Allar ísbreiður og jöklar á jörðinni eru að minnka vegna loftslagsbreytinga
Sjávarstöðuhækkun er nú meiri en gert var ráð fyrir í eldri spám. Áhrifa veðurfarsbreytinga á vistkerfi norðurslóða gætir í fiskafla.
Hlýnun á norðurskautssvæðinu hefur verið meira en tvöfalt hraðari en að meðaltali á jörðinni á síðustu tveimur áratugum. Þessa mögnun hlýnunar má að hluta rekja til samdráttar hafíss og snjóþekju á sama tíma. Á komandi árum og áratugum munu jöklar enn hörfa víðast hvar og snjóhula að vetri endast skemur. Þetta kemur fram hjá Veðurstofu Íslands sem fjallar um hnattræna hlýnun og áhrifum.
Matvælaöryggi og skilyrði til búsetu á norðurskautssvæðinu munu breytast. Breytinga er að vænta á náttúruvá, m.a. á flóðum í ám, snjóflóðum, skriðuföllum og vandamálum vegna óstöðugra jarðlaga, sem gera má ráð fyrir að hafi áhrif á innviði, ferðamennsku og aðstæður til útivistar.
Leysingarvatn frá jöklum mun stuðla að áframhaldandi hækkun sjávarstöðu. Þar munar mest um bráðnun Grænlandsjökuls, en á tímabilinu 2006–2015 rýrnaði Grænlandsjökull að meðaltali um 280 gígatonn á ári, sem samsvarar um 0,8 mm hækkun sjávarborðs heimshafanna árlega. Sjávarborð heimshafanna hækkaði að jafnaði um 3,6 mm á ári á tímabilinu 2005–2015 og er sú hækkun 2,5 sinnum meiri en á árabilinu 1901–1990. Innan þrjátíu ára verða aftakaflóð sem nú henda sjaldan algengari og komi ekki til verulegrar aðlögunar umfram það sem nú er gert mun hækkun sjávar og tíðari aftakaflóð auka verulega áhættu vegna sjávarflóða á lágsvæðum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu IPCC , milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar, sem kom út í dag. Þar er einnig ályktað að metnaðarfullar og samhæfðar aðgerðir eru nauðsynlegar til þess að samfélög geti aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga. Íslenska samantekt á hluta skýrslunnar má nálgast hér.
Rýrnun íss og snævar mun aukast á 21. öldinni
Á komandi árum og áratugum munu jöklar enn hörfa víðast hvar og snjóhula að vetri endast skemur og sífreri þiðnar enn frekar og hjaðnar. Áhrifa þessara breytinga mun gæta í rennsli vatnsfalla og á háfjallasvæðum munu fjallahlíðar verða óstöðugri vegna hörfunar jökla og þiðnunar sífrera. Einnig munu jaðarlón framan við jökla stækka og slíkum lónum mun fjölga. Búast má við að skriðuföll og flóð muni eiga sér stað þar sem slíkra atburða hefur ekki áður orðið vart.
Snjóflóðum mun sennilega fækka og þau munu ekki ná jafn langt frá fjallshlíð og áður, en krapaflóðum og votum snjóflóðum mun fara fjölgandi, jafnvel að vetri til. Flóð í ám sem orsakast af asarigningu á snjó verða fyrr á vorin og síðar um haust en áður. Þau verða líka tíðari hærra til fjalla en fátíðari neðar í fjöllunum. Breytingar á snjó, ís og jöklum munu hafa áhrif á vistkerfi á landi og í fersku vatni á heimskauta- og háfjallasvæðum. Búsvæði tegunda munu hnikast til norðurs og yfir á hærri svæði til fjalla sem hefur áhrif á uppbyggingu vistkerfa og framleiðni lífríkisins. Gert er ráð fyrir að breytingarnar dragi úr líffræðilegum fjölbreytileika þegar fram í sækir og að tegundir deyja út á líffræðilega einstökum svæðum.
