,,Leggja nótt við nýtan dag að standa vörð um óbreytt ástand til þess eins að hin ríku verði ríkari á kostnað allra annara“
Kæru félagar, stundið þið arðrán á fólki í fjarlægu landi? Stundið þið heimsent arðrán? Hafið þið heimsent arðrán yfir höfin til fólks sem hafði samt ekkert notað arðráns-appið til að panta sér íslenska arðránshlekki? Dreymir ykkur um nýlendu-yfirráð? Hafið þið siglt sömu leið og innblásnir landræningjar fyrri alda, til að hafa af fólki þeirra réttmætu eignir? Aðhyllist þið ipmeríalisma?
Eigið þið ykkur draum um að stela frá hinum fátæku til að gefa hinum ríku?
Kæra fólk,
Forsætisráðherra segir að aldrei sé hægt að koma í veg fyrir að maður þekki mann á Íslandi, maður hringir í mann til að spyrja hvernig honum líði, elsku vinur, það er ekki hægt að koma í veg fyrir það, en hún hefði auðvitað átt að segja: Ekki er hægt að koma í veg fyrir að herra þekki herra,
hún hefði átt að segja: Ekki er hægt að koma í veg fyrir að meðlimir yfirstéttarinnar þekki hvorn annan. Hún hefði átt að segja: Látiði nú ekki svona, auðvitað þekkir útgerðarauðvaldið sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins. Sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins er valin í starfið einmitt vegna þess að hann er maðurinn sem þekkir manninn. Það er nú ekki eins og þetta sé eitthvað flókið.
Kæru félagar,
hér er spurning: Hringdi ráðherra í ykkur þegar þið voruð á bömmer? Hér er spurning: Hringdi ráðherra í konuna sem var kastað í ruslið fyrir nokkrum vikum síðan, óléttu konuna sem var pínd og smánuð, hrakin burt, komin að því að fæða barn, hringdi ráðherra í hana til að spyrja hvernig henni liði eftir kynni sín af Stigveldinu Íslandi?
Kæru félagar, kæra fólk, kæru manneskjur.
Við erum í slag, þetta er slagur. Slagur um grundvallargerð samfélagsins. Slagur um hver fær að reikna og hvaða formúlur eru notaðar, slagur um það fyrir hverja er stjórnað, slagur um útdeilingu gæðanna: Fyrir hina fáu eða fyrir fjöldann, slagur um það hverju megi fórna; lífsgæðum fjöldans fyrir græðgi fárra eða græðgi fárra fyrir lífsgæði fjöldans, slagur um stéttskiptingu; slagur um það hvort við ætlum áfram að sætta okkur við að konan sem gætir barnanna okkar fái eftir þriggja áratuga starf, 280.000 krónur í ráðstöfunnartekjur á meðan að einn maður sölsar til sín á einu ári meira en fimm milljarða?
Hann er ekki auðveldur, þessi slagur. Mættir eru til leiks þeir sem hafa unnið hann árum og áratugum saman. Mættir eru til leiks þeir sem slást aldrei nema óheiðarlega. Mættir eru til leiks þeir sem að hafa fengið að komast upp með að allt sé sveigt að þeirra ofþöndu og útblásnu löngunum, þeirra yfirráða-órum, þeirra kapítalísku efnahagslögmálum. Mættir eru til leiks þeir sem sett hafa reglurnar, þeir sem sett hafa reglurnar með því að senda ráðherra skjal með track-changes til að hægt sé að setja réttu reglurnar rétt. Mættir eru til leiks hrokafyllstu og firrtustu menn Íslands, menn sem þekkja ekkert en að allar leikreglur séu samdar af þeim sjálfum.
En við erum líka mætt til leiks og við ætlum ekki að samþykkja reglur sem við tókum ekki þátt í að semja.
Slagurinn er hafinn. Hann er hinar eiginlegu samningaviðræður; þær eru hafnar, þær eru slagur og við ætlum að vinna!
