Enn í gær fékkst staðfest mikilvægi þess að bókin WOW ris og fall flugfélags kæmi sem fyrst fyrir augu almennings á Íslandi. Hann á rétt á því að hafa staðreyndir mála varðandi félagið og örlög þess við höndina, enda hafði það mikil áhrif á íslenskt samfélag, bæði á uppgangstímum þess en einnig þegar það féll og í kjölfar þess.
Staðfestingin sem ég vísa til eru ummæli sem Skúli Mogensen, stofnandi og eigandi WOW air lét falla í minn garð þar sem hann sakar mig um að hafa farið með „dylgjum“ og „ósannindum“ gegn sér og félaginu, ekki aðeins í bókinni heldur fréttaflutningi á síðustu misserum. Tiltekur hann svo að eigin sögn „örfá“ dæmi máli sínu til stuðnings þótt hann á sama tíma ítreki að bók mín sé ekki „svara verð“.
Dæmin sem síðan eru nefnd eru sex talsins.
1. Í fyrsta lagi segir Skúli það „alfarið rangt“ að Ben Baldanza hafi komið í stjórn WOW air fyrir þrýsting Airbus eða flugvélaleigusala fyrirtækisins eins og fullyrt er í bókinni. Sú fullyrðing Skúla gengur berlega í högg við upplýsingar sem ég hef aflað meðal þeirra aðila sem vísað er til í bókinni. Þessir aðilar hafa enga ástæðu til að segja ósatt um aðkomu sína að þessu máli og ég met heimildargildi orða þeirra 100% öruggt.
2. Í öðru lagi segir Skúli það alrangt að Airbus og leigusalar fyrirtækisins hafi haft miklar áhyggjur af rekstri WOW air árið 2016. Segir hann að það hafi verið í upphafi árs 2016 en raunar er um að ræða marsmánuð það ár. Sömu heimildarmenn og áður er vísað til hafa staðfest að þessar áhyggjur voru til staðar hjá flugvélaframleiðandanum og stærstu viðskiptavinum hans. Sömu sögu er að segja af öðrum viðmælendum mínum í alþjóðlegum fluggeira. Margir þeirra sannfærðust strax árið 2016 að það stefndi í alvarlegt óefni hjá WOW air, einkum eftir að upplýst var um það í nóvember 2015 að félagið hygðist taka í þjónustu sína þrjár A330-300 breiðþotur. Skúli hefur reyndar viðurkennt að „kaupin“ á þessum vélum hafi reynst banabiti félagsins. Vandinn er aðeins sá að hann sá það ekki fyrr en um seinan en reynsluboltar í flugheiminum vissu frá upphafi hvað pöntunin gæti leitt yfir félagið.
3. Skúli segir í þriðja lagi að það hafi verið „alfarið rangt“ að stjórn félagsins hafi hundsað aðvörunarorð annarra í flugheiminum. Með þessu virðist Skúli halda því fram að enginn hafi haldið uppi varnaðarorðum í tengslum við reksturinn. Það er rangt. Um það vitnar gríðarleg starfsmannavelta meðal stjórnenda fyrirtækisins sem oft var komin til vegna ágreinings um ákvarðanir sem teknar voru en einnig ummæli manna á borð við Baldanza sem opinberlega hafa sagt að ekki hafi verið hlustað á ráðleggingar þeirra í veigamiklum atriðum.
4. Í fjórða lagi segir Skúli það „alfarið rangt“ að helmingurinn af því fjármagni sem safnaðist í skuldabréfaútboði félagsins hafi falið í sér „skuldaleiðréttingu“ eða „skuldbreytingu.“ Í bók minni um félagið segi ég að gögn sem ég hafi undir höndum bendi sterklega í þá átt og Skúla hefur ekki tekist að hrekja það. Ljóst er að þátttaka Airbus, ALC, Avolon, Arion banka og fleiri aðila var bundin skilyrðum af því tagi. Þá hefur Björgólfur Thor Björgólfsson, sem lagði félaginu til 3 milljónir evra, tjáð sig um efni bókarinnar með afgerandi hætti en ekki gert athugasemd við þennan þátt málsins.