Síðla vetrar (janúar til mars) 2016 og 2018 var hiti yfir miðbiki norðurskautssvæðisins 6°C yfir meðaltali 1981–2010 sem leiddi til óvenju lítils hafíss. Samdráttur hafíss getur haft áhrif á þróun veðurs utan norðurskautssvæðisins svo vikum eða mánuðum skiptir með því að hnika til veðrakerfum í háloftunum. Niðurstöður spálíkana benda til þess að rýrnun íss og snævar muni enn aukast á seinni hluta 21. aldar ef losun gróðurhúslofttegunda verður áfram veruleg. Verði stórlega dregið úr losuninni á komandi áratugum er líklegt að hægja taki á rýrnun sífrera og snjóhulu, en leysing og hörfun jökla mun halda áfram.
Hækkun sjávarborðs við Ísland út öldina getur numið einum metra
Samkvæmt athugunum fer sjávarborð heimshafanna hækkandi og verður hækkunin örari með árunum. Samanlagt leysingarvatn frá jöklum og jökulbreiðum leggur nú til stærstan hlut þessarar hækkunar og er umfram varmaþenslu hafsins vegna hlýnunar. Samanlögð árleg rýrnun hinna stóru jökulbreiða Grænlands og Suðurskautslandsins fer vaxandi. Massatap þeirra árin 2012–2016 var líklega meira en á árunum 2002–2011 og margfalt á við massatap áranna 1992–2001.
Að jafnaði hækkaði sjávarmál um 3,6 mm á ári á tímabilinu 2005–2015 (3,1–4,1 mm á ári) og er sú hækkun 2,5 sinnum meiri en á árabilinu 1901–1990, er hækkunin mældist að jafnaði 1,4 mm á ári (0,8–2,0 mm á ári). Hlýnun jarðar hefur leitt til hækkandi sjávarflóða af völdum margra fellibylja í hitabeltinu og utan þess. Sjávarstöðubreytingar munu halda áfram á næstu öldum og gætu þegar fram í sækir orðið nokkrir sentimetrar á ári og skilað margra metra hækkun sjávarstöðu til langframa.
Í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem kom út árið 2018 kemur fram að haldi forsendur um álíka mikla bráðnun jökulbreiða Grænlands og Suðurskautslandsins verður hækkun sjávar við Íslandsstrendur innan við helmingur hnattrænni meðalhækkun. Landsig og landris munu einnig hafa áhrif. Að teknu tilliti til óvissu getur hækkun hér við land út öldina nálgast einn metra þar sem hún verður mest.
Sækja myndina á PDF sniði
Hnattræn hlýnun hefur breytt útbreiðslu fiskistofna
Áhrifa veðurfarsbreytinga á vistkerfi norðurslóða gætir nú þegar í fiskafla samkvæmt niðurstöðum skýrslu milliríkjanefndarinnar. Á mörgum svæðum hefur samdráttur í stofnstærð fiski- og skelfiskstofna vegna óbeinna áhrifa hnattrænnar hlýnunar þegar leitt til minnkaðs afla.
Sumir stofnar hafa einnig stækkað vegna stækkunar hentugra búsvæða. Sögulegar rannsóknir og líkangerð benda til þess að hlýnun sjávar á 20. öld hafi stuðlað að almennri minnkun á mögulegum heildarafla. Frá árinu 1970 hafa orðið breytingar í tegundasamsetningu í vistkerfum víða á landgrunnssvæðum meginlanda samfara minnkandi heildarafla.
Vistkerfi á grunnslóð eru undir álagi vegna hlýnunar sjávar, aukinna sjávarhitabylgna, súrnunar sjávar, minnkandi súrefnisstyrks og hækkandi sjávarstöðu, sem og óhagstæðra áhrifa frá margvíslegri starfsemi mannsins á sjó og á landi. Jafnframt verður tilfærsla í útbreiðslu tegunda í átt til pólsvæða sem leiða mun til breytinga í samfélagsgerðum sem og minnkandi í fisksveiða með aukinni hlýnun hafsvæða á 21. öldinni.
