,,Það er einhver misskilningur í gangi um að verkföll eigi helst ekki að bitna á neinum“
Það er tvennt sem markar hornstein verkalýðsbaráttu um heim allan. Rétturinn til að bindast samtökum í stéttarfélögum og rétturinn til að leggja niður störf til að knýja á um betri kjör. Þessi réttindi eru varin í lögum og stjórnarskrá og er grundvöllur alþjóðasáttmála um vinnumarkað. Það er mjög alvarlegt að vega að þessum rétti og reyna að dempa eða komast hjá aðgerðum sem launafólk á sannanlega rétt á að beita.
Það er einhver misskilningur í gangi um að verkföll eigi helst ekki að bitna á neinum. Verkföll eru neyðarúrræði sem stéttarfélög beita til að knýja á um samninga og eðli málsins samkvæmt bitna þau á fyrirtækjum og almenningi.
Mörg fyrirtæki bera sig illa þessa dagana og auðvitað eru blikur á lofti í ferðaþjónustunni eins og öllum er kunnugt. Það hefur hins vegar verið ljóst um langt skeið að vinnandi fólk er að rísa upp og krefjast virðingar og bættra kjara og aukins jöfnuðar. Það er því ekki bara krafa dagsins í dag heldur til framtíðar að fyrirtæki og stjórnvöld hlusti og taki mark á þessum kröfum í öllum sínum störfum.
Það er hættuspil að hlusta ekki á almenning og mæta ekki kröfum um aukinn jöfnuð, ekki bara hér á landi heldur um heim allan. Í því sambandi má minna á mikinn stuðning almennings við þá kröfu ASÍ að nýta skattkerfið til jöfnunar frekar en nú er gert. Í nýrri skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir ASÍ kom fram að 83% aðspurðra eru fylgjandi því að fólk með tekjur undir 500 þúsund á mánuði fái meiri skattalækkun en aðrir. Það er mjög afgerandi niðurstaða.
Í vikunni naut ég þeirrar ánægju að sitja í pallborði á kjaramálaþingi Öryrkjabandalagsins. Ég lagði út frá mikilvægi heilbrigðs og góðs vinnumarkaðar þar sem flestir hafa tækifæri til að njóta sín og taka þátt. Við höfum keyrt vinnumarkaðinn og samfélagið á yfirsnúningi of lengi.
Fólk vinnur langan vinnudag fyrir ósanngjarnt kaup og veikist vegna álags. Fjölgun fólks á örorku má að einhverju leiti rekja til þessa og því er það afar mikilvægt að fólk hafi aðgengi að hlutastörfum og verði ekki veikt af vinnuálagi og ranglæti. Ljóst er að þetta er eitt af stóru verkefnunum sem bíða okkar.