Eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson
Lýðræði hefur skilað Vesturlöndum mesta framfaraskeiði mannkynssögunnar. Nú á lýðræði hins vegar í vök að verjast gagnvart síauknu kerfisræði og hinni nýju ímyndarpólitík sem einnig mætti kalla sýndarstjórnmál. Það sem er sagt og gert er þar fyrst og fremst metið út frá því hver á í hlut og hver ásýndin er fremur en að líta til innihalds og staðreynda.
Því sýnilegri sem mál eru þeim mun meiri er sýndarmennskan. Af því leiðir að þeim mun meiri athygli sem mál vekja þeim mun meiri eru áhrif ímyndarstjórnmálanna.
Fyrir vikið nálgast menn ekki stærstu viðfangsefni samtímans út frá raunveruleikanum og leitinni að skynsamlegustu lausnunum. Þess í stað ganga viðbrögðin fyrst og fremst út á að sýnast vera að bregðast við. Með því er farið gegn því sem hefur reynst meginforsenda árangurs og framfara um aldir, jafnvel árþúsund.
Til að skýra hina miklu skaðsemi ímyndarstjórnmálanna ætla ég að styðjast við dæmi. Í tveimur greinum mun ég fjalla um tvö af stærstu viðfangsefnum samtímans. Mál sem vekja meiri athygli en flest önnur og hafa fyrir vikið orðið fórnarlömb ímyndarstjórnmálanna. Þessi mál eru annars vegar umhverfismál (einkum löftslagsbreytingar) og í næstu grein innflytjendamál. Hvort tveggja mál sem varða líf og framtíð milljarða manna.
Umbúðir, ekki innihald
Aðferðirnar sem stuðst er við í umhverfismálum eru ekki til þess fallnar að skila tilætluðum árangri, eins og ég hef talsvert fjallað um áður. Parísarsamkomulagið frá 2015 (sem ég skrifaði undir) var kynnt sem síðasta tækifærið til að bjarga heiminum frá áhrifum loftslagsbreytinga.
Nú ætlast ímyndarmenn reyndar til að við köllum þetta „hamfarahlýnun“. Það að gefa hlutum ný heiti að hætti Orwells er einmitt eitt af helstu verkfærum sýndarstjórnmálanna. Allt er þetta spurning um hvaða stimpil tekst að setja á fólk og þá ásýnd eða umbúðir sem málefnum er pakkað inn í, fremur en innihaldið.
Dýrt árangursleysi
Jafnvel þótt Parísarsamkomulagið til að bjarga heiminum verði virt af öllum, en slíkt hefur aldrei gerst, sýna líkön Sameinuðu þjóðanna sjálfra (sömu líkön og samkomulagið er byggt á) að loftslagsáhrifin yrðu nánast engin. Það er vegna þess að samkomulagið býður ekki upp á lausnir sem virka. Í viðbrögðum við loftslagsbreytingum er ekki tekið tillit til staðreynda og alls ekki tekið tillit til heildaráhrifa. Sýndarmennska ræður för.
Kostnaðurinn við þennan smávægilega árangur er hins vegar gríðarlegur. Sum lönd fara sínar eigin leiðir en á sömu forsendum. Nýverið samþykkti breska þingið stefnu ríkisstjórnarinnar um að Bretland ætti að ná því markmiði að nettólosun gróðurhúsalofttegunda yrði engin fyrir árið 2050. Fjármálaráðherrann, sem þó er ekki þekktur fyrir að synda gegn straumnum, benti á að stefna eigin stjórnar gæti kostað um 1.000.000.000.000 pund eða 160 þúsund milljarða króna. Það myndi óhjákvæmilega leiða til niðurskurðar í heilbrigðismálum, menntamálum og löggæslu.
Undarleg sjálfsupphafning
Ekki skortir þó talsmenn. Forystumenn úr alþjóðakerfinu mættu til Davos á 1.600 einkaþotum til að tala niður til fólks sem ferðast á fjölskyldubíl og leyfir sér stöku sinnum að fara í frí til Kanarí. Í viðtölum flytja þeir svo allir sömu frasana sem teknir eru upp úr trúarritningu ímyndarpólitíkurinnar. Samtök sem kalla sig Climate Rebellion efna reglulega til mótmæla og stundum óeirða. Aðgerðirnar ganga oftast út á að gera fólki lífið leitt með því að stöðva umferð og krefjast þess að hætt verði að nota jarðefnaeldsneyti. Sænsk stúlka efnir til vikulegra verkfalla skólabarna (nema í sumarfríinu) og krefst þess að nettólosun gróðurhúsalofttegunda verði engin fyrir 2025.
Stjórnmálamenn leitast við að upphefja sjálfa sig með því að vísa í að „börnin vísi okkur veginn“ og hamra á því að við eigum að hlusta á þau. Þó gera þeir það ekki í raun. Yfirlýsingarnar eru nefnilega byggðar á sýndarmennsku, því að segjast hlusta á börnin, fremur en staðreyndum eða raunverulegum vilja til að „láta börnin vísa veginn“. Enda eru kröfurnar fullkomlega óraunhæfar. Það þora bara fáir að segja það.
