Embætti ríkislögreglustjóra hefur tekið saman bráðabirgðatölur um afbrot á landinu öllu árið 2018.
Hegningarlagabrot í lögregluembættunum níu dreifðust þannig að um 81% brota átti sér stað á höfuðborgarsvæðinu, en næst flest á Suðurnesjum (6%). Þegar fjöldi hegningarlagabrota á hverja 10 þúsund íbúa árið 2018 er skoðaður í samanburði við árið 2017 má sjá að mest hlutfallsleg aukning milli ára á hvern íbúa var á Austurlandi og á Norðurlandi vestra, en þar eru jafnframt fæst brot á íbúa.
Hegningarlagabrotum fjölgaði um 6% milli ára og voru brotin 12.338 eða að meðaltali um 34 á dag. Í stærsta undirflokk hegningarlagabrota, auðgunarbrotum, fjölgar innbrotum árið 2018 um 265 brot eða um 25% milli ára en á sama tíma fækkar þjófnuðum um 13%, mest hnupli (um 36%) og þjófnaði á farsímum (einnig um 36%).
Sérrefsilagabrot voru 6.140 og fjölgar milli ára um 9% en um 26% þegar borið er saman við meðaltal þriggja ára þar á undan. Fjölgun er í mörgum undirflokkum, m.a. því að fyrirmælum lögreglu sé ekki hlýtt (19. gr. l.nr. 90/1996) (úr 260 í 298) og brotum gegn lyfja– og lyfsölulögum fjölgar (úr 417 í 463). Lagt var hald á ýmis fíkniefni, en mest af maríjúana, alls 72 kg. á landsvísu.
Bráðabirgðatölur ríkislögreglustjóra má finna hér.