,,Sjálfstæðisflokkurinn réð lögum og lofum nær óslitið í 60 ár og ríghélt í völdin með því að nota borgarkerfið sem úthlutunarapparat fyrir flokksgæðinga“
Logi Einarsson kom víða við í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar, hann sagði m.a. að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, hefði lagt mesta áherslu á lækka bankaskattinn og veiðigjöld á stórútgerðina. Þá sé fyrirhugað að lækka erfðafjárskattinn, ekki síst á þá sem munu erfa mest og að verið sé að búa til algjörlega einstakt fyrirkomulag til að tryggja fjármagnseigendum einum hópa í samfélaginu, sérstaka vernd gegn verðbólgu. ,,Svona er nú skattastefnan rekin, í skjóli vinstri grænna og ýtir undir enn meiri ójöfnuð í landi þar sem 5 prósent íbúanna eiga nú þegar jafnmiklar eignir og hin 95 prósentin.“ Sagði Logi Einarsson en hér að neðan er ræða hans í heild sinni:
,,Pólitík er vissulega skrítin skepna og það getur verið snúið að umgangast hana. Flokkar falla oft í þá gryfju að eyða megnið af tímanum í að eltast við duttlunga hennar í stað þess að stjórna henni. Auðvitað þurfum við að geta brugðist við óvæntum aðstæðum en allt of oft erum við einfaldlega að glíma við aðstæður sem skapast vegna þess kerfis sem við sjálf höfum búið til. Ég nefni flöktandi gengi örmyntar, kjötfjöll og kjötskort eða vandræðagang samfara alþjóðasamvinnu, vegna úreltrar stjórnarskrár.
Önnur alvarleg vandamál sem við glímum við, svo sem fíkniefnavandi ungs fólks, eru líka að einhverjum hluta afleiðing samfélags sem við höfum þróað. Lág laun of margra, of langur vinnudagur, ósveigjanlegt menntakerfi og svo framvegis.
Við höfum líka búið til hringrás, þar sem þeir ríkustu sem hafa greiðari aðgang að peningum, ódýrara fjármagni og geta auk þess fært fé fram og til baka milli gjaldmiðla eftir því sem vindar blása – ná að ávaxta auð sinn langt umfram almenning.
Himinn háar upphæðir erfast svo milli kynslóða og auðurinn færist á sífellt færri hendur, bilið milli þeirra sem eiga mjög mikið og hinna sem eiga mjög lítið breikkar stöðugt og svo koll af kolli.
Meðan sum komast áhyggjulaus gegnum lífið eru allt of mörg í sífelldu basli í brauðstritinu.
Á mjög mörgum sviðum verðum því að gera grundvallarbreytingar ekki láta það nægja að stoppa í sokkana. Áskoranir samtímans; hvort sem þær eru vegna breyttrar heimsmyndar, byltingar í tækni eða hamfarahlýnunar, krefjast, frumlegra lausna, djarfra ákvarðana og markvissra aðgerða.
Samfylkingin verður að bjóða upp á skýra og trúverðuga stefnu sem mætir þeim – þá er ég viss um að flokkurinn fær umboð til að leiða saman umbótaöflin í ríkisstjórn eftir næstu kosningar.
Við skulum nýta þennan fund hér í dag til að ræða stóru myndina í stjórnmálunum. Ræða hreinskiptið hvaða skyldum flokkurinn okkar hefur að gegna í dag? Hvað hvert og eitt getur gert, til að áhrif okkar nýtist sem best í baráttunni fyrir frjálslyndi, sjálfbærni ogog betri lífskjörum almennings á Íslandi.
Kæru félagar
Í sögulegu samhengi eru stóru tíðindin í íslenskum stjórnmálum þessi:
Flokkurinn sem var vanur að tróna yfir öllum hinum, á 20. öldinni – gerir það ekki lengur. Flokkurinn, sem var myndaður úr frjálslyndum armi og íhaldssömum armi, er ekki lengur fær um að veita forystu og takast á við þær breytingar sem blasa við okkur á 21. öldinni; hann er klofinn – þvers og kruss.
Frjálslyndi vængurinn brotnaði í Viðreisn og fjaðrir úr þeim íhaldssama reitast nú til Miðflokksins. Fálkanum er að fatast flugið og hann er ósköp ráðvilltur.
Þetta eru stór tíðindi og aðrir flokkar þurfa að bregðast við.