Það er auðveldara að lofa börnin fyrir framtakið og það að skrópa í skóla. Þegar aktívistar beita börnum í áróðursskyni virðast fáir þora að vera fullorðnir. Ætti hlutverk fullorðinna ekki að vera að kenna börnum nám og rökhyggju og bera lof á leitina að staðreyndum og lausnum? Það hefur jú verið grunnstef vestrænnar siðmenningar (með hléum sums staðar) í á þriðja þúsund ára og lykillinn að einstakri framfarasögu.
Raunveruleg áhrif
Hver yrðu áhrif þess að hætta nettólosun gróðurhúsalofttegunda innan 5 ára? Það er auðvitað ekki hægt. Fyrir fáeinum árum losaði Kína minna af gróðurhúsalofttegundum en Evrópa. Aðeins 15 árum seinna hefur losun Kína þrefaldast og er nú meiri en allra Evrópuríkja og Bandaríkjanna samanlagt. En hvað ef við litum fram hjá þróunarlöndunum og stjórnvöld gerðu ráðstafanir svo að nettólosun á Vesturlöndum yrði engin innan fimm ára?
Afleiðingarnar yrðu versta manngerða kreppa sögunnar. Fjöldagjaldþrot fyrirtækja, flugfélaga, ferðaþjónustu, framleiðslufyrirtækja, flutningsfyrirtækja og stórs hluta verslunar og þjónustu. Fjöldaatvinnuleysi, hrun í tekjum ríkja, niðurskurður í heilbrigðisþjónustu og öðrum velferðarmálum og auðvitað menntamálum. Slíkar væru raunverulegar afleiðingar krafnanna sem stjórnmálamenn skreyta sig með því að lofa.
Það má svo fylgja sögunni að lækkað orkuverð myndi skapa Kína og öðrum þróunarlöndum stórkostlegt forskot. Gallinn væri bara sá að Vesturlönd hefðu ekki lengur efni á að kaupa vörurnar sem þessi lönd framleiða. Þau myndu því þurfa að verða sjálfbær og alþjóðaviðskipti yrðu ekki svipur hjá sjón (eru ekki alþjóðasinnarnir duglegastir við að taka undir kröfur aktívistanna?). Það að stöðva nettólosun gróðurhúsalofttegunda innan fimm ára, þótt það væri bara á Vesturlöndum, myndi kalla á víðtækustu ríkisinngrip í sögu lýðræðis og þau inngrip væru til þess fallin að auka stórkostlega á misskiptingu.
Fjölskyldubílar yrðu aðeins fyrir þá efnameiri og flugferðir, ef þær yrðu heimilaðar, aðeins á færi hinna alefnuðustu. Í raun væri farið 70-100 ár aftur í tímann varðandi aðgang að ýmsum lífsgæðum.
Vindmyllur
Vindmyllur eru líklega helsta táknmynd umhverfisverndar. Evrópuríki hafa varið gríðarlegu fjármagni skattgreiðenda í að stuðla að fjölgun vindmylla. Enda birta stærstu olíuframleiðendur heims auglýsingar með myndum af vindmyllum með yfirlýsingum um að þeir vilji vera leiðandi í umhverfisvernd. Þessi óhemjustjóru mannvirki gnæfa nú yfir héruð NorðurEvrópu.
Meðalvindmylla er tvöfalt hærri en Hallgrímskirkja. Turninn er úr stáli sem er yfirleitt framleitt með stórkostlegum kolabruna í Kína og svo flutt þaðan með svartolíubrennandi skipum. Spaðarnir eru hver og einn breiðari en breiðþota og framleiddir úr gerviefnum framleiddum úr olíu. Hinar gríðarstóru undirstöður eru úr járnbentri steinsteypu sem losar mikið af gróðurhúsalofttegundum við framleiðsluna.
Seglarnir í túrbínunum eru svo framleiddir úr fágætum málmum sem unnir eru í námum í Kína þar sem vinnslan skapar óheyrilega mengun geislavirkra efna og annarra eiturefna sem hafa eyðilagt heilu héruðin og stórskaðað menn og dýr. Vindmyllur eru þó mjög sýnilegar og falla þannig vel að ímyndarstjórnmálum samtímans. Heildaráhrifin eru þó ekki eins sýnileg.
Íslenska leiðin
Hér á landi virðist lausnin í loftslagsmálunum einkum eiga að felast í því að moka ofan í skurði. Það er sýnileg aðgerð og hægt að telja metrana. Aðgerðirnar eru myndrænar og það er jú ein af frumforsendum ímyndarstjórnmálanna. Þó liggja ekki fyrir rannsóknir sem staðfesta að slíkt skili tilætluðum árangri og talsverðar líkur eru á að áhrifin geti í mörgum tilvikum verið öfug við það sem að er stefnt.
Það er hægt að ná árangri í baráttunni við loftslagsbreytingar eins og ég hef fjallað um og mun gera aftur. En til að ná árangri þarf að skoða heildarmyndina, langtímaáhrif og hætta sér út í að skoða staðreyndir. Ekkert af þessu fellur hins vegar að ímyndarstjórnmálum samtímans.
Höfundur er formaður Miðflokksins.