þér.
Hvert kjörtímabil er fjögur ár og margt gerist á þessum árum bæði í stjórnmálunum sjálfum og okkar einkalífi.
Og við nýjar kosningar viljum við svo rosalega mikið trúa að NÚNA sé loksins komin tíminn fyrir góðar breytingar sem gerir líf okkar betra sama hvar við stöndum í stjórnmálum sem einstaklingar að við gleypum við hverju orði stjórnmálamanna sem eru meistarar í að bulla í okkur og blekkja til að komast á alþingi.
Þeir eru æfðir mjög vel fyrir kappræður í því að koma sér undan spurningum með mörgum hætti, fara í kringum þær og láta okkur trúa aftur og aftur að núna gerist það. Að núna sé kominn tími sem breytingar verða á heilbrigðiskerfinu og sköttum svo eitthvað sé nefnt og öllu öðru sem skiptir okkur máli í daglegu lífi
Stjórnmálamenn eru betri en sálfræðingar. Þeir geta látið þig bæði efast og trúa hverju sem er ef þú ert ekki meðvitaðir eða meðvituð um þetta.
Bjarni Ben er snillingur í því að selja þér bull og láta þig trúa því.
Alveg eins og með Katrínu Jakobsdóttur fyrrverandi forsætisráðherra. Ég dáði hana í mörg ár. Hún kom fyrir svo einlæg, trú sjálfri sér, með sterka traust tilfinningu sem maður fékk frá henni og kom bara fyrir sem mjög einlæg manneskja í fjölmiðlum sem vildi breytingar fyrir alla til góðs. Við vitum öll hvernig það fór.
Hún kom með mörg loforð um hitt og þetta aftur og aftur en ekkert breyttist. Samt kaus ég VG aftur og aftur. Bara því ég var alinn upp sem vinstri maður og trúði á flokkinn.
Það var ekki fyrr en ég fór að eldast og þroskast að ég virkilega skoðaði loforðin, karakter hvers stjórnmálamanns og skoðaði söguna okkar. Sérstaklega þegar kemur að Sjálfstæðisflokknum og hvernig hann virkar og fær oftast góða eða ágæta kosningu.
Ég er búin að sjá mín mistök í kosningum en í dag er einn flokkur og ein kona sem ég ber ótakmarkaða virðingu fyrir og það er Inga Sæland og Flokkur fólksins. Inga Sæland kemur nákvæmlega fyrir eins og hún er klædd og allir sjá það og skynja.
Ég vona að sem flestir noti rétt sinn og kjósi. Fylgi sinni innri sannfæringu því ég er ekki að segja ykkur hvað þið eigið að kjósa. Ég er að segja ykkur frá minni reynslu og sannleikann sem èg hef upplifað og veit um stjórnmálamenn og brotnu loforðin og er að vonast til þess að ég nái til yngri kynslóðinnar og að hún noti sinn rétt og kjósi.
Stjórnmálamenn eru snillingar í að rugla í hausnum á okkur
Og þó það væri ekki nema að horfa á einar kappræður og sjá virkilega hvað ég er að reyna að benda hér á.
Við erum ekki heimsk. Við erum plötuð aftur og aftur af heimsklassa sálfræðingum og lygurum sem segja þér það sem þú vilt heyra og þessir sálfræðingar eru stjórnmálamenn.
Það má í raun frá mínu sjónarhorni líkja þessu við dáleiðslu. Ef við erum að kjósa sama flokkinn aftur og aftur vegna loforða sem við trúum á en þau gerast aldrei, eru aldrei uppfyllt, er þá ekki eitthvað að? Ég spyr bara?
Og afhverju kjósum við þá flokkinn aftur?
Stjórnmálamenn eru snillingar í að rugla í hausnum á okkur og margir þeirra eru fæddir inn í fjölskyldur þar sem þeim var kennt frá unga aldri hvernig á að vera farsæll stjórnmálamaður og komast í ráðherrastól og verða valdamikill.
Þegar maður áttar sig á þessu, þá meina ég virkilega áttar sig á þessu getur maður ekki annað en hlegið smá og ég fæ oft upp í hugann þegar Bjarni Ben var tekinn upp við að gera köku heima hjá sér til að sýna ákveðin fjölskyldugildi fyrir kosningar. Það var reyndar mjög snjallt hjá honum að gera ef þið skiljið hvað ég er að benda á.
Stjórnmálamenn eru leikarar að mörgu leyti. Flest sem þeir segja er bara ekki satt eða einhvernveginn snúið við, sett í rangt samhengi og já, ég veit þið skiljið mig.
Þeir skjótast undan svörum og lifa í stjórmálaklíku.
Eini flokkurinn sem ég treysti í dag er Flokkur Fólksins.
Inga Sæland fæddist ekki með gullskeið í munninum eins og Bjarni Ben og fleiri.
Inga Sæland er ein af okkur og þess vegna raunverulega berst hún fyrir okkur með blóði, svita og tárum.
Ég hef aldrei held ég verið svona ástríðufullur eins og ég er í dag varðandi kosningar. Ástæðan fyrir því er sú að nú er einfaldlega komið nóg. Við þurfum raunverulegar breytingar og helst í gær.
Ekki brotin loforð allsstaðar heldur raunverulegar breytingar sem gera líf okkar betra. Ekki bara ríka fólksins.
Við þurfum málsvara sem fer til helvítis og til baka til að koma af stað góðum breytingum fyrir land og þjóð.
Og ef einhver hefur fylgst með Ingu Sæland þá veit sú manneskja að hún og Flokkur fólksins er sá sem við ættum að kjósa ef við viljum breytingar. Það er allavega mitt álit.
Látum ekki plata okkur endalaust með sálfræðilegu stjórnmálabulli
Gefum Flokki Fólksins tækifæri. Gefum Ingu Sæland tækifæri. Við höfum engu að tapa.
Bara ALLT að VINNA.
Ef ég má spyrja þig lesandi góður?
Hvað ertu að borga í leigu á mánuði eða af fasteignalánunum þínum?
Hvað finnst þér um matar og bensínverð á Íslandi í dag? Kemstu í gegnum mánuðinn?
Kemstu í gegnum mánuðinn fjárhagslega?
Færðu bílalán?
Færðu fasteignalán?
Býrðu í foreldrahúsum því bankinn vill ekki hjálpa þér þó þú eigir nóg fyrir útborgun?
Hugsaðu aðeins áður en þú ákveður hvaða flokk þú ætlar að kjósa. Gefðu þér tíma.
ÞVÍ ÖLL FRAMTÍÐ ÞÍN ER Á ÞESSUM KJÖRSEÐLI.
Ég kýs allavega Flokk Fólksins en ég veit ekki með þig.