Fyrir tíu mánuðum síðan lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til í borgarráði að hagsmunaskráning væri aukin. Við lögðum til að embættismenn og kjörnir fulltrúar birtu hagsmunaskráningu.
Síðustu mánuði hefur forsætisnefnd unnið að nýjum reglum sem eru í raun samhljóða nýjum reglum Alþingis.
Þessar reglur voru lagðar í dag fyrir borgarstjórn til samþykktar með þeim fyrirvara að þær brjóti ekki lög um persónuvernd.
Þegar á hólminn var komið gerðist tvennt:
(A) Meirihlutinn vildi breyta reglunum eftir að umræða hófst.
(B) Meirihlutinn lagði til að málinu yrði vísað til borgarráðs.
Við borgarfulltrúar D listans vorum tilbúin að samþykkja nýju reglurnar, en ekki var gefið færi á atkvæðagreiðslu. Í staðinn var farið að gefa eitt og annað í skyn og farið að ræða um málefni einstaklinga og að einhver „kunni að þurfa að segja eitthvað“ ef reglum væri breytt.
Það er merkilegt að við samþykktum nýjar siðareglur fyrr í dag en þar er sérstaklega kveðið á um að borgarfulltrúar mæti undirbúnir.
Það að leggja fram nýjar reglur um hagsmunaskráningu fyrir borgarstjórn og draga þær svo til baka á síðustu stundu eftir að umræða hófst um þær á þeim forsendum að eitthvað vanti í þær eftir að þær eru afgreiddar úr forsætisnefnd er ekki dæmi um góðan undirbúning.
Þvert á móti.
Niðurstaðan er sú að hagsmunaskráningin er óbreytt vegna þess að meirihlutinn heyktist á að samþykkja eigin tillögu á síðustu stundu.