.
Fréttamiðillinn Namibian.com hefur að undanförnu fjallað um málefni Samherja og deilur þarlendis vegna meintra spillingarmála þar í landi.
En deilan virðist snúast um eignarhald á skipinu Heinaste.
Jafnframt hefur málið ratað til dagblaðsins New Era en samkvæmt frásögn blaðsins kemur fram að skipið Heinaste hafi í upphafi verið 100% fjármagnað af Samherja en að Namibíumenn hafi síðar keypt 45% í skipinu.
Tvö fyrrverandi samstarfsfyrirtæki Samherja, þau Sinco Fishing og Epango Fishing í Namibíu hafa höfðað mál gegn Esju Holding fyrir hæstarétti í Namibíu sem er félag í eigu Samherja, til að koma í veg fyrir að skip sem er í meintri sameiginlegri eigu þeirra, verði selt.
Esja Holding hefur átt í samstarfi við namibísku fyrirtækin í gegnum félagið Heineste Investments Namibía frá 2013.
Snýst deilan um það hvort selja skuli fiskiskipið Heineste og hvernig skuli standa að því að greiða ógreitt lán sem hvílir á skipinu.
„Það stendur til að selja þetta skip úr því að samstarfið við þessa aðila er formlega lokið. Það er óeining um þetta og það er verið að leysa úr því hvort hluthafafundur um sölu á skipinu eigi að fara fram eða ekki. Það hvílir ógreitt lán á skipinu sem átti að vera búið að greiða upp en er ekki búið að gera,“ segir Anna McClure, lögmaður Samherja í viðtali við RÚV.
Þar kemur jafnframt fram að Namibíski fjölmiðillinn, The Namibian, fullyrði að samstarfsfyrirtækin saki Esju Holding einnig um spillingu og að umfangsmikil spillingarrannsókn á félaginu standi yfir. Í frétt The Namibian kemur þó hvergi fram hvers eðlis meint svik eiga að vera. Anna segir ekki rétt að spillingarrannsókn standi yfir. „Nei, við höfum ekki neina vitneskju um það. Það hafa engin yfirvöld sett sig í samband við þau félög sem um ræðir eða nokkurn annan í samstæðu Samherja um slíkt. Þetta eru ásakanir sem eiga sér ekki stoð.“ Þá fjallar blaðið Undercurrent News einnig um málið í dag.