5. Skúli heldur því í fimmta lagi fram að viðræður sínar við Icelandair hafi aðeins verið í formi kaffispjalls og því engin ástæða til að tilkynna þær til Kauphallar Íslands. Kaffispjallið var þrátt fyrir það með því móti að fulltrúar hans lögðu fram tillögur um að í sameinuðu félagi Icelandiar og WOW yrði hann eigandi að 30% hlut og þótt hann dragi upp þá mynd sem hann gerir nú þá komu fleiri að þessum viðræðum en aðeins Ómar Benediktsson, Ragnhildur Geirsdóttir, Bogi Nils Bogason og hann. Hvað sem öðru líður er aðeins greint frá því í bókinni að Icelandair hafi talið nauðsynlegt að tilkynna markaðnum um viðræðurnar og sú staðreynd hefur ekki verið hrakin. Skúli var á öðru máli. Það var ekki í eina skiptið sem Skúli taldi óþarft að upplýsa viðskiptamenn sína um mikilvægar ákvarðanir eða vendingar í rekstri félagsins.
6. Í sjötta lagi fjallar Skúli um aðkomu Samgöngustofu og annarra opinberra aðila að málefnum WOW air meðan það háði dauðastríðið á árunum 2018 og 2019. Ekkert í orðum Skúla hvað þetta varðar hrekur það sem ég hef haldið fram. Í bókinni er skilmerkilega gerð grein fyrir tilraunum forsvarsmanna WOW air til að bjarga félaginu og aldrei er því haldið fram að þeir einstaklingar hafi ekki haft trú á því sem þeir voru að gera. Það breytir ekki þeirri staðreynd að Samgöngustofa vinnur eftir strangri reglusetningu sem stofnuninni er ekki heimilt að sveigja eða beygja, jafnvel þótt Skúli Mogensen eigi í hlut. Á það hef ég bent, líkt og fleiri og nú hefur Ríkisendurskoðun það verkefni með höndum að fara ofan í saumana á því máli.
Til viðbótar við atriðin sex sem hér að ofan eru rakin og hrakin rifjar Skúli að nýju upp frétt Morgunblaðsins frá 15. september 2018 þar sem upplýst var að WOW air skuldaði Isavia um tvo milljaða króna. Þá frétt hefur Skúli áður kallað „falsfrétt“ og ýjað að því að með fréttaflutningnum hafi verið reynt að koma höggi á WOW air. Ekkert af því stenst skoðun og öll gögn sem komið hafa fram, annað hvort í mínar hendur eða opinberlega hafa staðfest að fréttin var rétt og sannleikanum samkvæm. Atburðir síðustu mánaða staðfesta einnig að efni fréttarinnar átti mikið erindi við almenning.
Í byrjun október 2018 undirritaði Skúli leynilegt og fordæmalaust samkomulag við Isavia þar sem hann fór á bak við sína nánustu samstarfsaðila. Þar staðfesti hann að WOW air væri í vanskilum við Isavia upp á ríflega milljarð króna vegna starfsemi fyrirtækisins á Keflavíkurflugvelli í júní og júlí 2018. Þegar fréttin var birt í Morgunblaðinu var einnig ágústmánuður og helmingur septembermánaðar liðinn og WOW air búið að stofna til útgjalda upp á tæpan milljarð til viðbótar við vanskilaskuldina. Þess vegna var rétt sem Morgunblaðið hélt fram að WOW air skuldaði um tvo milljarða, þar af um helminginn gjaldfallinn á þeim tíma. Skúli getur ekki haldið því fram að einu skuldir WOW air hafi verið þær sem komnar voru fram yfir greiðslufresti. Allir vita að maður sem skuldar 20 milljónir í fasteignalán skuldar þá fjármuni þótt hann sé alltaf í skilum við lánveitanda sinn. Samkvæmt skilgreiningu Skúla virðist þó sem sá sami maður sé skuldlaus svo lengi sem hann geri upp sín mál fyrir eindaga.
Hvað sem líður stóryrtum yfirlýsingum Skúla Mogensen í minn garð stendur bókin WOW ris og fall flugfélags óhögguð og óhrakin. Nú eru fjölmargir aðilar að rannsaka málefni WOW air og á komandi mánuðum mun málarekstur innan dómstóla og utan leiða sannleikann fram með enn skýrari hætti en mér var unnt að gera á þeim fimm vikum sem ritunartími bókarinnar spannaði. Ég er algjörlega sannfærður um að sú mynd sem þar verður dregin upp verði í samræmi við það sem ég hef sagt um þetta mál fram til þessa. Hins vegar verður myndin skýrari og ég veit fyrir víst að þar munu einnig birtast frekari upplýsingar sem eiga ekki síður erindi við íslenskt samfélag en það sem ég hef gert að umfjöllunarefni í skrifum mínum.