Í dag greindust fimm einstaklingar með COVID-19 smit í Vestmannaeyjum og eru staðfest smit hér því orðin 7 talsins. Snemma dags kom í ljós að starfsmaður á leikskólanum Sóla var með staðfest smit og var leikskólanum þá þegar lokað á meðan málið yrði rakið.
Nú liggur niðurstaða fyrir og vegna smitsins á Sóla eru 55 komnir í sóttkví, þar af eru 27 starfsmenn og 14 börn. Þá ber að geta þess að börnin tilheyra einum kjarna leikskólans. Ástæðulaust er að telja að fleiri börn leikskólans hafi verið útsett fyrir smiti enda höfðu verið gerðar ráðstafanir til að takmarka samneyti barnanna á milli deilda. Eftir daginn eru samtals 133 í sóttkví í Vestmannaeyjum. Smitrakning hinna fjögurra tilfellanna er þegar hafin en eitt þeirra varðar aðila sem þegar var í sóttkví.