Hraði þessara breytinga verður mestur við miðbaug en afleiðingarnar eru margbreytilegri á pólsvæðunum. Breytingar á útbreiðslu og stofnstærðum fiskistofna af völdum hlýnunar hafa þegar haft áhrif á stjórnun veiða úr mikilvægum stofnum og á efnahagslegan ávinning veiðanna. Þetta hefur torveldað viðleitni haf- og fiskveiðistjórnunarstofnana til þess að tryggja gott ástand vistkerfa, mynda efnahagslegan ávinning og styrkja lífsafkomu.
Á liðnum árum hefur útbreiðsla loðnu breyst og hún haldið sig lengra norður í höfum og vestar yfir landgrunni Austur-Grænlands en fyrr. Breytingar í stofnstærð og útbreiðslu sumra uppsjávarfiska, sérstaklega loðnu, makríls og sandsílis, má líklega að hluta rekja til breytinga á umhverfisaðstæðum. (Ljósmynd, Svanhildur Egilsdóttir.)
Súrnun sjávar nú þegar meiri en vænta má vegna náttúrulegs breytileika
Hafið hefur tekið upp 20–30% af því kolefni sem losað hefur verið síðan á 9. áratugi síðustu aldar og við það hefur sjórinn súrnað. Á þessu tímabili hefur sýrustig yfirborðssjávar úthafanna lækkað um 0.17–0.27 pH gildi á hverjum áratug. Vegna þessa er súrnunin nú þegar meiri en vænta má vegna náttúrulegs breytileika. Lífshættir, framleiðni og útbreiðsla sumra dýrasvifstegunda í Norður-Íshafinu hafa tekið breytingum og Suður-Íshafsljósáta hefur fært sig sunnar í Atlantshafi. Ennfremur hefur stærðarsamsetning þessara stofna breyst.
Áhrif loftslagsbreytinga á samfélög manna á norðurslóðum eru þegar skýr
Breytingar á snjó og ís á norðurskautssvæðinu og á háfjallasvæðum hafa þegar haft margvísleg áhrif á samfélög manna síðan um miðja 20. öld. Þar er einkum um að ræða afleiðingar fyrir ferskvatnsframboð, vatnsafl, innviði af ýmsum toga, samgöngur, matvælaframleiðslu, ferðamennsku og útivist og nokkra aðra þætti. Þessar afleiðingar koma fram með mismunandi hætti fyrir mismunandi samfélög og þjóðfélagshópa.
Breytingarnar hafa torveldað aðgengi að veiðilendum og svæðum sem nýtt eru til beitar og til þess að afla matar. Dregið hefur úr framleiðni í landbúnaði á sumum svæðum þar sem leysingarvatn hefur minnkað, sérstaklega þar sem annað álag af völdum loftslagsbreytinga eða félagslegra þátta hefur aukist. Nefna má vestanverð Bandaríki Norður-Ameríku og háfjallasvæði í Asíu og svæði nærri miðbaug jarðar í Andesfjöllum sem dæmi um þetta.
Einungis metnaðarfullar og samhæfðar aðgerðir duga
Í skýrslu milliríkjanefndarinnar um loftslagsbreytingar er einnig ályktað um nauðsynleg viðbrögð við áhrifum loftslagsbreytinga og þar segir að viðbrögð vegna breytinga á hafi og freðhvolfi skipti miklu máli. Þar er dregin fram nauðsyn menntunar og aukins skilnings á áhrifum manna á loftslag og áhrifum loftslags á samfélög. „Til þess að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra á hafið og freðhvolfið og á líf sem þeim er háð, eru metnaðarfullar og samhæfðar aðgerðir nauðsynlegar. Þær aðgerðir þurfa ekki síst að tryggja sjálfbæra þróun samfélaga og gera þau í stakk búin að aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga“, segir ennfremur í skýrslunni.