Nú er runninn upp sá tími í íslenskum stjórnmálum og ég vona að vinir okkar sem halda nú landsfund á Grand hótel, heyri þetta vel og skilji, nú er runninn upp sá tími að íslensk stjórnmál hætti að snúast um hvaða félagshyggjuflokkur það er hverju sinni sem hleypst undan merkjum og laumar sér í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Þetta fyrirkomulag passaði kannski við pólitískt landslag 20. aldarinnar en nú er öldin önnur og landslagið er breytt . Því fyrr sem umbótaöflin í samfélaginu skilja þetta, og taka höndum saman, því betra.
En hvaða skyldum hefur flokkurinn okkar að gegna við þessar aðstæður sem nú eru uppi í íslenskum stjórnmálum?
Við, Samfylkingin, verðum að tala skýrt og skorinort , bjóða fram trúverðuga forystu í málum og sýna að það er til önnur leið; það er betri valkostur í boði, fyrir fólkið í landinu.
Ísland er ríkt land og það er hvorki óhjákvæmilegt eða réttlætanlegt að barn sem fæðist með varanlega fötlun sé dæmt til fátæktar út lífið , eldri hjón sem hafa stritað allt sitt líf þurfi að neita sér um læknisþjónustu, ungt fólk búi við slæmt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og flosni upp úr námi vegna þröngra skilyrða Lánasjóðsins – eða barnafjölskyldur hrekist um á ómanneskjulegum leigumarkaði.
Það er hægt að þróa samfélag þar sem fólk getur lifað með reisn og borið höfuðið hátt.
Við þurfum sanngjarnara skattkerfi, við þurfum að þora að sækja fram á sviði menntunar og sköpunnar, minnka vægi frumframleiðslu, sem drifin er áfram af nýtingu takmarkaðra auðlinda en sækja fram á einu ótæmandi auðlindinni- hugvitinu – sem vex meira að segja eftir því sem við notum það meira. Við þurfum raunverulega sókn í menntamálum!
Það er ekki einungis skynsamlegt til að þróa framsæknara atvinnulíf fyrir unga fólkið okkar, heldur er það líklegri leið til að byggja upp sjálfbært, kraftmikið samfélag sem verður í fremstu röð í baráttu gegn hamfarhlýnun.
Og góðu fréttirnar eru að það er hægt að breyta – og fordæmin eru svo sannarlega til staðar.
Af því við erum hér stödd í okkar ágætu höfuðborg skulum við rifja aðeins upp söguna.
Sjálfstæðisflokkurinn réð lögum og lofum nær óslitið í 60 ár og ríghélt í völdin með því að nota borgarkerfið sem úthlutunarapparat fyrir flokksgæðinga.
Eina sem þurfti til að hnekkja þessu var að umbótaaöflin í borginni stæðu saman. Reykjavíkurlistinn var myndaður fyrir 25 árum af mörgum ólíkum flokkum: Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi, Framsóknarflokki og Kvennalistanum og veitti svo trúverðuga og trausta forystu og gerði svo jákvæðar breytingar fyrir borgarbúa, að hann vann allar kosningar, þrjú kjörtímabil í röð! Reykjavíkurlistinn tapaði aldrei í kosningum.
Í dag erum við enn að vinna sigra í Reykjavík, og leiða mikilvægar breytingar.
Hér höfum við sýnt og sannað að það er hægt að vinna og það er hægt að vinna saman, í samstarfi við aðra flokka, við höfum fordæmið og þurfum að gera nákvæmlega þetta í landsstjórninni líka. Að sameina umbótaaöflin og leiða ríkisstjórn sem er fær um að takast á við framtíðina, ráðast í nauðsynlegar breytingar og gera betur fyrir fólkið í landinu.
Þetta er skylda okkar í dag og alla daga, því þetta er hið sögulega hlutverk Samfylkingarinnar; að fylkja saman fólki og knýja fram breytingar til hins betra,
hvort sem það er gert í einum stórum flokki eða góðu samstarfi margra flokka.
Kæru félagar.
Samfylkingin á 20 ára afmæli á næsta ári, árið 2020, og saga okkar er vissulega stormasöm, þó hún sé stutt, það er saga mikilla væntinga og vonbrigða, en margir mikilvægir sigrar hafi unnist á leiðinni.
Kosningarnar 2016 voru mikil vonbrigði, vægast sagt og algjör niðurlæging fyrir stórhuga stjórnmálaflokk.
En ég spyr, hvern hefði grunað að strax árið 2017 værum við komin til baka í þingkosningum og hefðum tvöfaldað fylgi flokksins , tvöfaldað þingmannafjölda Samfylkingarinnar? Og reyndar gott betur.
Og hvert ykkar hefði grunað, á þessum tíma, að strax árið 2018 ætti flokkurinn okkar eftir að koma svona til baka í sveitarstjórnarkosningum líka og vinna góða sigra, vítt og breitt um landið?
