Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Suðurlands þess efnis að konu sem varð fyrir grófri líkamsárás í Vestmannaeyjum árið 2016 sé ekki heimilt að veita skýrslu í gegnum síma við aðalmeðferð. Konan glímir við andleg veikindi og dvelur nú erlendis. Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, segir fá úrræði í boði þegar brotaþoli sem ekki vill mæta fyrir dóm er í útlöndum. Aðalmeðferð málsins sem átti að hefjast í dag hefur verið frestað til 13. mars, þessu greindi ruv.is frá.
Sóknaraðili vísaði dómi Héraðsdóms til Landsréttar þar sem þess var krafist að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi og fallist yrði á kröfu þess efnis að skýrsla yrði tekin af konunni í gegnum síma. Ákærði lagðist gegn því. Í dómnum segir að úrslit málsins geti ráðist af framburði konunnar og telur dómurinn þar með ekki efni til að gera undantekningu á meginreglu um milliliðalausa sönnunarfærslu. Því sé ekki fallist á kröfu sóknaraðila þess efnis að konunni verði gert heimilt að gera skýrslu í gegnum síma við aðalmeðferð málsins.
Fannst köld og meðvitundarlítil í húsgarði í Vestmannaeyjum
Forsaga málsins er sú að konan fannst í húsgarði í Vestmannaeyjum 17. september 2016. Konan var flutt þungt haldin á Landspítalann í Fossvogi. Maður á þrítugsaldri var handtekinn skömmu síðar grunaður um að hafa beitt konuna hrottalegu ofbeldi. Á hann að hafa kýlt hana í andlitið við skemmtistaðinn Lundann þannig að hún féll við. Skömmu síðar hafi hann veist að konunni með ítrekuðum höggum og spörkum í andlit og búk, klætt hana úr öllum fötum og því næst yfirgefið hana þar sem hún lá nakin, mikið slösuð og án bjargar í götunni. Konan hlaut margvíslega áverka í andliti og aftan á hnakka, sár víðar á líkamanum og ofkælingu.
Maðurinn er meðal annars ákærður fyrir brot á 2. málsgrein 218. greinar almennra hegningarlaga, þar sem kveðið er á um allt að sextán ára fangelsi við líkamsárás. Hann er líka ákærður fyrir blygðunarsemisbrot og að hafa komið konunni í það ástand að hún var án bjargar og fyrir að yfirgefa hana í því ástandi. Við því liggur allt að átta ára fangelsi.
Fréttir af árásinni vöktu mikinn óhug. Konan var meðvitundarlítil þegar hún fannst og svo köld að lögregla taldi að hefði hún ekki fengið aðstoð hefði hún getað látist. Hún var svo bólgin í andliti að hún gat ekki opnað augun. Fyrst þegar málið kom upp greindu fjölmiðlar frá því að maðurinn hefði verið grunaður um nauðgun. Hann er hins vegar ekki ákærður fyrir það.
Konan krefst átta milljóna króna í miskabætur auk vaxta og að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Maðurinn játar að hafa slegið konuna svo hún féll en neitar öðrum sökum. Ákæran gegn manninum var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands í september á síðasta ári.
Konan fór úr landi fljótlega eftir að hún varð fyrir árásinni og hefur dvalið þar síðan. Fréttastofa hefur áður greint frá því að lögreglu hefur reynst erfitt að ná tali af konunni en lögreglumenn fóru utan til að taka af henni skýrslu.
Aðalmeðferð málsins átti að hefjast í dag en hefur verið frestað til 13. mars að sögn Eyjafrétta.