Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, var viðstaddur opnun þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi í dag. Samstarfsyfirlýsing þess efnis að fjármagna skyldi slíka miðstöð var undirrituð af félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra 26. febrúar síðastliðinn og er verkefnið nú orðið að veruleika. Um er að ræða tilraunaverkefni til tveggja ára en sambærileg þjónustumiðstöð er starfrækt á höfuðborgarsvæðinu undir heitinu Bjarkarhlíð.
Starfsemin miðast við Norðurland eystra, Norðurland vestra og Austurland og er til húsa að Þórunnarstræti 138 á Akureyri. Þar verður boðið upp á samhæfða þjónustu, stuðning og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem hafa verið beittir ofbeldi af einhverjum toga. Þjónustan verður öllum opin og stendur þeim sem á þurfa að halda til boða án endurgjalds.
Þjónustumiðstöðin er samstarfsvettvangur opinberra aðila og frjálsra félagasamtaka sem aðstoða þolendur ofbeldis. Lögreglustjórinn á Akureyri hefur yfirumsjón með verkefninu en aðrir samstarfsaðilar eru Akureyrarkaupstaður, Aflið – samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Háskólinn á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Samtök um kvennaathvarf, Kvennaráðgjöfin og Mannréttindaskrifstofa Íslands. Akureyrarbær leggur verkefninu til húsnæði og stendur straum af rekstrarkostnaði hússins. Félagsmálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið fjármagna reksturinn um tólf milljónir hvort á meðan á tilraunatímabilinu stendur.
„Það er mér mikil ánægja að hafa getað lagt mitt af mörkum til þess að gera þjónustumiðstöðina að veruleika,“ sagði Ásmundur Einar við opnunina, en stuðningur við hana er liður í aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess sem ráðherrann hefur mælt fyrir sem þingsályktunartillögu á Alþingi.
„Það er engu að síður sárt að hugsa til þess að þörf fyrir svona úrræði sé jafn brýn og raun ber vitni. Ofbeldi er alvarlegt samfélagsmein. Á meðan við búum við þá staðreynd að daglega þurfi einstaklingar að leita sér aðstoðar vegna ofbeldis og afleiðinga þess er mikilvægt að geta mætt þeim sem allra fyrst, með vandaðri og faglegri ráðgjöf sem næst heimabyggð. Í því felst styrkleiki þessarar nýju þjónustumiðstöðvar.“
Ásmundur sagði flesta þekkja fyrirmyndina Bjarkarhlíð sem félagsmálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið tóku einnig þátt í að koma á laggirnar í samstarfi við fleiri aðila fyrir nokkrum árum. „Bjarkarhlíð er dæmi um fyrirmyndarsamstarf milli opinberra stofnana og frjálsra félagasamtaka. Við opnun Bjarkarhlíðar grunaði hins vegar engan að þörfin fyrir úrræðið væri jafn brýn og aðsóknartölur hafa síðan leitt í ljós. Ég vil þó trúa því að ástæðan fyrir þeirri miklu eftirspurn sé ekki sú að ofbeldi í samfélaginu sé að aukast heldur að hið góða orðspor og fagleg umgjörð þjónustunnar í Bjarkarhlíð hafi orðið til þess að fleiri ákveði að stíga það skref að leita sér aðstoðar. Ég er sannfærður um að það sama muni eiga við hér á Norðurlandi og er mér kunnugt um að þegar sé komið á mikið og gott samtal á milli þessara tveggja miðstöðva.“