Og þá er ég ekki bara að tala um sigurinn hér í Reykjavík, sem ég nefndi áðan, heldur líka með þáttöku Samfylkingarinnar í meirihluta á Akureyri – í Reykjanesbæ – í Árborg – á Akranesi – þetta eru fjögur fjölmennustu sveitarfélög landsins utan höfuðborgarsvæðisins – og í Borgarbyggð og Norðurþingi og svo mætti lengi áfram telja… svo ekki sé minnst á sigra hér og þar undir merkjum sameinaðra lista félagshyggjufólks, sem við styðjum heils hugar → eins og t.d. í Fjarðabyggð, þar sem Fjarðalistinn felldi meirihlutann með 1 atkvæði… og á Seyðisfirði þar sem Seyðisfjarðarlistinn felldi meirihluta íhalds og framsóknar í fyrsta skipti síðan 1974.
Kæru félagar,
þessi árangur er ykkur að þakka, okkar sigrar og skýrt merki um það að Samfylkingin á ennþá sterkar rætur um land allt.
Ég má reyndar til með að ljúka þessari yfirferð með því að benda á eina stórmerkilega staðreynd um sveitarstjórnir á Íslandi: Vissuð þið að enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi, enginn flokkur er í meirihlutastjórnum fyrir hönd fleiri Íslendinga en flokkurinn okkar, Samfylkingin og munurinn er reyndar mikill á milli okkar og þess flokks sem kemur næstur að þessu leyti.
Það er greinilegt af þessu að Íslendingar treysta okkar fólki vel til að taka ákvarðanir um þau mál sem standa þeim næst í hinu daglega lífi; skólana, skipulagsmálin, öldrunarmálin, umhverfismálin og svo framvegis.
Höfum þetta hugfast hér í dag; við megum vera stolt og hnarreist af því að Samfylkingin er að mæta tilbaka af fullum krafti, jafnt og þétt, skref fyrir skref og það eru mikil sóknarfæri í landsmálunum líka. Þar erum við líka að endurheimta traust fólks — og sjálfstraustið í leiðinni.
Kjörtímabilið er hálfnað og samkvæmt næstum öllum könnunum kjörtímabilsins mælist Samfylkingin næst stærsti flokkur landsins. Við höfum mælst með stuðning hátt í 20% kjósenda, þó oft séum við nær 15%, og við þurfum að stefna hærra en eitt er víst: Ríkisstjórnarflokkarnir hafa fyrir löngu misst tiltrú og stuðning meirihluta kjósenda, þetta sýna allar kannanir.
Kæru félagar,
í þeim nýja veruleika sem nú er uppi í íslenskum stjórnmálum og ef við höfum sögulegt hlutverk Samfylkingarinnar í huga – þá liggur í augum uppi að næsta stóra verkefni okkar er þetta: Við verðum, og segjum það bara skýrt, við verðum að fella þessa ríkisstjórn í kosningunum 2021, til að mynda betri, djarfari og víðsýnni stjórn fyrir fólkið í landinu og komandi kynslóðir, við verðum að rísa undir þeirri ábyrgð.
Því þessi ríkisstjórn er ófær um að takast á við öll stóru framtíðarmálin og þær miklu áskoranir sem samfélagið okkar, og samfélög um allan heim, standa nú frammi fyrir.
Heimurinn breytist hratt og við þurfum að breyta í takt við tímann. Þó snjöllustu lausnirnar verði oft til við snúnustu aðstæðurnar, mun sú ósamstíga og hugmyndasnauða ríkisstjórn sem nú er við völd og er hvorki sammála um leiðir eða markmið, ekki bjóða upp á slíkar lausnir.
Við skulum taka nokkur dæmi.
Stjórnin er of svifasein og metnaðarlítil í loftlagsmálum enda er einum stjórnarflokkanna nokkuð sama um þau og virðist ekki hafa aðra stefnu en þvælast sem allra mest fyrir og aðhafast sem minnst.
“En hvað hafa komandi kynslóðir gert fyrir okkur?” Já, “hvað hafa komandi kynslóðir gert fyrir okkur?.” Svona spyrja helstu hugmyndafræðingar hins klofna og veiklaða Sjálfstæðisflokks og afhjúpa þar með vandræðalegan aulahátt og ráðaleysi flokksins andspænis stærstu áskorunum samtímans.
Þessi hugsun endurspeglar líka eina hlið hins djúpstæða vanda ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherrann er vissulega allur af vilja gerður, og hún er öflug í því að vekja athygli á þessum málum, en hún nær því miður litlum árangri, enda í rangri ríkisstjórn.
