„Æskilegt og í anda gagnsæis að almenningur verði upplýstur um hvað stendur í samningnum,“ segir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.
Landsvirkjun hefur óskað formlega eftir því við Rio Tinto, eiganda álversins í Straumsvík, að trúnaðarákvæðum verði aflétt af rafmagnssamningi fyrirtækjanna þannig að hægt verði að ræða opinberlega um meginefni samningsins.
Þetta kom meðal annars fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þar sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar var gestur Kristjáns Kristjánssonar. „Við teljum æskilegt og í anda gagnsæis að það væri upplýst meira um samninginn og þess vegna skrifuðum við bréf til Rio Tinto í síðustu viku þar sem við höfum óskað formlega eftir því við fyrirtækið að trúnaði sé aflétt af samningnum,“ sagði Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður sagði mikilvægt fyrir samfélagið að trúnaði sé aflétt. Í honum væru meðal annars ákvæði um endurskoðun sem eiga að tryggja samkeppnishæfni verksmiðjunnar og væri til mikils gagns fyrir alla að trúnaði yrði aflétt af þessum samningi þannig að aðilar gætu rætt um hann opinberlega.
Eins og þekkt er hefur Rio Tinto, eigandi álversins í Straumsvík, tilkynnt að leitað sé leiða til þess að bæta rekstur álversins í þeim krefjandi aðstæðum sem nú eru uppi á álmörkuðum og hefur sjónum meðal annars verið beint að raforkusamningnum við Landsvirkjun.
Landsvirkjun og álverið í Straumsvík hafa átt í farsælu og löngu viðskiptasambandi frá stofnun. Núgildandi raforkusamningur milli Landsvirkjunar og Rio Tinto hefur verið í gildi síðan 2010 og var endurskoðaður 2014.
https://gamli.frettatiminn.is/fyrirtaekid-ekki-eins-illa-statt-og-buid-er-ad-fullyrda-i-hraedsluarodri-gagnvart-starfsfolki-og-stjornvoldum/
.