Vaxandi þungi er í opinberri umræðu um kjaraviðræður sem framundan eru á almennum og opinberum vinnumarkaði. Við blasir að 243 samningar verða lausir frá áramótum fram á mitt ár 2019. Samningar á almennum markaði – á milli ASÍ og SA – eru lausir um áramótin en 31. mars nk. losna 152 samningar hjá ríki og sveitarfélögum. Stéttarfélög innan Bandalags háskólamanna (BHM) vinna nú að kröfugerð sinni og er undirbúningur fyrir samningtörn vorsins vel á veg kominn. Okkar bíður að eiga viðræður við þrjá viðsemjendur samtímis; ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga. 30% launafólks hjá ríkinu er í stéttarfélagi innan BHM en 14% hjá sveitarfélögum.
Millitekjuhópurinn má ekki gleymast
Frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum hefur verið haft reglulegt samráð við aðila vinnumarkaðarins. Mikilvæg mál hafa verið sett á dagskrá, s.s. staða efnahagsmála, kjararáð, launatölfræði, þjóðhagsráð og nú síðast framboðsvandi á húsnæðismarkaði. Ljóst má vera að beinar og óbeinar kröfur heildarsamtaka launafólks til stjórnvalda eru umtalsverðar í aðdraganda kjarasamninga.
Í kjarasamningum við ríkið í febrúar á þessu ári voru lægstu laun innan BHM hækkuð í 417.000 kr. Það vill gleymast hversu margir á vinnumarkaði þiggja heildarlaun sem liggja á bilinu 400 til 600 þúsund krónur. Í umræðunni um mannsæmandi kjör er ekki nóg að einblína á muninn á milli hæstu og lægstu tekjutíundarinnar í samfélaginu. Það þarf einnig að skoða stöðu millitekjufólks, alls þorra almennings. Heildarmyndin skiptir máli og sú staðreynd að ráðstöfunartekjur launafólks verða aldrei metnar án tillits til skattbyrði og þess stuðnings sem ríkið veitir í velferðarkerfunum. Þessir þættir þurfa að vinna saman og þess vegna m.a. er nú horft til frumkvæðis stjórnvalda í húsnæðis- og skattamálum.
Endurgreiðslubyrði námslána
Enginn deilir um mikilvægi menntunar fyrir hagsæld og góð lífskjör þjóðarinnar til framtíðar. Dýpra virðist á því að viðurkennt sé að einstaklingurinn þurfi einnig að njóta ábatans af því að sækja sér háskólamenntun. Ávinningurinn af því að afla sér háskólamenntunar er einfaldlega of lítill á Íslandi og minni en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þessi staðreynd hefur margvíslegar neikvæðar afleiðingar. Fyrstan má nefnda nýliðunarvanda í stéttum sem gegna lykilhlutverki í heilbrigðis- og menntakerfi landsins. Í öðru lagi ýtir þessi staða undir atgervisflótta. Í þriðja lagi leggst endurgreiðslubyrði námslána þungt á einstaklinga og fjölskyldur. Í dag greiða margir háskólamenntaðir fjárhæð sem samsvarar ráðstöfunartekjum eins mánaðar í árlegar afborganir námslána.
BHM hefur vakið athygli á byrði „tólfta mánaðarins“ og lagt til að hún verði létt með sérstökum ívilnunum í skattkerfinu. Þessi krafa mun vega þungt á vormánuðum. Þá hefur BHM einnig krafist þess að ábyrgðarmannakerfi LÍN verði afnumið að fullu. Það er sanngirnismál sem mikill stuðningur er við í samfélaginu.
Leiðréttingin sem þurrkaðist út
Á árunum eftir efnahagshrunið var samstaða á vinnumarkaði um að standa vörð um kjör hinna lægstlaunuðu í samfélaginu. Stéttarfélög innan BHM studdu það. Fyrir vikið dró nokkuð saman með háskólafólki og öðrum tekjuhópum. Þegar landið tók að rísa á árunum 2013–14 var ljóst að aðildarfélög BHM gætu ekki beðið lengur. Árið 2015 úrskurðaði lögskipaður gerðardómur að laun félagsmanna aðildarfélaga BHM hjá ríkinu skyldu hækkuð og viðurkenndi þar með í reynd að háskólafólk hefði setið eftir. Í kjölfarið fengu þó aðrir hópar í samfélaginu svipaðar hækkanir í kjarasamningum og leiðréttingaráhrif gerðardóms þurrkuðust út. Í komandi kjaraviðræðum verður ekki hvikað frá kröfunni um að fjárfesting fólks í menntun skili því eðlilegum og sanngjörnum ávinningi. Ýmsir hópar innan okkar raða eiga langt í land með að fá menntun sína að fullu metna til launa.
Menntun verði metin til launa
Í febrúar sl. undirrituðu þrír ráðherrar í ríkisstjórn Íslands yfirlýsingu um gerð mannaflaspár í heilbrigðiskerfinu á grundvelli nýrrar heilbrigðisstefnu. Þar eru einnig gefin mikilvæg fyrirheit um umbætur á starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstétta innan BHM. Þá er ekki síður mikilvægt að fram komi raunhæfar tillögur um jöfnun launa milli vinnumarkaða í samræmi við lífeyrissamkomulagið frá árinu 2016. Þar er mikið í húfi.
Kjarasamningar á nýju ári þurfa að skila launafólki raunverulegri kaupmáttaraukningu í stöðugu efnahagsumhverfi. Til að svo geti orðið þarf ríkisstjórnin að leggja fram tillögur sem treysta velferð og húsnæðisöryggi í landinu, auk þess að bregðast afdráttarlaust við kröfum aðildarfélaga BHM um að menntun verði metin til launa.
Grein Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM á vef samtakanna.