Ríkisstjórnin treystir sér ekki til að lýsa yfir neyðarástandi vegna hamfarahlýnunnar eða lögbinda markmið um kolefnishlutleysi sem skuldbindur hana til aðgerða. En þó ríkisstjórninn treysti sér ekki til þess að lýsa yfir neyðarástandi, þá ríkir sannarlega neyðarástand í loftslagsmálum.
Hér þarf róttæka stefnu og aðgerðir, til að tryggja að hægt verði að taka á vandanum án þess að honum sé alfarið velt yfir á þá sem lakast standa í landinu, með eintómum flötum sköttum og gjöldum, án mótvægisaðgerða, sem bíta auðvitað fastast hjá þeim sem bera minnsta ábyrgð á ástandinu.
Og hver er stefnan í menntamálum? Hvernig ætlar ríkissstjórnin að búa þjóðina undir breytingar á vinnumarkaði og störf framtíðarinnar? Nú, það stendur reyndar skýrt í fjárlagafrumvarpinu ríkisstjórnarinnar, það á að draga úr framlögum til menntamála, skera niður í skólunum okkar, stefna afturábak en ekki áfram…
Og í staðinn fyrir að stíga nauðsynleg skref í átt til fjölskylduvænna samfélags og semja við opinberra starfsmenn og háskólafólk um styttri vinnuviku, spyrnir ríkið niður fæti og skilaboðin eru býsna skýr. Á meðan laun ríkisforstjóra hafa hækkað um 40 – 80% þurfa sjúkraliðar, kennarar og hjúkrunarfræðingar að sætta sig við einungis 3%, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.
Það skyldi þó ekki vera að þetta tengist stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum? Þar sem fjármálaráðherrann hefur lagt mesta áherslu á lækka bankaskattinn og veiðigjöld á stórútgerðina. Þá er fyrirhugað að lækka erfðafjárskattinn, ekki síst á þau sem erfa mest og loks stendur til að búa til algjörlega einstakt fyrirkomulag til að tryggja fjármagnseigendum einum hópa í samfélaginu, sérstaka vernd gegn verðbólgu.
Svona er nú skattastefnan rekin, í skjóli vinstri grænna og ýtir undir enn meiri ójöfnuð í landi þar sem 5 prósent íbúanna eiga nú þegar jafnmiklar eignir og hin 95 prósentin.
Já, þetta er vond ríkisstjórn: Loftslagsmálin í lamasessi, menntamálin í afturför og skattastefna sem eykur ójöfnuð og til skammar fyrir alla nema harðsvíruðustu hægrimenn.
Þá eru ótalin samskipti Íslands við umheiminn.
Þar er staðan nú ekki beysin og gætir vaxandi einangrunarhyggju í stjórnarliðinu, þar sem stefnan virðist tekin á minni samvinnu við Evrópuþjóðir og aukna eftirlátssemi við vafasama stjórnarherra stórveldanna. Einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins keppast jafnvel við að apa upp það nýjasta eftir hægripopúlistum úti í heimi, í stað þess að standa vörð um hagsmuni Íslands, sem felast í alþjóðlegri samvinnu og frjálsum viðskiptum.
Það er ekki svona sem við búum í haginn fyrir unga fólkið okkar á 21. öldinni; þessari skammsýni og minnimáttarkennd í alþjóðamálum verður að linna. Við eigum að stefna í þveröfuga átt.
Ágæta flokksstjórn og kæru vinir.
Við þurfum sögulegt samhengi — til að greina sóknarfærin.
Það er sem sagt komin upp ný og gjörbreytt staða í stjórnmálum á Íslandi, sem felur í sér tækifæri til breytinga; sögulegt tækifæri, til að fylkja saman umbótaöflunum í landinu og sýna að það er til betri valkostur fyrir íslenskan almenning: Það er frumskylda okkar flokks að hafa forystu um þetta!
Stórar áskoranir bíða okkar , loftslagsmálin, kjaramálin, menntamálin – og við getum tekið á þeim með festu án þess að það bitni á þeim sem síst mega við því.
Við þurfum að koma hugsjónum okkar um frelsi, jafnrétti, framsýni og samvinnu í framkvæmd.
Og, við getum gert það. Við erum að vaxa, eflast og ávinna okkur aukið traust fólks um land allt.
Við verðum að halda áfram á þessari braut og við sem erum saman komin hér í dag, hvert og eitt okkar – getum haft mikil áhrif á gang mála.
Kærar þakkir, eigið gleðilegan og góðan flokksstjórnarfund“
https://gamli.frettatiminn.is/2019/10/17/fataekt-folk-a-islandi-sem-bidur-eftir-rettlaetinu-faer-582-kronur/