,,Svona var ,,gróðurhúsið´´ og önnur atvinnustarfsemi við Stekkjabakka í Elliðaárdal kynnt okkur í skipulags og samgönguráði þann 19.september 2018.
Meðfylgjandi myndir segja meira en þúsund orð og sýna þó aðeins brot af því raski sem framundan er.“ Segir Baldur Borgþórsson Varaborgarfulltrúi Miðflokksins.
,,Þarna er um að ræða lóðir sem verið er að gera í Elliðaárdal, nánast við árbakkann.
Verðmæti slíkra lóða og eftirsókn í þær myndi því vera gríðaleg.
En nei, völdum aðilum eru afhentar lóðirnar, án útboðs! Og svo mun væntanlega einnig verða um næstu skref, næstu bita skipulagsins sem verið er að búta í gegn.
Borgarbúar hljóta að spyrja sig þeirrar spurningar hvort svona vinnubrögð séu ásættanleg og yfirhöfuð lögleg? Þessu máli er hvergi nærri lokið.
Þetta er bara enn einn flöturinn á málinu. En að sjálfsögðu eigum við að standa vörð um dalinn og hafna þessu öllu saman.
Að sjálfsögðu greip ég til varna fyrir dalinn og sömuleiðis Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðismanna.
Eftir mikinn darraðadans leit síðan breytt tillaga dagsins ljós í desember.
Þar var ný nálgun tekin.
Deiliskipulagið er bútað niður og aðeins gróðurhúsparturinn lagður fram.
Restin, með tilheyrandi atvinnuhúsnæði og hundruðum bílastæða mun síðan fylgja í kjölfarið.
Undirritaður er eldri en tvævetra og þekkir slík vinnubrögð.
Vonandi gerir hinn almenni borgari það líka og tekur vel undir kröfu Hollvinasamtaka Elliðaárdals um íbúakosningu vegna málsins.
Hér er bókun undirritaðs frá afgreiðslu málsins í Skipulags og samgönguráði þann 26.júní síðastliðinn:
,,Miðflokkurinn telur friðun Elliðaárdals algjört forgangsverkefni og að það verði gert í góðri sátt við íbúa borgarinnar.
Telja verður með öllu óásættanlegt að fyrirhugað deiliskipulag fái afgreiðslu eða sé yfirhöfuð tekið til umræðu þar til afmörkun og friðlýsing Elliðaárdals hefur verið afgreidd í sátt við hagsmunaaðila, það er borgarbúa.
Þrákelkni meirihluta Sf-Vg-C og P í þessu mikilvæga hagsmunamáli borgarbúa er með öllu óskiljanleg og virðist í engu samræmi við yfirlýst markmið þeirra um verndun grænna svæða í borginni.
Að reisa glerhallir sem gnæfa yfir einni af náttúruperlum borgarbúa og fylla upp í eyðurnar með hundruðum bílastæða er óásættanlegt.
Hér þarf að forgangsraða með hag borgarbúa í öndvegi.
Að lokinni auglýsingu um breytt deiliskipulag hefur borist slíkur fjöldi athugasemda frá samtökum og íbúum að ekki er verjandi að halda lengra.
Miðflokkurinn mótmælir því harðlega að málinu verði framhaldið.
Krafa okkar um vinnulag hvað varðar umdeilanlegar breytingar er einföld:
Umræða-Samráð-Sátt.
Þetta vinnulag þekkja góðir stjórnendur en slæmir ekki.
Meirihluti S-Vg-C og P fékk í síðustu kosningum umboð til að framfylgja vilja borgaranna, ekki eigin vilja.
Hollvinasamtök Elliðaárdalsins hafa boðað undirskriftasöfnun um íbúakosningu og óskar Miðflokkurinn þeim velgengi þar.´´
Baldur Borgþórsson Varaborgarfulltrúi Miðflokksins