Forsætisráðherra, formenn launþegahreyfinga og formaður SA hafa fordæmt launahækkunina
Rúmlega áttatíu prósenta launahækkun bankastjóra Landsbankans hefur vakið harða gagnrýni í þjóðfélaginu og m.a.s. gengið fram af bæði Samtökum Atvinnulífsins og launþegahreyfingunum í landinu. Bankaráð Landsbankans sendi nú undir kvöld frá sér tilkynningu þar sem hækkunin er útskýrð. Er hún sögð vera í samræmi við starfskjarastefnu bankans og að laun bankastjórans hefðu verið búin að dragast mjög aftur úr launum annarra bankastjóra.
Hækkun launa bankastjóra Landsbankans í 3.8 milljónir, eða 45.6 milljónir á ári mun hafa gríðarleg áhrif á kjaraviðræður sem nú eru í gangi. Vilhjálmi Birgissyni blöskrar sú hækkun sem að bankasjóri ríkisbankans, Landsbankans, hefur fengið á einu ári en hækkunin nemur 82% á ársgrundvelli.
Laun hennar eru í dag 3.800.000 krónur fyrir utan öll fríðindi. Bankaráð Landsbankans hækkaði mánaðarlaun bankastjórans, Lilju Bjarkar Einarsdóttur, um 17 prósent í fyrra eða um 550 þúsund krónur. Hækkuðu svo mánaðarlaunin úr 3.250.000 krónum í 3.800.000 krónur þann 1. apríl 2018. Hækkunin kom innan við ári frá annarri launahækkun bankastjórans sem fékk hækkun upp á tæpar 1,2 milljónir á mánuði 1. júlí 2017
Bankaráðið hefur sent frá sér yfirlýsingu:
Hækkun á launum bankastjóra Landsbankans hefur verið gagnrýnd. Sú gagnrýni er skiljanleg, enda er Landsbankinn að langstærstu leyti í eigu ríkisins. Undanfarna daga hefur launahækkunin verið sett í samhengi við almennar umræður um kjaramál. Bankaráð er meðvitað um að kjör bankastjóra eru vissulega góð en þau eru í samræmi við starfskjarastefnu bankans, sem hluthafar hafa samþykkt, um að starfskjör eigi að vera samkeppnishæf en þó ekki leiðandi.
Að mati bankaráðs hefur lengi verið ljóst að breyta þyrfti kjörum bankastjóra Landsbankans og færa þau nær þeim kjörum sem starfskjarastefnan kveður á um. Þegar ákvörðun um laun bankastjóra Landsbankans og fleiri stjórnenda voru færð undan kjararáði með lögum sem Alþingi samþykkti, hafa laun bankastjóra Landsbankans hækkað tvívegis, annars vegar frá 1. júlí 2017 og hins vegar frá 1. apríl 2018.
Við þá ákvörðun var ljóst að launin voru lægri en laun æðstu stjórnenda hjá öðrum stórum fjármálafyrirtækjum.Forsagan er sú að kjararáði var árið 2009 falið að úrskurða um laun bankastjóra Landsbankans. Á sama tíma sagði í eigendastefnu ríkisins að laun stjórnenda ættu að standast samanburð á þeim sviðum sem viðkomandi fyrirtæki starfaði á, án þess að vera leiðandi.
Þessi tilhögun var gagnrýnd af þáverandi bankaráði Landsbankans en beiðnir til stjórnvalda um breytingar náðu ekki fram að ganga.Afleiðingin varð sú að í mörg ár voru kjör bankastjóra Landsbankans töluvert lægri en laun hjá stjórnendum sambærilegra fyrirtækja. Þau voru jafnframt lægri en laun framkvæmdastjóra hjá Landsbankanum. Þær breytingar sem bankaráð hefur nú gert á kjörum bankastjóra Landsbankans eru í samræmi við starfskjarastefnu bankans sem hluthafar hafa samþykkt og hefur verið óbreytt í mörg ár.
https://www.fti.is/2019/02/11/haekkun-launa-bankastjora-landsbankans-i-3-8-milljonir-mun-hafa-gridarleg-ahrif-a-kjaravidraedur-sem-nu-eru-i-gangi/