Lýðræði ekki auðræði. Við sættum okkur ekki við að niðurstaða hins þjóðhagslega útreiknings sé að sífellt meira af auðæfum samfélagsins renni til nokkurra manna og afkomenda þeirra. Lýðræði ekki auðræði; við sættum okkur ekki við að tugum milljarða sé stolið af samfélaginu á hverju ári og þeir sendir í skattaskjól svo að fólk með skerta siðferðiskennd geti haldið áfram að næra peninga-blætið sitt. Lýðræði ekki auðræði; við sættum okkur ekki við áframhaldandi yfirráð auðvaldsins yfir tilveru okkar og barnanna okkar!
Kæra fólk,
við erum stödd mitt í afvegaleiðingar-andartakinu: þjóð, skömm, Íslendingur, ábyrgð, orðspor, stöðugleiki; tekst þeim að afvegaleiða, tekst þeim að láta okkur ganga enn einn hringinn, tekst þeim að smala okkur aftur á upphafsreitinn, tekst þeim að þreyta okkur, eða tekst okkur að standa saman og segja saman; nei, ekki Þjóð, skömm, íslendingur, ábyrgð, orðspor, stöðugleiki heldur Fólk, gleði, samstaða, dirfska, upprisa, réttlæti!
Ætlum við að vera viðföng í í sögu sem firrt fólk skrifar, lygasögu ritaðri af alkemistum auðræðisins, þeim sem leggja nótt við nýtan dag að standa vörð um óbreytt ástand til þess eins að hin ríku verði ríkari á kostnað allra annara? Eða ætlum við að vera persónur í okkar eigin sögu, þar sem að við vinnum fyrir okkur sjálf og fyrir hvert annað, laus undan lögmálum sem við fyrirlítum, frjáls til að setja saman okkar eigin reglur?
Á endanum er þetta svo einfalt:
Við höfnum auðræðinu! Við höfnum oflætinu!
Við viljum samfélag þar sem við lifum og störfum hlið við hlið, sama hvaðan við komum, hvað við kunnum, hvernig við tölum, þar sem við berum saman ábyrgð hvort á öðru, þar sem að við erum sannarlega samherjar, sameinuð í að tryggja öllum góða afkomu, þar sem við leggjum til eftir getu og uppskerum eftir þörfum. Samfélag þar sem við vitum þegar við förum að sofa á kvöldin að við sinntum okkar í sátt og samlyndi við annað fólk, þar sem við fórum í gegnum daginn laus við að kúga, laus við að arðræna, og laus undan kúgun, laus undan arðráni.
Kæru félagar, 1534 meðlimir Eflingar, verkafólk, þurfa að vinna í heilt ár, fulla vinnu, til að fá jafn mikið og einn maður, Þorsteinn Már, fékk á einu ári;
einn maður skiptir meira máli en allar þessar vinnandi hendur, allar þessar stritandi hendur vinnuaflsins sem búa til arðinn en eiga svo að sætta sig við að fá aðeins úthlutað brauðmolunum af hlaðborðinu, eiga að sætta sig við að mæta alltaf á nokkura ára fresti til að sníkja auðmjúk nokkra þúsundkalla í viðbót í samningaviðræðum við algjörlega forhert fólk; vinsamlegast, sjáið hvernig við buktum okkur og beyjum, vinsamlegast, mætti ég kannski fá aðeins meira?
Lýðræði ekki auðræði:
Ég hafna þessum leikreglum, ég hafna því að þetta sé niðurstaðan í samtalinu um samfélagið okkar, ég hafna öllu þessu mannfjandsamlega og fáránlega bulli, á hverjum einasta degi, allan ársins hring!
Ég er glöð yfir því að fá að hitta ykkur í dag, glöð yfir því að fá að hafna hér með ykkur hátt og snjallt yfirráðum auðvaldsins yfir tilveru okkar, yfir samfélaginu okkar og ég hlakka til að hitta ykkur fljótt aftur!
https://gamli.frettatiminn.is/2019/11/22/skipulagdur-glaepur-landrad/