Það verður líf og fjör í Laugardalshöll í Reykjavík dagana 14. – 16. mars en þá fer Íslandsmót iðn- og verkgreina fram í fimmta sinn.
Keppt í 28 iðn- og verkgreinum Hátt í 200 ungmenni munu keppast um að hljóta nafnbótina Íslandsmeistari, en keppt verður í 28 iðngreinum. Sigurvegarar eiga margir hverjir kost á að keppa síðar við þá bestu í sinni grein á Evrópumóti sem haldið verður í Graz í Austurríki á næsta ári. Einnig verða tvær iðngreinar til viðbótar með sýningu á sínu fagi.
Námsframboð í 33 skólum kynnt Samhliða munu 33 skólar um allt land kynna fjölbreytt námsframboð á framhaldsskólastigi. Er þetta í þriðja sinn sem haldin er slík sameiginleg námskynning þar sem nemendur, kennarar og náms- og starfsráðgjafar munu svara spurningum um námsframboð, félagslíf, inntökuskilyrði og annað sem gestir vilja vita um nám og störf.
Von á fjölmenni í Laugardalshöll Von er á yfir 7000 grunnskólanemendum í Laugardalshöllina fyrstu tvo dagana en þá munu nemendur í 9. og 10. bekk víðs vegar af að landinu mæta til að fylgjast með þessu unga fólki keppa og fá að prófa fjölbreytt verkefni undir handleiðslu fagfólks. Má þar nefna að helluleggja, setja saman smárásir, sá kryddjurtum, líma upp flísar, sjóða, prófa ýmis verkfæri og tól, flétta og blása hár, splæsa í net og leysa ýmsar þrautir.
Laugardaginn 16. mars verður Fjölskyldudagur á milli kl. 10 og 16. Frítt er inn og fræðsla og fjör í boði.
Tækifærin felast í iðn- og verknámi Markmiðið með þessari kynningu er m.a. að kynna fyrir ungu fólki þau fjölmörgu tækifæri sem felast í iðn- og verk- og tækninámi og auðvelda þeim að kynna sér fjölbreytt námsframboð framhaldsskólanna með það fyrir augum að fleiri taki upplýsta ákvörðun um námsval sem tekur mið af áhugasviði þeirra og hæfni. Markvisst námsval dregur úr brotthvarfi úr námi sem er stórt vandamál hér á landi.
Sjá nánar á heimasíðu Verkiðnar (www.verkidn.is) Facebooksíðu Verkiðnar / Skills Iceland (www.facebook.com/Verkidn)