Starfsfólki Bílanausts var tilkynnt á starfsmannafundi klukkan tíu í morgun um gjaldþrot fyrirtækisins, verslunum fyrirtækisins var svo lokað í kjölfarið og starfsmennirnir sendir heim. Þetta staðfestir Bjarki Jakobsson, verslunarstjóri Bílanausts að Dvergshöfða, í samtali við mbl.is nú rétt fyrir hádegið.
„Það eru allir bara að fara heim og starfslok hjá öllum starfsmönnum,“ sagði Bjarki. Hann segir fólki hafa verið brugðið við tíðindin í morgun. Þá voru starfsmenn fyrirtækisins á Egilsstöðum og á Akureyri líka boðaðir til starfsmannafundar í morgun. Tap ársins 2017 nam 118 milljónum króna og var 85 milljónir árið á undan. Uppsafnað tap áranna 2012-2017 eru rúmlega 300 milljónir króna. Rekstrarvandræði Bílanausts hefur verið viðvarandi undanfarin fimm ár og tekjur félagsins hafa dregist saman um 35%.
Bílanaust var stofnað árið 1962. Bílanaust er í eigu félagsins Efstasunds og Coldrock Investments limited á 43,55% hlut í Efstasundi. Systkinin Guðný Edda Gísladóttir, Gunnar Þór Gíslason, Eggert Árni Gíslason og Halldór Páll Gísason eiga 9,11% hlut hvert. Lárus Blöndal Sigurðsson er eigandi 7,79% hlut og Heba Brandsdóttir 6,79% hlut.