Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir að einsleitni á eldsneytismarkaði hér á landi kosti neytendur mörg hundruð milljónir á hverju ári. Olíufélögin sjái ekki hag í því að keppa um viðskiptavini. Þetta kom fram í viðtali við Runólf í kvöldfréttum RÚV í gær.
Olíufélögin eru iðin við að bjóða afslætti, oft í tengslum við viðburði nú síðast heimsmeistaramótið í handbolta. Þá fær fólk tölvupóst eða SMS með tilkynningum um afslátt frá einu félagi og oftar en ekki fylgja svo önnur í kjölfarið með sama, eða kannski einni krónu meiri, afslátt.
Frá því í október hefur heimsmarkaðsverð á olíu lækkað um tæp 24 prósent. Á sama tíma hefur eldsneytisverð á Íslandi lækkað um tæp 6 prósent. Álagning olíufélagana hefur aukist um 3 prósent.
„Hver króna sem menn eru að skila til sjálfs síns í formi aukinnar álagningar, það skilar sér í 360 milljónum króna upp úr vasa neytenda á einu ári ef við hugsum þetta yfir eitt ár,“ segir Runólfur. Að hans mati er hegðun olíufélaga á markaði einsleit og þau sjái ekki hag í samkeppni um viðskiptavini.
Viðtalið við Runólf Ólafsson má sjá nánar hér.